02.12.1980
Sameinað þing: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

64. mál, launasjóður rithöfunda

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta frekar en orðið er nema lítið. Í fyrsta lagi er það svo um Launasjóð rithöfunda, að ég ætla að a.m.k. tveir af þeim, sem þar sitja, eigi rétt á greiðslum úr sjóðnum, þar sem gert er ráð fyrir því í lögunum, að rétt til greiðslu eigi íslenskir rithöfundar og höfundar fræðirita. Ég hygg að a.m.k. tveir af þeim, sem sitja-ég man nú ekki um Fríðu Sigurðardóttur, en hinir tveir, bæði Björn Teitsson og Sveinn Skorri, fullnægja því að vera höfundar fræðirita. Þeir hafa gefið út fræðirit. (GHelg: Þeir eru ekki félagar í sambandinu.) Það er ekkert um það. (GHelg: Þeir skulu ekki vera félagar.) Í hverju, í þjóðfélaginu? (GHelg: Í Rithöfundasambandinu.) Rithöfundasambandið kemur þessu máli ekkert við. Menn þurfa ekkert að vera félagar í Rithöfundasambandinu til þess að fá fé úr Launasjóði rithöfunda. Það er alger misskilningur. Eitt af virtustu skáldum þessa lands hefur ekki séð ástæðu til þess að ganga í þann félagsskap, síður en svo, þó honum hafi verið boðið það, og ef flett er upp í félagatalinu gæti hv. þm. áttað sig á því, hver það er. Hér er sagt: „Rétt til greiðstu úr sjóðnum hafa íslenskir rithöfundar og höfundar fræðirita. Heimilt er og að greiða úr sjóðnum fyrir þýðingar á íslensku.“ Þetta er þess vegna ekki bundið við Rithöfundasamband Íslands, það er alls ekki eini aðilinn að þessu máli, og þess vegna alls ekki hægt að tala um þetta mál jafnþröngt og hv. þm. gerði sig sekan um áðan. Þetta snertir ýmsa aðra og verður að tala um það frá víðari sjónarhóli og stærri og hærri sjónarhóli en stundum er.

Ég vil einnig taka það fram, án þess að ég ætli að halda þessu miklu lengur áfram, að það er ósköp eðlilegt að meiri friður sé um úthlutun á því fé sem úthlutunarnefnd listamannalauna skammtar. Það hefur ekki fylgt verðbólgunni undanfarin ár. Ætli menn megi vænta þess að fá þar kannske 200–300 þús. kr. á þessu ári? Hver nennir að vera að rífast út af því? Það er ekki einu sinni hægt að láta heiðurslaun Alþingis halda verðgildi sínu. Það hefur einmitt komið fram hjá úthlutunarnefnd listamannalauna, að hún telur óhjákvæmilegt að taka þessi mál öll til endurskoðunar, ekki aðeins það fé sem Alþingi skammtar þannig til sérstakrar úthlutunar og nemur hátt í 100 millj. samtals, kannske 76 millj. samkv. fjárlagafrv., heldur líka það fé sem veitt er úr Rithöfundasjóðnum, Launasjóðnum, sporslurnar sem menntmrn. er með og sporslurnar sem eru uppi í menntamálaráði og ýmislegt annað. Hverjir stjórna ýmsu sem Háskólinn er með? Og ég spyr líka: Er það eðlilegt, ef t.d. á prófessorum við Háskóla Íslands hvílir ritskylda og þeim er þess vegna gert samkv. sínu skipunarbréfi og kjarasamningi að skrifa svo og svo mikið á ári hverju, — er þá rétt að þeir geti einnig vænst þess að fá fé úr Launasjóði rithöfunda eins og verið hefur? Það er ýmislegt við þetta að athuga, og það hefur komið fram hörð gagnrýni á það, m.a. frá mönnum sem skrifa undir þetta plagg sem rithöfundar hafa núna sent frá sér, að þeir telja að ýmsir fræðimenn eigi ekki jafnan rétt og þeir á fé úr Launasjóði rithöfunda. Á það hefur líka komið gagnrýni frá þeim sömu mönnum og undir þetta skrifa einmitt vegna þess að undirskriftirnar taka ekki til þeirrar þáltill. sem hér um ræðir. Ef svo hefði verið hefði það verið sagt berum orðum. Maður skyldi a.m.k. ætla það, þegar saman eru komnir margir af helstu rithöfundum landsins, að þeir geti sent frá sér þrjár eða fjórar setningar á svo skýru máli að skiljist og maður þurfi ekki að fara í grafgötur með hvað þeir eru að segja.

En það er rétt, að það er ekkert eftirsóknarvert fyrir Alþingi að kjósa í stjórn Launasjóðs rithöfunda og þarf heldur ekki að vera nauðsynlegt ef víðsýni er gætt við skipan sjóðsstjórnarinnar og nógu margir menn eru látnir vera í stjórninni til þess að sæmilegur friður haldist innan Rithöfundasambandsins og þeir menn, sem þar eru, skiptist ekki í flokka. Þótt annar hópurinn sé stærri, eins og nú er og venjulega er þegar menn skipast í flokka, þá segir það ekki þar með að minni hópurinn sé réttlaus eða þurfi endilega að hafa rangt fyrir sér. Það er síður en svo.

Ég skil satt að segja ekki við hvað er átt þegar sagt er að innan Rithöfundasambandsins ríki meiri friður en um langt skeið. Ég held að það hafi ekki verið jafnmikill ófriður í Rithöfundasambandinu um langt skeið og á þessu ári, þegar rithöfundar eru svo tugum skiptir, jafnvel hver einasti rithöfundur farinn að skrifa á sitt hvort plaggið og sumir á bæði, og eru ekki aðeins í stríði hver við annan, heldur við sálina í sjálfum sér, og geta ekki áttað sig á því, hvorum megin þeir eiga að standa. Og hreinskilnin er ekki meiri en svo, að sumir menn tala við mig á götum úti og lýsa áhyggjum sínum, en svo fæ ég frá þeim plagg um hið gagnstæða. Þeir virðast skrifa undir hvað eina sem þeim er rétt eftir nýrri línu. Munu þeir flestir vera rauðleitir sem það gera, enda vanir því að fá nýjar línur, röndóttar og rósóttar og flekkóttar og jafnvel bíldóttar.

Nei, sannleikurinn er sá, að Alþingi hefur skyldur gagnvart sjálfu sér og öðrum. Hér er um verulegt fé að ræða, sem úthlutað er til lista með margvíslegum hætti, og það þarf að huga að því. En ég get fallist á það, að till. kunni að vera of einhæf og þess vegna sé rétt að þessi endurskoðun sé látin ná til fleiri þátta en Launasjóðsins eins. Því þætti mér rétt að nefndin hugaði að því og lagaði till. í meðförum sínum í þá átt. Mætti þá kalla til ekki aðeins rithöfunda, heldur einnig tónlistarmenn, myndlistarmenn og ýmsa aðra og fá hjá þeim sannar fréttir um það, hvort þeim þyki þeirra málum þannig komið, að ekki megi betur fara.