02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans við fsp. okkar hv. þm. Árna Gunnarssonar. Það er auðvitað, eins og vænta mátti, margt sem þarf að skoða í þessu máli og kemur fram í svari hans nú þegar varðandi þær kannanir sem hafa nýlega verið gerðar af nefnd sem hefur unnið að þessum málum.

Hæstv. ráðh. telur varla aðra velli en á Húsavík og Sauðárkróki koma til greina í þessu sambandi og bendir þó á það, sem einnig kom fram í blaðafréttum og í nefndaráliti, að Sauðárkróksflugvöllur hafi þar ýmsa möguleika fram yfir. Þetta finnst mér muni skjóta nokkuð skökku við það sem fram hefur komið í könnunum eða athugunum sem áður hafa farið fram, en ég ætla að sjálfsögðu ekki að deila um það. Ég óska eftir að fá þær upplýsingar eða það álit sem samgrh. sagði hér frá og las upp úr. Það er fróðlegt að sjá það og bera saman við fyrri athuganir sem hafa átt sér stað í þessu sambandi.

Mér finnst að auðvitað hljóti öryggismál að ráða miklu og trúlega mestu þegar slíkt er athugað, en ákaflega margt fleira þarf þó að skoða í sambandi við rekstur og nýtingu vallarins að öðru leyti. Ég vil til fróðleiks láta það koma fram hér, að umferð um Húsavíkurflugvöll hefur vaxið gríðarlega á síðustu 10 árum. Í samanburði við aðra flugvelli er það langsamlega mest. Þar hefur farþegafjöldi vaxið á tímabilinu 1971–1979 úr 4 224 í 14 897 eða um 253%. Sambærilegar tölur fyrir Sauðárkrók eru 6 044 farþegar 1971 og 10 813 farþegar 1979, sem er 79% aukning. Aðrir flugvellir, eins og Akureyri, Egilsstaðir, Ísafjörður og fleiri, eru með um og yfir 100% aukningu, en farþegaaukning og umferð um Húsavík virðist háfa aukist langsamlega mest á þessu tímabili.

Þá má geta um aðstæður á Húsavík til þess að taka við miklu fjölmenni, stórum farþegahópum. Þar er gott hótel í nágrenni og líka skammt til hótelrýmis í Mývatnssveit svo og heimavistarskóla í næsta nágrenni, svo að eitthvað sé talið. En þetta þarf auðvitað allt saman að athuga mjög ítarlega ef og þegar að því kemur að ákveða þetta endanlega.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa ályktun sem mér hefur borist. Hún er gerð á fundi í bæjarstjórn Húsavíkur hinn 27. nóv. 1980 og hljóðar svo:

„Bæjarstjórn Húsavíkur skorar á flugmálayfirvöld að flýta framkvæmdum við Húsavíkurflugvöll og auka fjárveitingar til þessara framkvæmda.

Jafnframt skorar bæjarstjórn Húsavíkur á alþm. kjördæmisins að fylgja fast eftir auknum framkvæmdum við flugvöllinn og að þeir beiti sér fyrir fjárframlögum til framkvæmda.

Þá minnir bæjarstjórn Húsavíkur á margar yfirlýsingar sérfróðra manna um ágæti og hagkvæmni Húsavíkurflugvallar sem varaflugvallar fyrir millilandaflug, bæði hvað varðar aðflugsaðstöðu, veðurfar og framkvæmdakostnað, auk hinnar ágætu aðstöðu Húsavíkur til móttöku ferðamanna.

Bæjarstjórn Húsavíkur skorar því á flugmálayfirvöld og viðkomandi stjórnvöld að fá hlutlausa erlenda aðila til þess að meta hvar á landinu sé best aðstaða fyrir alþjóðlegan varaflugvöll sem svari ítrustu alþjóðlegum kröfum.“

Þarna er auðvitað fjallað um fleira en varaflugvöllinn, en ég vildi að þetta kæmi hér fram. Ég vonast til þess, að þegar að því kemur að taka ákvörðun um varaflugvöll fyrir millilandaflugið verði allir þættir skoðaðir mjög gaumgæfilega og ákvörðun tekin að vel yfirveguðu máli, en ekki tilviljanakennt eða eftir geðþótta einhverra fárra aðila, og að þá verði jafnframt, auk þess sem öryggisþátta verði auðvitað gætt til hins fyllsta, skoðaðir allir aðrir rekstrar- og arðsemisútreikningar og möguleikar Húsavíkurflugvallar.

Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. samgrh.