02.12.1980
Sameinað þing: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

64. mál, launasjóður rithöfunda

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örstuttar leiðréttingar á því sem menn hafa sagt hér. — Hvorki hefur stjórn Rithöfundasambandsins né rithöfundar sjálfir úthlutað launum úr sjóðnum, heldur þriggja manna nefnd sem tilnefnd er af Rithöfundasambandinu. Og eins og ég sagði áðan, og þá held ég að þetta hljóti að geta legið nokkuð ljóst fyrir, er sú nefnd kjörin til þriggja ára og má ekki verða kosin aftur, og þessir þrír menn mega ekki vera félagar í Rithöfundasambandinu. Það er þess vegna gersamlega út í hött að væna formann Rithöfundasambandsins um áhrif á úthlutun, eins og ég held að hv. þm. hljóti þar með að verða ljóst.

Það hefur verið talað hér um þröngsýni stjórnar Rithöfundasambandsins. Ég held að það sé einmitt tilraun til þess, að allrar víðsýni sé gætt, að það sé ekki þingkjörin nefnd sem úthlutar launum úr Launasjóði rithöfunda. Það er kannske ekki alveg út í hött að óttast þá einmitt pólitíska flokkadrætti sem oft hafa sett svip sinn á slíkar úthlutanir, þótt ég vilji taka það fram, að það hefur staðið til stórbóta. Nægir þar að nefna úthlutunarnefnd listamannalauna sem óvenjulega hljótt hefur verið um. Ég held að óánægja þessara 43 rithöfunda í fyrra hafi ekki verið óánægja gagnvart lögunum né Rithöfundasambandinu, heldur þá e.t.v. þessum þrem mönnum sem nefndina skipuðu. Þeir geta haft sínar meiningar um það, en þeir menn verða ekki nema þriggja ára kjörtímabil og þá kemur önnur úthlutunarnefnd, þannig að ég held að það leysist af sjálfu sér.

Eins og ég benti á áðan hafnaði fjölmennur aðalfundur Rithöfundasambandsins endurskoðun á lögunum, en einmitt á þeim fundi, sem var haldinn í júní á s.l. sumri, báru fulltrúar hinna 43 fram tillögu um, að reglugerðin yrði endurskoðuð, og hver einasti fundarmanna greiddi því atkvæði. Úr því að þess var óskað var það talið alveg sjálfsagt og þrír fulltrúar rithöfunda kosnir í nefnd til að endurskoða reglugerð.

Ég held að við getum öll verið sammála um að æskilegast sé að rithöfundar og aðrir listamenn ráði sem mest sínum ráðum sjálfir. Ég held að ekkert okkar langi í of mikla flokkspólitíska afskiptasemi um viðkvæm mál eins og úthlutun úr sjóðum rithöfunda. Ég held að við höfum dæmin fyrir okkur fyrir austan tjald þar sem stjórnmálamenn eru að gefa línuna í þeim efnum. Ég held að okkur langi tæplega til að taka upp þá siði.

Til þess að mönnum sé alveg ljóst út á hvað þessi undirskriftasöfnun gengur, þá er, með leyfi forseta, textinn fyrir ofan nöfnin sem hér segir:

„Við undirrituð, félagar í Rithöfundasambandi Íslands, erum andvíg því, að Alþingi breyti lögum um Launasjóð rithöfunda þannig að þingkjörin nefnd úthluti úr sjóðnum. Við teljum að val stjórnar Launasjóðs rithöfunda eigi að vera í höndum samtaka rithöfunda sjálfra eins og verið hefur.“

Það er kannske ekki alveg að furða þó að rithöfunda gruni til hvers þessi leikur sé gerður, því að í grg. segir svo, með leyfi forseta, hvað sem flm. segir svo um það mál:

„Þá bæri einnig að skoða þá hugmynd, hvort ekki væri farsælast, þegar öll kurl koma til grafar, að stjórn Launasjóðsins yrði skipuð af Alþingi.“ Vegna þessara orða er þessi undirskriftalisti auðvitað til kominn.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um það. En ég held, að innan Rithöfundasambands Íslands hafi ríkt meiri friður undanfarið en verið hefur um langt skeið, og ég held, að það sé mjög til skaða að fara að hrófla við lögum sem raunar voru samþykkt 1975. Við alþm. hljótum líka að ætlast til þess, að lög séu þannig úr garði gerð að ekki þurfi að vera að gera að því leik á fárra ára fresti að endurskoða það sem hér er samþykkt.

Ég held að þessi lög hafi reynst nokkuð vel. Það hefur ekki annað háð þessari úthlutun en fyrst og fremst of litlir peningar. Allir rithöfundar eru sammála um það, að rithöfundar ættu að geta fengið þau laun sem þeir sækja um. Það er sótt um þessi laun til ákveðins verkefnis í ákveðinn tíma, og hefði sjóðurinn nægilega peninga ætti auðvitað ekki að þurfa að koma til neins mats. Vegna þess að peningarnir eru ekki nógir verður nefndin að setjast niður og meta hvað er talið æskilegra að gert sé heldur en annað, og um það hljóta — eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson sagði áðan — auðvitað alltaf að verða einhverjar deilur. En ég tel ekki að þessar deilur hafi verið af þeirri stærðargráðu á s.l. ári að nokkur ástæða sé til þess að fara að skipa hér nefnd á hinu háa Alþingi til að endurskoða lögm. Ég held að hv. þm. hafi ýmislegt annað og þarfara að gera.