02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

355. mál, tilkynningarskylda íslenskra skipa

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að hreyfa þessu máli hér, en hann varð mér þar aðeins fyrri til.

Ástand þessara mála á Skagafirði og Húnaflóa ásamt miðunum þar út af er vægast sagt svo slæmt að við svo búið má vart standa öllu lengur. Hér er um mikið öryggismál að ræða fyrir þá er sjósókn stunda og óviðunandi að þurfa að búa við slíkt öryggisleysi sem hér um ræðir.

Samkv. skipaskrá eru um 40–50 bátar á Skagafjarðar- og Húnaflóasvæðinu sem róa meira og minna á innmið. M.a. er þar um rækjubáta að ræða. Þessir bátar þurfa að inna af hendi tilkynningarskyldu og njóta ýmissar þjónustu, eins og gefur að skilja. Þegar dimmt er orðið hafa þessir bátar alls enga möguleika á að hafa samband við Siglufjarðarradíó vegna erfiðra skilyrða á millibylgjum, eins og kom reyndar fram áðan hjá hv. fyrirspyrjanda.

Eins og ég sagði er þetta ástand algerlega óviðunandi og verður að bregða skjótt við og koma upp örbylgjustöð yst á Skaga. Ég fagna því sem hér kom fram frá hæstv. sjútvrh., þar sem hann skýrði frá því að nú væri ákveðið að koma slíkri stöð upp á komandi ári. Hér er um mikið öryggismál sjófarenda að ræða. Ég treysti því, að það standi, sem hæstv. sjútvrh. sagði, og við sjáum framkvæmdir á komandi ári, a.m.k. á þessu svæði sem ég gerði að umræðuefni, en þar þekki ég einna best til.