07.12.1981
Neðri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

129. mál, lokunartími sölubúða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti: Aðeins örfá orð. — Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um að afnema lög sem heimila sveitarstjórnum að setja reglur um lokunartíma sölubúða. Hvers vegna er allt þetta brambolt um frelsi og ég veit ekki hvað sem stendur hér upp úr hv. 9. þm. Reykv. og hv. 8. landsk. þm., Guðrúnu Helgadóttur? Þetta er á valdi stjórnar viðkomandi sveitarfélaga.

Stundum hefur verið rýmkað þarna mjög til ákveðin tímabil. Reynslan af því hefur verið ákaflega slæm. Hún hefur verið í mörgum tilfellum þannig, að verslanir hafa verið opnar laugardaga og sunnudaga, og sér í lagi hafa verslanir, eins og hv. 1. landsk. þm. tók fram, sem menn geta unnið í með fjölskyldum sínum, verið opnar 12–14–16 tíma á dag. Allt þetta ástand var orðið þannig, að menn vildu bókstaflega afnema þetta fyrirkomulag. Hitt er svo allt annað mál, og Alþingi á ekkert að vera að skipta sér af því, þó að borgarstjórn Reykjavíkur geti ekki með nokkru móti komið sér saman um einhverjar þokkalegar reglur í þessum efnum.

Ég held að það sé alveg augljóst, að þarna verða að vera heimildarákvæði til staðar. En ég mun fylgja þessu máli til nefndar vegna þess að ég er sannfærður um að í umsögnum aðila, verslunarfólks og annarra, koma fram upplýsingar sem að mínu mati leiða til þess, að lög þessi verða ekki afnumin.

Þegar rætt er um opinberar stofnanir má til sanns vegar færa að menn þurfa ekki að sækja í þær margar hverjar jafndaglega og verslanir, en þar er nú ekki frelsi fyrir að fara. Þar ákveða bankastofnanir að lokað skuli klukkan fjögur að degi til, og fólk, sem fær borgað í ávísun eftir þann tíma, hefur þarna ekki nokkra minnstu möguleika. Ég held að það sé einn dag í viku, opið eitthvað lengur. Þarna er tekin ákvörðun hjá bönkunum og þessi opnunartími er mun styttri en hjá verslunum. Það eru náttúrlega þrælatök sem bankar beita þarna.

Hitt er hins vegar annað mál, að það má vel vera að rétt sé að rýmka reglur um verslunartíma frá því sem nú er t. d. í Reykjavík. Það var upplýst hér af hv. 5. þm. Suðurl. hvernig þetta væri í Vestmannaeyjum. Þar er vinnutími t. d. mun lengri í frystihúsunum oft og tíðum eða a. m. k. stóran hluta ársins en hjá verslunum hér í Reykjavík. Ég held að það væri eðlilegast, að þetta væri metið og vegið, og alveg sjálfsagt að borgarstjórn Reykjavíkur reyni að rýmka þarna lokunarákvæði, en borgarfulltrúar séu ekki að hlaupa hér og heimta að vandinn sé tekinn af þeim og öll lög í þessu efni afnumin. Það er aldeilis fráleitt.

Ég endurtek það, að ég held að þessi heimildarákvæði eigi að vera til. Sú reynsla, sem fékkst af þessu í fleiri en eitt skipti, var að það var opið yfir helgar og vinnutími verslunarfólks var orðinn svo óhóflega langur að það voru bókstaflega gagnaðgerðir beggja aðila að reyna að koma þarna einhverju hófi á. Ég ítreka að ég held að Kaupmannasamtökin og samtök verslunarmanna, þ. e. Verslunarmannafélag Reykjavíkur, mættu gjarnan endurskoða þennan lokunartíma eitthvað og reyna þarna eitthvað að breyta.

Það er rétt, sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir segir, að það eru nokkur vandkvæði á mörgum dagvistarheimilum í Reykjavík vegna þess að þar er lokað fimm eða hálfsex. Til dæmis tek ég einstæðar mæður sem losna úr verslunum kl. 6. Þá eiga þær eftir að komast kannske bæjarendanna á milli. Þetta skapar ákveðin vandkvæði. Víða í verslunum t. d. er tekinn einn og hálfur klukkutími í mat til þess að geta nýtt tímann frá 5–6 án aukagreiðslu. En ef verslunartími væri hins vegar ótakmarkaður og allar reglur þarna settar af væri ég nú hræddur um að fyrst færi að hrikta í dagvistarstofnunum Reykjavíkurborgar, ef það á að fara að leysa vanda þeirra með því að hafa ótakmarkaðan opnunartíma.

Ég viðurkenni fúslega að það eru ýmsir þættir þarna sem þarf að skoða, t. d. þjónusta við almenning. Það þarf líka að skoða þá fullyrðingu kaupmanna og fyrirtækja að þetta muni leiða til hærra vöruverðs vegna lengri vinnutíma. Það er sjálfsagt að skoða öll þessi mál og þeir aðilar, sem um þau eiga að semja, eiga að gera það. Borgarstjórnir eða bæjarstjórnir eiga ekki að vera að hlaupa frá þessum vanda, heldur stjórna sínum bæjarfélögum og koma ekki klagandi inn á Alþingi. (Gripið fram í.) Ég er víst farinn að verða dálítið ógætinn í orðum og get fengið bágt fyrir, svo að ég skal fara að ljúka máli mínu. Ég mun styðja málið til nefndar og er nokkuð sannfærður um að eftir nál. verði þetta frv. fellt.