02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

355. mál, tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. svör hans við þessum fsp. og hefði haft af því ánægju að fá upplýsingar síðar um sundurliðun kostnaðar í sambandi við þessar framkvæmdir.

Samkv. þessu svari er ætlað að á næstunni verði búið að framfylgja lagaskyldunni svo að hægt sé að framkvæma tilkynningarskyldu íslenskra skipa með því að tryggja metrabylgjusamband fyrir þessi þrjú svæði. Í svari ráðh. segir hann að það muni verða gert í síðasta lagi á árinu 1981, og ber að fagna því. En ástandið, sem þarna er og hefur verið, hefur verið vandræðaástand og mikið öryggisleysi fyrir sjófarendur á þessu svæði.