07.12.1981
Neðri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

129. mál, lokunartími sölubúða

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þar er fyrst til máls að taka, að maður hlýtur að lýsa ánægju sinni yfir þeirri óvæntu yfirlýsingu hv. 8. landsk. þm., Guðrúnar Helgadóttur, að hún vilji styðja við frjálst framtak í landinu. Ekki efast ég um að hún hafi meint þetta þegar hún sagði það. Ég óttast hins vegar að þessi hugljómun hennar muni ekki standa lengi og þess verði skammt að bíða að menn heyri aftur þá gömlu rauðu íhaldsrödd sem stundum kveður við úr því horni.

Ég vil segja það fyrst, að það er auðvitað afskaplega einfalt að samþykkja með handauppréttingu að lokunartími sölubúða skuli vera frjáls. Við gætum líka breytt þessu og sagt að vinnutími manna skuli vera frjáls. En eins og við vitum hefur staðið um það nokkur barátta alllengi hversu háttað skuli vera vinnutíma verslunarfólks, og ég held að það sé alveg nauðsynlegt í sambandi við þetta frv. að hafa um það fullt samráð við Verslunarmannafélag Reykjavíkur og Landssamband verslunarmanna, hvernig heppilegast sé að breyta lögum um þessi efni. Nú er það svo, að lokunartími sölubúða er mjög mismunandi víðs vegar um landið. Þar sem ég er kunnugastur hefur langur opnunartími valdið því, að mjög hefur verið gengið á rétt fólks sem kannske hefur unnið lengi við verslun og því verið gert að vinna á stundum á þeim tímum sólarhrings sem því hefur ekki þótt æskilegt að vinna á.

Ég skal ekki fara langt út þessa sálma, en ég get á hinn bóginn ekki skilið hvers vegna það ætti að vera betra fyrir einstæða foreldra að vinna á kvöldin en aðra þjóðfélagsþegna. Ég get ekki fundið að það sé holl stefna eða heilbrigt að reyna að byggja upp þvílíkt þjóðfélag, að einstæðir foreldrar geti ekki einu sinni haft frí og hvíldarstundir að loknum kvöldmat. Ég skil ekki þennan röksemdaflutning frá þm. sem þykist vera umfram aðra hér inni sérstakur málsvari smælingjanna.

Hitt er rétt, að það vill oft brenna við hjá því fólki, sem hefur lægst launin, að það hefur orðið að taka vinnu jafnvel á kvöldin eða næturnar, vaktavinnu, með takmörkuðum orlofsréttindum t. d., til að drýgja tekjurnar. Sérstaklega er það áríðandi fyrir lægst launaða fólkið núna eins og komið er að finna einhver ráð til að endar nái saman. Það er að vísu rétt, að samkomulag tókst um nýja kjarasamninga til vorsins, 3%. Það var engin hrifning yfir þeim samningum, og hver og einn getur fundið það á almenningi að hann skilur hvers vegna þessir samningar voru gerðir. Þeir voru vitasklud gerðir vegna þess að það var ekki neitt að bjóða. Það liggur fyrir yfirlýsing frá ríkisstj. um að gengið verði fellt eftir áramótin. Við höfum séð að það á að hækka fasteignagjöldin um 55% hjá vinstri borgarstjórninni í Reykjavík. Það á áfram að hækka beinu skattana þrátt fyrir loforðin í fyrra. Þess vegna má það vel vera rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttir, að það sé afskaplega brýnt fyrir einstætt fólk að finna sér sem mesta vinnu á kvöldin og kannske langt fram á nótt til að eiga fyrir nauðþurftum.

Erindi mitt var fyrst og fremst að brýna það fyrir þeirri nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, að leita álits ekki aðeins Kaupmannasamtakanna, sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir bar mest fyrir brjósti heldur fá líka upplýsingar frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og Landssambandi verslunarmanna um þessi mál og rasa ekki um ráð fram í lagasetningu varðandi vinnutíma verslunarmanna.