02.12.1980
Sameinað þing: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

64. mál, launasjóður rithöfunda

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umr. till. til þál. um Launasjóð rithöfunda. Eins og fram kemur í grg. var till. sama efnis flutt á síðasta þingi og það er, eins og hér hefur reyndar komið fram, vegna mikillar óánægju og andmæla fjölmenns hóps íslenskra rithöfunda út af síðustu úthlutun starfslauna úr Launasjóði rithöfunda í mars s.l. Sú endurskoðun, sem hér er lagt til að verði framkvæmd, mundi að dómi flm. geta komið í veg fyrir deilur af því tagi sem uppi hafa verið. Till. felur ekki í sér ákveðnar tillögur um breytingar. Það yrði hlutverk væntanlegrar þar til skipaðrar nefndar.

Ég á því erfitt með að skilja að rithöfundar, sem eru ánægðir með núverandi fyrirkomulag, skuli ekki þola að þessi mál verði endurskoðuð, einmitt vegna óánægju, að þeirra áliti, minni hluta í hópi rithöfunda. Ég sé satt að segja enga annmarka á því, að nefnd á vegum Alþingis endurskoði lög sem það hefur sett, jafnvel þrátt fyrir það að Rithöfundasambandið sé að endurskoða þetta mál. Rithöfundar verða þá væntanlega betur undir það búnir að gefa umsagnir ef til þeirra verður leitað. Ég leyfi mér að mótmæla því alfarið, að þáltill. sé tilræði við Launasjóð rithöfunda. Það felst mikill misskilningur í þessu áliti þeirra, að svo sé. Og mér finnst það furðulegt, að rithöfundar skuli óska eftir því eða gera kröfu um að þessari till. verði vísað frá. Ef þeir vilja halda sig við lýðræðislegar reglur, sem ég efast ekki um að þeir vilja, þá sýnist mér ekki óeðlilegt að einmitt þetta mál sé skoðað af þeim sem settu lögin upphaflega.