02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 107 spyrja hv. 5. þm. Norðurl. e., Guðmundur Bjarnason, og hv. 6. þm. Norðurl. e., Árni Gunnarsson, um ákvarðanatöku vegna varaflugvallar fyrir millilandaflug. Ég gæti að vísu svarað þessu í mjög stuttu máli og upplýst að engin slík ákvörðun hefur verið tekin, en tel þó rétt að fara fáeinum orðum um þessa fsp., þótt almenns eðlis verði.

Ég geri ráð fyrir því, eins og reyndar kom fram í spurningu hv. þm., að kveikjan sé þær fréttir sem nýlega hafa birst um nauðsyn á byggingu slíks varaflugvallar. Reyndar má segja að það sé ekki nýtt. Það hefur oft verið á þetta bent og réttilega verið á það bent, að ef slíkur varaflugvöllur væri fyrir hendi hefði hann getað sparað, t.d. í millilandaflugi okkar, mjög mikið fjármagn fyrir flugfélögin því að þá gætu þau flogið með miklu minna eldsneyti, þyrftu ekki að hafa eldsneyti til þess að komast til flugvalla sem liggja langt í burtu, jafnvel aftur til upphafsstaðar. Í því felst mikill kostnaður að bera slíkan umframþunga og í því er aðallega sparnaðurinn fólginn að hætta því.

Nú hafa þessi mál aftur verið á dagskrá og mun flugráð s.l. vor hafa ákveðið að leita álits þeirra íslensku flugfélaga sem reka stórar millilandaflugvélar, þ.e. Flugleiða hf., Iscargo hf. og Arnarflugs, um fullnægjandi varaflugvöll á Íslandi, m.a. þá hvar þessi flugfélög teldu nauðsynlegt að koma á slíkum flugvelli. Eftir því sem ég veit best munu engin svör hafa borist frá þessum flugfélögum. Flugráð fól síðan sérstakri nefnd, sem er skipuð fulltrúum umræddra flugfélaga og öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, að veita umsögn um val slíks millilandaflugvallar. Nefndin skilaði sameiginlegri skýrslu þar sem Sauðárkróksflugvöllur var lýstur heppilegastur til að gegna framtíðarþörfum sem varaflugvöllur í millilandaflugi um Keflavík og/eða Reykjavík.

Í bréfi til rn., dags. 10. okt. s.l., greinir flugráð frá því sem ég hef nú upplýst, þ.e. þessari bráðabirgðaniðurstöðu nefndarinnar, en bendir jafnframt réttilega á að frekari athuganir og upplýsingar séu nauðsynlegar, m.a. um fjárhagslega hagkvæmni er leiddi af tilveru slíks varaflugvallar, og sömuleiðis sé nauðsynlegt að gera áætlanir um kostnað, uppbyggingu og rekstur slíks flugvallar. Rn. hefur fyrir sitt leyti talið eðlilegt að þessi athugun haldi áfram, og ég fyrir mitt leyti samþykkti það með áritun á fyrrnefnt bréf, þar sem ég lýsi því, að ég tel málið athyglisvert og þarfnist nánari athugunar, eins og fram kemur í bréfi flugráðs. Þessi athugun mun síðan hafa verið í gangi á vegum nefndarinnar sem ég gat um áðan.

Í bréfi nefndarinnar koma fram ýmsar athyglisverðar upplýsingar og ætla ég, með leyfi forseta, að drepa á fáeinar. Þar segir m.a.:

„Sameiginlegt er með öllum þeim flugvöllum, sem til greina koma, að næturflugsmöguleikar eru mjög takmarkaðir. Talið er rétt að allt næturflug sé miðað við blindflugsaðflug. Allir nefndir flugvellir teljast nothæfir til lendingar þegar Keflavík er lokað.“ Vísast í því sambandi til skýrslu flugvallanefndar, sem hv. þm. gat um áðan, um samanburð á skilyrðum. — „Auk þeirra þátta, sem um hefur verið getið, teljum við nauðsynlegt að taka tillit til þess, hvort valinn varaflugvöllur verði veðurfarslega opinn einnig þegar Keflavíkurflugvöllur er opinn þannig að hægt sé að skrá viðkomandi flugvöll sem varaflugvöll í þeim tilfellum.“

Til grundvallar hefur nefndin lagt eftirfarandi kröfur, sem teljast nauðsynlegar til þess að flugvöllur teljist fullnægjandi varaflugvöllur fyrir stærri millilandaflugvélar:

a. Lengd flugbrautar sé minnst 2287 metrar eða 7500 fet.

b. Burðarþol sé ekki minna en LCN 80, hvað sem það nú þýðir, ég hef það ekki hér við höndina, en það mun vera burðarþol fyrir stærstu vélar, m.a. breiðþotur.

c. Umhverfi flugvallar sé slíkt, að blindflugsaðflug sé óhindrað í báðar áttir og leyfi a.m.k. CAT-1 aðflug, hvað sem það nú þýðir. (Gripið fram í: Category 1.) Já, ég veit. Að vísu category 1. En hvað þýðir category 1 nánar útlistað? (Gripið fram í: 600 fet.) 600 fet, segir fyrrv. flugráðsmaður. — Enn fremur sé umhverfið slíkt, að flugmenn, sem ekki eru kunnugir staðháttum, telji völlinn nothæfan varaflugvöll.

Síðan fjallar nefndin, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, um þá flugvelli, sem taldir hafa verið koma til greina, og kemst næst því að fullnægja þessum skilyrðum. Lengd flugbrautar þar er 2014 metrar. Jafnframt segir svo:

„Talið er mögulegt að tengja hana tiltölulega kostnaðarlítið um 290 metra til norðurs og 60 metra til suðurs. Þannig fengist brautarlengd sem er 2364 metrar fyrir lendingu til norðurs og 2264 metrar til lendingar til suðurs.“

Jafnframt segir svo: „Með verulegum kostnaði má nánast fá ótakmarkaða brautarlengingu til suðurs. Undirstaða vallarins er góð, umhverfi flugvallarins er ákjósanlegt og óhindrað aðflug úr báðum áttum.“

Um þetta er svo nánar fjallað. Er velkomið að afhenda hv. fyrirspyrjendum bréfið, en ég sé ekki ástæðu til að lesa meira upp vegna þess að svarið við fsp. er í raun og veru einfalt. Það hefur engin ákvörðun verið tekin og málið er enn í athugun.

Í 1. lið er spurt: Hver tekur slíka ákvörðun? — Að sjálfsögðu verður fjárveitingavaldið að taka slíka ákvörðun og þar með hv. Alþingi. Til að útbúa slíkan flugvöll þarf mikið fjármagn sem ekki liggur fyrir enn þá og er eitt af því sem þarf að skoða. Beiðni um slíkt er að sjálfsögðu unnt að leggja fyrir Alþingi og þar með ákvörðun um gerð slíks flugvallar.

2. liður er: Hefur slík ákvörðun verið tekin? — Hún hefur, eins og ég hef margsagt, alls ekki verið tekin? 3. Hafi ákvörðun ekki verið tekin, er hennar þá að vænta? Hvaða staðir koma helst til greina? Hver eru aðalrökin með og móti hverjum þeirra? — Tillagna er að vænta frá flugráði og þá verður væntanlega nánar fjallað um þá staði sem koma til greina, en ég gat áðan um Sauðárkróksflugvöll sem að mati nefndarinnar kemst næst því að koma til greina. Um Húsavíkurflugvöll segir m.a.:

„Flugbrautin er 1560 metrar, en talið mögulegt að lengja hana í 2700 metra. Lenging þyrfti að vera til norðurs, því með lengingu til suðurs yrði aðalflugtak illa staðsett og líklega ekki hægt að fá hallageisla fyrir aðflug úr suðri. Það er talið að undirstaða flugvallarins sé óviss, þar sem byggt er á hrauni. Umhverfi vallarins er betra en á Egilsstöðum og Akureyri. Hindrun við suðurenda flugbrautar gerir aðflug óhagstæðara en á Sauðárkróki, sem er hindrunarlaus. Staðsetning flugvallarins er í það lengsta frá Húsavíkurkaupstað til að nota slökkvilið staðarins fyrir flugvöllinn. Fjarlægð til næsta byggðarlags er vel við unandi, en fjarlægð frá Keflavík 50 sjómílum lengri en til Sauðárkróks þannig að það þyrfti meira eldsneyti til að nota hann sem varaflugvöll.“

Um Egilsstaði segir: „Brautarlengd á Egilsstöðum er 1500 metrar, en hægt að lengja brautina í 1800 metra. Nauðsynlegt yrði að skipta alveg um jarðveg. Aðflugsskilyrði eru ekki góð, umtalsverðar hindranir í aðflugi. Aðrir flugvellir, sem til greina koma, eru nær Keflavíkurflugvelli.“

Um Akureyri segir: „Nefndin telur að möguleiki til blindflugs á Akureyri sé fyrir ofan það mark sem nauðsynlegt telst til að nota þann flugvöll sem varaflugvöll í millilandaflugi.“

Þetta bráðabirgðamat útilokar því að nefndarinnar mati Akureyrarflugvöll og jafnframt Egilsstaðaflugvöll. Matið virðist þá liggja á milli Húsavíkur og Sauðárkróks, en eins og ég gat um áðan telja þeir Sauðárkróksflugvöll fullnægja betur settum skilyrðum. Hins vegar sagði mér einn ágætur umhverfismáður fyrir nokkrum dögum, að ætti að lengja Sauðárkróksflugvöll til suðurs þyrfti að loka þar ákveðnu síki sem mundi hafa miklar og alvarlegar afleiðingar og kannske hækka vatnsborð um hálfan metra. Hver veit hvað því fylgir?