07.12.1981
Neðri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

126. mál, lögheimili

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Mál þetta var flutt á síðasta Alþingi. Við flm., ég og hv. 3. þm. Reykn., Ólafur G. Einarsson, fluttum þá frv. um breytingu á lögum um lögheimili, þess efnis, að orðin „elliheimili eða annarri slíkri stofnun“ í 2. gr. laganna væru látin ná yfir stærra svið eða þeim yrði breytt í það horf að vera: sérhönnuðum heimilum og íbúðum aldraðra byggðum í tengslum við þjónustumiðstöð aldraðra og heilsugæslustöð.

Allshn. þessarar hv. deildar, sem fékk málið til athugunar, sendi það til umsagnar. M. a. var það sent stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sem mælti með samþykkt þess. Það var líka sent hagstofustjóra, sem lagði til að það orðalag, sem þá var í gildandi lögum, héldi sér, en efnislega væri brtt. okkar tekin inn í greinina. Um þetta var allshn. þessarar hv. deildar sammála og þannig afgreiddi Nd. Alþingis frá sér þetta frv. seint á síðasta þingi.

Þegar málið kom hins vegar til afgreiðslu í Ed. Alþingis tel ég a. m. k. að það hafi verið miklar annir, sem þá voru hjá þm., og mikið álag, sem olli því, að málið hefur hreinlega ekki fengið nógu góða athugun þar. Alla vega var málið afgreitt þaðan mikið breytt frá því sem Nd. hafði afgreitt það. Í Ed. var tekið út úr frv. það ákvæði sem við flm. höfðum stefnt að með flutningi þess, en ákvæði sett inn í staðinn sem verða að teljast óþörf vegna annarra ákvæða í þessum sömu lögum.

Þegar svo málið kom aftur hingað til Nd. samkv. þingsköpum var það ekki sent til nefndar að nýju, en afgreitt án athugasemda í hv. deild sem lög frá Alþingi. Bæði ég og meðflm. minn vorum þá fjarverandi — með leyfi frá forseta hv. deildar í opinberum erindagjörðum erlendis — og gátum ekki fylgst með málinu eða bent á hvað hér væri að ske. Því höfum við kosið okkur það og teljum okkur skylt reyndar að endurflytja frv. okkar, en þó í þeirri mynd sem allshn. þessarar hv. deildar afgreiddi það héðan á s. l. vori.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að þreyta þm. á því að endurtaka rök okkar fyrir flutningi þessa frv., enda eru þau dregin fram skýrt og skilmerkilega í grg. frv. Í raun má segja að þetta frv. hefði ekki neitt að gera til hv. allshn. því það er flutt nákvæmlega eins og hv. allshn. afgreiddi frv. Ég tel þó, að það sé rétt hefðarinnar vegna, og legg því til að frv. verði vísað til allshn. og 2. umr. að lokinni þessari umr.