02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er nú ekki hægt annað en taka nokkurn þátt í þessum orðaskiptum, þó að takmörkuðu leyti sé.

Ég vil taka undir það hjá hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni, að ég held að hér þurfi að athuga alla þætti mjög vel áður en ákvörðun verður tekin, hér megi engin geðþóttaákvörðun ráða. Það er útilokað annað en að minna á þær miklu umræður sem hafa orðið um varaflugvöll fyrir millilandaflug á undanförnum árum og ýmsar sveiflur hinna færustu manna í þeim efnum, þar sem þær hafa verið æðimiklar.

Stundum hafa hinir færustu menn í þessum efnum talið að enginn staður væri til þess kjörnari en Egilsstaðir að taka við hlutverki slíks varaflugvallar. Nú heyrir maður raddir annarra manna — sem eflaust eru jafnfærir eða á svipaðan máta — sem telja annan flugvöll koma til greina. Ég vil ekki dæma um færni þeirra, enda hef ég ekki mikla sérþekkingu á því.

Það er ljóst, að við eystra þurfum verulegar endurbætur á okkar flugvöll og það kostar töluvert að gera þar myndarlegan flugvöll. Hins vegar er alveg ótvírætt að það þarf að gera hvort sem er. Ég vil þess vegna skjóta því hér að, að það er vitanlega okkar krafa eystra að á næstu árum verði allir möguleikar kannaðir varðandi nýjan flugvöll á Egilsstöðum og að hinir færustu menn taki þá til greina, að með tilkomu slíks nýs og fullkomins flugvallar, sem vissulega verður þar að koma, verði sá möguleiki skoðaður ekki síður en hann var skoðaður á árum áður, þegar Egilsstaðaflugvöllur var í raun og veru talinn hinn sjálfsagðasti í þessum efnum. Ég dreg ekki í efa álit þeirra mætu manna sem um það fjölluðu þá.