07.12.1981
Neðri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

129. mál, lokunartími sölubúða

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held að hv. 8. þm. landsk. þm., Guðrún Helgadóttir, hafi misskilið mig áðan. Ég var ekki að mæla á móti frelsi. En úr því að frelsishugsjónin er eins rík og fram hefur komið hjá virðulegum flm. þessa frv. til l. á þskj. 136 lýsi ég því yfir, að ég mun standa þeim við hlið og stefna að algeru frelsi, en vil ekki gefa fólkinu frelsi í smáskömmtum og þá ekki hluta af fólkinu. Þjóðfélagið byggist ekki eingöngu á launþegum. Fólkið er fleira og hefur haslað sér völl á fleiri stöðum en vera launþegar. Það eru líka atvinnurekendur. Við erum þingmenn þjóðarinnar. Ég skal því vera þátttakandi í því að gefa hér algert frelsi því fólki sem er við verslun og verslunarstörf og annars staðar, en takmarka þann rétt sem ríkið hefur tekið sér, þann ráðstöfunarrétt sem hið opinbera hefur tryggt sér á tíma og vinnu og afrakstri fólks almennt. Hér greinir okkur ekki á um neitt annað en það, að ég vil ekki gefa frelsi í smáskömmtum, heldur taka skrefið að fullu og hafa allt frjálst í öllu sem lýtur að verslun.

Ég vil taka það fram, vegna þess að Guðrún Helgadóftir, hv. 8. landsk. þm., er í borgarstjórn, en ekki í borgarráði nema afskaplega sjaldan, að það er samkv. samkomulagi milli allra aðila sem ákveðnar verslanir mega hafa opið í öllum hverfum borgarinnar á ákveðnum dögum. En það eru samtökin, bæði verslunarfólks og Kaupmannasamtökin, sem ákveða hverju sinni hvaða verslanir eru opnar í borginni, og það er tilkynnt borgarráði. Borgarráð tekur ekki neina ákvörðun um það. Það er farið eftir samkomulagi sem var niðurstaða mikillar vinnu sem í þessi mál var lögð af borgarráði og borgarráðsmönnum undir forystu Alþb., m. a. í þeim meiri hl. sem nú er í borgarstjórn, og allir aðilar í borgarstjórn samþykktu þetta samkomulag.

Mér fannst hv. þm. tala gegn frv. sínu áðan þegar hún benti á að það væri einmitt verslunarfólk sem væri í hvað mestum vandræðum með að ná því að versla og það kæmi fram hjá starfsfólki á dagvistarheimilum m. a., vegna þess að verslunarfólk ætti hvað erflðast með að sækja börn sín. Hvernig verður það þá ef verslunarfólki er gert að skyldu að vinna lengri vinnutíma en nú er? Það verður enn þá erfiðara fyrir verslunarfólk að sækja börn sín á réttum tíma. Og þá erum við komnir að öðru. Af hverju skyldi þá dagvistarfólkið endilega fara heim svo snemma að verslunarfólkið sé í vanda með að ná til dagvistarfólksins og sækja sín börn? Dagvistarfólkið og það, sem vinnur hjá því opinbera, kemst á háa yfirvinnutaxta við það að bíða eftir starfsfólki úr verslunum svo að hægt sé að loka stofnununum. Þetta á sér stað á hverjum einasta degi, mér er nær að segja á hverri einustu dagvistarstofnun. Af hverju eigi þá opinberar stofnanir að loka kl. 4? Af hverju eiga þá ekki starfsmenn hjá opinberum aðilum að vinna sama vinnutíma og verslunarfólk? Og af hverju á verslunareigandi, atvinnurekandi, að þola að fólk sé að fara úr vinnu á miðjum vinnudegi á fullu kaupi hjá honum til að standa skll á opinberum gjöldum? Hvað á þetta að þýða? Er verið að loka ráðuneytinu til þess að ráðuneytisstarfsmenn, ríkisstarfsmenn, hvar sem þeir eru í stétt, geti komist í verslun? Á verslunarfólkið ekki að geta staðið í skilum nema þá á kostnað atvinnurekandans? Þetta er hrigavitleysa. Hvað kemur það þessu máli við að taka sem dæmi að nú sé allt í lagi hjá bóksölum vegna þess að Hagkaup sé farið að selja bækur? Það er bara ein vörutegund til viðbótar sem er afgreidd í hinum hefðbundna vinnutíma og ekkert annað. Það kemur þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Ég hjó eftir því, að borgarfulltrúinn, hv. 8. landsk. þm. Guðrún Helgadóttir kom hér að útimarkaði. Það er mál sem varðar Alþingi. Þar er alls ekki farið að lögum. Þetta er að verða hrein paradís fyrir innflytjendur og umboðssala sem ekki losna við vörur sínar eða vilja jafnvel ganga svo langt að losna við söluskattsgreiðslu. Þeir umboðssalar, sem hasla sér völl á Lækjartorgi, borga engin opinber gjöld. Þeir koma, setja upp sínar vörur og vöruafgreiðsluborð, selja og fara. Enginn hefur eftirlit með hvað þeir selja, á hvaða verði þeir selja eða hvort opinber greiðsla er innt af hendi samkv. lögum. Þetta er stóralvarlegt mál. En við hliðina á þeim söluborðum, sem þar eru, eru verslanir sem borga aðstöðugjald og allar þær skyldur og kvaðir sem á þeim hvíla, bæði frá sveitarfélagi og ríkinu, og eru bókhaldsskyldar og þurfa að sjálfsögðu að standa skil á sínum opinberu greiðslum. Ef ekki, þá er þeim hreinlega lokað og þær gerðar ábyrgar fyrir opinberum gjöldum, jafnvel starfsfólks. Við höfum ekkert slíkt eftirlit við Lækjartorg. Ég bað nýlega um reikninga og sundurliðun á leigutekjum o. fl. frá þeim aðilum sem leigja út aðstöðu á Torginu því leigusalan er rekin sem einkafyrirtæki af aðilum sem áttu hugmyndina að því að setja markaðinn upp. Ég fékk alls ekki fullnægjandi svör. Ég hef ekki komist í að biðja um þau betri, en það mun ég að sjálfsögðu gera. Þetta eru mál sem hv. 8. landsk. þm. kom á framfæri við þetta tækifæri.

Ég vona að hér í nefnd verði málið vel kannað, umsagna leitað og menn taki svo ákvörðun í þessu máli þegar þeir hafa kynnt sér það vel og í góðu næði.