02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

97. mál, varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að blanda mér í það, hver fær þennan millilandaflugvöll, því að ég hélt ég hefði tekið nógu skýrt fram að það er langt í ákvarðanatöku. Ég bið menn að fara ekki að búa til millilandaflugvöll áður en við erum búin að fá niðurstöðu. Ég ætla aðeins, til að gera mönnum ljóst hvað þarna er margt óvisst, að spyrja t.d.: Fyrir hvað ætlið þið að gera millilandaflugvöll? Er það fyrir 727-vélar? Ef við ætlum að gera það, þá geta þær lent á Akureyri nú þegar. Og þá er alveg tvímælalaust nóg að malbika Sauðárkróksflugvöll eins og hann er. Eða ætlið þið að gera flugvöll fyrir DC-8? Þá er spurningin: Verður Norður-Atlantshafsfluginu haldið áfram eftir ár? Þá þurfum við lengri flugvöll. Þær flugvélar geta ekki lent á Akureyri og ekki aðstaða til að koma þeim inn til Akureyrar með góðu móti. Þá yrði þetta líklega annaðhvort Sauðárkróksflugvöllur eða t.d. Húsavík — eða Egilsstaðir, eða kannske allir þrír ef menn vilja hafa nógu mikið öryggi. Eða ætlum við að fara að byggja millilandaflugvöll fyrir breiðþotur, sem fljúga yfir Atlantshafið núna og stansa hvergi, og reyna að sannfæra þá, sem þeim fljúga, um að þeir geti tekið með sér minna bensín og sparað á því að lenda hér og taka eldsneyti til viðbótar o.s.frv.? Málið er langt, langt frá því að vera komið í höfn. Ég vil aðeins lýsa þeirri skoðun minni, að ég held að við þurfum fyrr varaflugvöll fyrir Ísafjörð heldur en varaflugvöll fyrir breiðþotur sem fljúga milli London og New York núna.

En varðandi það að Sauðárkrókur fari undir vatn, sem ég skaut inn í áðan, þá var það satt að segja mjög kunnugur maður sem varaði mig við þessu og sagði að ef Síkinu yrði lokað þarna suður af — (Gripið fram í: Því verður ekki lokað.) Það er nefnilega það, já. Það er hins vegar ekki með í þeim kostnaði sem þarna hefur verið nefndur. Og þessi maður fullyrti að það að loka Síkinu og færa töluvert suður útrásina hækkaði að öllum líkindum vatnsborð á svæðinu um hálfan metra, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. En ef svo er, þá er mönnum að mæta þar sem umhverfismenn eru, svo það er kannske rétt að hv. þm. séu ekki heldur að bóka millilandaflugvöll á þessu stigi.