08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

61. mál, greiðslufyrirkomulag fjárveitinga til opinberra framkvæmda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl., Alexander Stefánsson, hefur borið hér fram fyrirspurn um greiðslufyrirkomulag fjárveitinga til opinberra framkvæmda:

Í fyrsta lagi, hvernig háttað sé greiðslu á framkvæmdafé samkv. fjárlögum til opinberra framkvæmda sem framkvæmdadeild 1nnkaupastofnunar ríkisins sér um.

Svarið er þetta: Gerður er verksamningur um nær öll verk sem unnin eru á vegum framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins. Í verksamningi, sem undirritaður er af fagráðuneyti og fjmrn. áður en hann öðlast gildi, er tekið fram hvernig greiðslum fyrir verkþætti skuli hagað. Eftir því sem verki miðar áfram senda verktakar inn reikninga til framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar sem yfirfer reikninga og kannar að þeir séu í samræmi við ákvæði verksamnings. Að yfirferð lokinni eru reikningar sendir innkaupastofnun ríkisins sem annast útborgun reikninga fyrir framkvæmdadeild stofnunarinnar. Jafnframt lætur framkvæmdadeildin viðkomandi ráðuneyti vita um þá upphæð sem nauðsynlegt er að ávísa hverju sinni sem greiðslu úr ríkissjóði til Innkaupastofnunar þannig að unnt sé að greiða reikninga vegna viðkomandi verka.

Heimildir til greiðslu á fé af ákveðnum fjárlagaliðum eru einungis gefnar út af því ráðuneyti sem fer með viðkomandi málaflokk. Dragist ávísun á fjárveitingu frá einhverju ráðuneytanna getur slíkt haft í för með sér að vandræði skapist h já Innkaupastofnun og geri henni erfitt fyrir að greiða reikninga. Reynt er í lengstu lög að forðast að slíkt komi niður á verktakagreiðslum. Eru starfsmenn framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar í nánu sambandi við þá aðila sem gefa út greiðsluheimildir hjá ráðuneytum.

Rétt er að taka fram að eftir að fjmrn. hefur áritað verksamning hefur það talið sér skylt að sjá til þess, að greiðslufall yrði ekki vegna viðkomandi verks. Áður en fjmrn. áritar verksamning hefur verið kannað hvort nægjanleg fjárveiting sé til, að teknu tilliti til upphæðar verksamnings og verðbóta á þeim tíma sem framkvæmdin á að standa. Fari svo, að fjárveiting sé ekki nægjanleg til að greiða kostnað við framkvæmd, sem gerður hefur verið verksamningur um, er ætlast til að það ráðuneyti, sem fer með viðkomandi málaflokk, sæki um umframfjárveitingu. Því miður vill oft dragast að ráðuneytin gangi frá þeim málum, en fjmrn. hefur engu að síður talið sér skylt að inna greiðslur af hendi hafi það áritað verksamning, eins og fyrr segir.

Önnur spurning hv. þm. er svohljóðandi: Hvernig er farið með geymdar eða ónotaðar fjárveitingar til opinberra framkvæmda samkv. fjárlögum milli ára?

Svarið er þetta: Telji ráðuneyti að það eigi ónotaða fjárveitingu frá fyrra ári er sótt um heimild til að fá fjárveitinguna geymda. Umsókn um geymslu á stofnkostnaðarfjárveitingu er send fjárlaga- og hagsýslustofnun sem síðan tilkynnir viðkomandi ráðuneyti ásamt gjaldadeild fjmrn. um geymsluheimild. Geymd fjárveiting er síðan sett inn í greiðsluáætlun og kemur til útborgunar eftir samkomulagi milli fagráðuneytis og fjmrn.

Herra forseti. Ég vænti þess, að með þessum orðum sé fsp. hv. þm. svarað.