07.12.1981
Neðri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

129. mál, lokunartími sölubúða

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Mitt innlegg í þessar umr. verður ekki stórt þar sem í minni heimabyggð hefur þetta ekki verið vandamál frekar en í Vestmannaeyjum. En ég vildi aðeins benda á örfá atriði eins og ég lít á málið.

Það væri ekki ósennilegt að stangaðist á við kröfuna um lífvænleg laun fyrir dagvinnu að afnema þessi heimildarlög til sveitarstjórna. Við vitum að þetta frjálsræði mundi hafa tilhneigingu til að lengja vinnutíma og lengri vinnutími í verslun merkir ekki lægra vöruverð í verslunum.

Ég fæ það ekki heim og saman hvernig afnám þessara laga kæmi til með að bæta úr dagvistunarvandamálum. Það á eftir að sannfæra mig um það. Þessi heimildarlög munu vera síðan 1936. Mér sýnist að svo gæti farið að með afnámi þessara heimildarlaga væri e. t. v. verið að brjóta niður „vökulög“ í versluninni, ef svo mætti segja. Það voru sett vökulög á togurunum. Þau voru nauðsynleg. Þar var unnið langan vinnudag. — Ég minnist þess að í minningum Óskars Clausens, þar sem hann fjallar um störf sín við verslun í Stykkishólmi á sínum tíma, stendur að þá var vaknað kl. 6 á morgnana og verið að til 11–12 á kvöldin eða unnið meðan möguleiki var á og á þurfti að halda.

Ég held að þessi lög þurfi lagfæringa við eins og önnur lög og önnur mannanna verk. Þau gilda ekki að eilífu. Það er rétt, sem kemur fram í grg. með frv., að þjóðfélagið, samfélagið, hefur tekið grundvallarbreytingum síðan 1936, en það á eftir að sannfæra mig um að þau hafi tekið þeim grundvallarbreytingum að lög, sem þótti nauðsynlegt að setja þá, skuli afnumin nú. Ég held að lögin þurfi breytinga við og þannig beri að vinna að málinu, en ekki með afnámi þeirra fyrir fullt og allt.

Það er ástæðulaust fyrir mig að ræða mikið um þetta hér. Það er till. um að þessu frv. verði vísað til allshn. og þar á ég sæti. Ég hef því nóg tækifæri til að fjalla um málið, en ég ætla aðeins að benda á þau atriði, að ákvæði laganna munu að mínu mati ekki stytta til færri klukkustunda daglega vinnu og munu ekki styðja kröfuna um sómasamleg laun fyrir dagvinnu.