02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt. — Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Garðari Sigurðssyni fyrir ummæli hans hér. Hann talar af þekkingu á þessum málum, hann hefur starfað að þeim. Hann kom raunverulega að kjarna þessa máls og sagði það sem um þetta mál þurfti raunverulega að segja.

En ég kom líka upp til að bæta því við og til þess að fyrirbyggja misskilning út af þeim fregnum sem hæstv. sjútvrh. og samgrh. flutti hér, að það væru kannske möguleikar á að Skagafjörður færi undir vatn ef völlurinn ætti að lengjast um einhverja tugi metra til suðurs og nálgaðist Víkina sem kölluð er og suðurendi þessarar flugbrautar liggur að. Þetta er svo mikil fásinna að, ég ætta að biðja hæstv. ráðh., vegna þess hvað hann er kunnugur staðháttum hjá okkur Skagfirðingum, að trúa alls ekki þessum sögum og ekki halda þeim á lofti, því það er hrein fásinna að tala svo um þetta.

Ég ætla ekki frekar að fjölyrða um þetta hér. Ég vildi bara segja það í sambandi við þær tölur sem hér komu fram um farþegafjölda, bæði um Húsavíkurflugvöll og Sauðárkróksflugvöll, að um það þarf ekkert að ræða. Við þurfum vitaskuld að byggja upp flugvelli bæði á Húsavík og fyrir austan og vestan. Flugvellirnir þurfa vitaskuld að koma. Við erum að tala um varaflugvöll sem öryggisþátt millilandaflugsins. Það er afgerandi og tvímælalaus niðurstaða þeirra manna, sem best þekkja til, að þar verði Sauðárkróksflugvöllur fyrir valinu. Það liggur ljóst fyrir. Ég undirstrika það og færi um leið fyrirspyrjendum þakkir fyrir að vekja máls á þessu, en ég vil líka undirstrika nauðsyn þess, að ákvörðun verði tekin og skrefið stigið til fulls í þessum efnum.