02.12.1980
Sameinað þing: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

64. mál, launasjóður rithöfunda

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Erindi mitt hér í ræðustólinn er í fyrsta tagi það, að ég vil lýsa stuðningi við þá till. sem hér er borin fram. Ég þarf ekki að rökstyðja það með mjög mörgum orðum, það hefur verið gert hér áður. En ég vil aðeins í þeim fáu orðum, sem ég á eftir að segja hér, benda á það, að mér sýnist það bréf, sem alþm. ýmsir, kannske allir, hafa fengið frá Rithöfundasambandi Íslands í dag, vera tvenns konar. Annars vegar er það afmarkað álit stjórnar rithöfundasjóðsins sjálfs, sjálf stjórnin, sem skrifar okkur bréf, og þar kemur ekki fram, að mér sýnist, annað en álit hennar á þessum málum. Og mér sýnist að hún geri því skóna, að búið sé að ákveða hvað eigi að koma út úr þeirri endurskoðun sem áætlað er að gera á lögunum um rithöfundasjóð. Það er algerlega ósæmilegt að ætla það.

Hv. 8. landsk. þm. hafði þau orð um það hér áðan, að það væri öðrum en rithöfundum óviðkomandi, eða innanfélagsmál rithöfunda, og mér skildist jafnvel að það væri Alþingi óviðkomandi, hvort lög um Launasjóð rithöfunda væru endurskoðuð eða ekki. Vitaskuld er þetta hin mesta firra. Nægir að benda á það, að sjaldan er farið að öllu leyti að tillögum þeirra aðila, sem lög snerta þegar þau eru til endurskoðunar á Alþingi.

Annars vegar var í umslaginu, sem til mín kom, sá listi sem hér hefur verið rætt um, og það er aðalefni þeirra, sem á hann skrifa, að andmæla því, að lögunum verði breytt í þá átt, að þingkjörin nefnd úthluti úr sjóðnum. Það er ágætt að vita þetta fyrir fram, en út af fyrir sig eru þetta engin andmæli gegn þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir til umræðu.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta og lengi ekki mál mitt um það. Það kom hér fram í umræðunum, í ræðu hv. 8. landsk. þm., að fyrir eina tíð og alloft hefði verið óánægja með úthlutun á listamannalaunum, en upp á síðkastið hefði verið hljóðara um það en áður hefði verið. Mér er ekki kunnugt um vegna hvers það hefur verið. Ég held að sú breyting hafi þó ekki verið gerð, að listamenn sjálfir stæðu að því að tilnefna menn í úthlutunarnefnd. Það koma fram, eins og hér hefur verið tekið fram af öðrum, veruleg óánægja með úthlutun úr rithöfundasjóði á s.l. vetri, og það er ekki nema eðlilegt að þá sé flutt till. til þál. í þá átt sem hér er gert, til þess að reyna að fyrirbyggja að slík óánægja verði árviss, eins og var eina tíð um úthlutun listamannalauna.