03.12.1980
Efri deild: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

35. mál, álagning opinberra gjalda

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Fjh.og viðskn. Ed. hefur fjallað um frv. til laga um álagningu opinberra gjalda á árinu 1980 og innheimtu þeirra á síðari hluta þess árs.

Frv. þetta er staðfesting á brbl. sem gefin voru út 24. júlí 1980 og eru til komin vegna þeirra aðstæðna sem sköpuðust þar sem nú skyldi leggja á samkv, nýjum lögum um tekju- og eignarskatt. Það varð að veita nýjan frest eða lengja frest til að ljúka álagningu opinberra gjalda vegna þess hversu viðamikil þessi lög voru og framkvæmd þeirra, og síðan varð að kveða á hvernig haga skyldi innheimtu í ágústmánuði vegna þessa lengda framtals- og álagningarfrests í þeim umdæmum þar sem álagningu var ekki lokið. Það er kveðið svo á í lögunum að þessi greiðsla, ágústgreiðslan, skyldi vera 20% af þeirri fjárhæð sem fyrirframgreiðslan var ákveðin samkv. lögum nr. 1/1980. Síðan er gerð grein fyrir því, að þetta skuli jafnast út til hækkunar eða lækkunar, eftir því sem álagning endanlega gefur tilefni til, í septembermánuði.

Nefndin hefur sem sagt rætt þetta frv. á fundi sínum og mælir með því, að það verði samþykkt. Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Gunnar Thoroddsen, hæstv. forsrh., og hv. alþm. Kjartan Jóhannsson. Undir nál. ritar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður, Guðmundur Bjarnason, Davíð Aðalsteinsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, með fyrirvara, og Lárus Jónsson, með fyrirvara.