22.10.1980
Efri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Ég vil ekki, herra forseti, sitja undir því að vera gerður ósannindamaður með tilvitnunum í fjárlagafrv. Og vegna þess að mér var bent á að lesa það, sem stæði á síðu 175 í frv., vil ég nú leyfa mér að lesa pínulítið lengra, þannig að þm. eða aðrir, sem á kynnu að hlýða, séu ekki blekktir með röngum tilvitnunum. En hér segir, með leyfi forseta:

„Nettó-álagning tekjuskatts einstaklinga hefur því samkv. þessum tölum numið tæpum 45 milljörðum kr. og er það 1.5 milljörðum umfram fjárlagaáætlun.“

Þetta er setningin sem hv. þm. vitnaði í. En síðan segir Þjóðhagsstofnun, sem að sjálfsögðu hefur samið þennan texta:

„Á hinn bóginn verður að gera ráð fyrir að þessar fyrstu álagningartölur séu ofmetnar.“

Þetta vildi hv. þm. ekki lesa og ekki heldur það sem segir hér á eftir:

„Hér má nefna m.a., að vegna hinna nýju ákvæða skattalaga um heimild til ákvörðunar launa sjálfstæðra atvinnurekenda af eigin rekstri eru fyrstu álagningartölur ótryggari en ella. Meira máli skiptir þó, að reynsla undangenginna ára, ekki síst ársins 1979, bendir til að endanlegar álagningartölur muni reynast nokkru lægri en fyrstu tölur. Með hliðsjón af þessu er nettó-álagning 1980 nú áætluð 43.7 milljarðar kr. og er það svipað og í fjárlögum.“ (Gripið fram í: Og eilítið hærra.) Svipað og í fjárlögum. (Gripið fram í: Það eru 400–500 millj. sem barnaskattarnir nema.) Nei, það er ekki rétt. Þetta er nokkurn veginn alveg sama talan. Og ef þetta er vefengt verð ég víst að lesa næstu setningar þar á eftir:

„Tölur ríkisreiknings fyrir árið 1979 sýna annars vegar töluverða lækkun álagningartalna frá skattskrá 1979, en hins vegar virðist innheimta hafa orðið meiri í hlutfalli við gjaldfallnar tekjur, þ.e. álagðan skatt á árinu og eftirstöðvar frá fyrri árum, en bráðabirgðatölur gáfu til kynna. Samkvæmt þessu hafa fyrri áætlanir um gjaldfallnar eftirstöðvar í ársbyrjun verið of háar. Þessi atriði benda því til þess, að innheimtustofn tekjuskatts einstaklinga á þessu ári verði nokkru lægri en áður var talið, en á móti kemur heldur hærra innheimtuhlutfall, ef marka má reynslu s.l. árs.“ Og síðan kemur niðurstaðan — og ég undirstrika að þessi texti er ekki saminn í fjmrn., heldur í Þjóðhagsstofnun: „Að teknu tilliti til alls þessa má ætta, miðað við sömu forsendur um innheimtu og á árinu 1979, að um 39 milljarðar verði innheimtir af tekjuskatti einstaklinga á árinu 1980, að meðtalinni innheimtu byggingarsjóðsgjalds og innheimtu af eftirstöðvum hinnar sérstöku álagningar í árslok 1978.“

Þessi tala, 39 milljarðar, er mjög nærri að vera sama tala og er í fjárlögum. Þar skeikar að vísu 200 millj., því talan er 38.8 milljarðar, en þar með hefur ýkjutala þm. lækkað úr 1.5 milljörðum niður í 200 milljónir. Er þó öllum ljóst, að þó að skekkjan geti numið 200 millj. af 40 milljörðum, — það er rétt um 1%, liðlega 1%, — getur hugsanlegt skekkjuhlutfall ekki verið minna.

Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess að þm. éta það hver eftir öðrum að ég fari með rangt mál, en svo er alls ekki.