08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

63. mál, styrktaraðgerðir við iðnað í viðskiptalöndum okkar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 66 hefur hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson beint til mín eftirfarandi spurningum:

1. Hvað líður störfum nefndar sem átti að kanna til hvaða styrktaraðgerða hafi verið gripið í húsgagnaiðnaði í fríverslunarbandalagslöndum okkar?

2. Hvað hyggst ríkisstj. gera í vanda húsgagna- og innréttingaiðnaðarins?

Í framhaldi af viðræðum, sem fram hafa farið við forustumenn Félags ísl. iðnrekenda, var ákveðið að kanna hverjar væru helstu styrktaraðgerðir í húsgagnaiðnaði á Norðurlöndum. Þá er jafnframt ákveðið að í framhaldi af slíkri könnun mundi íslenska ríkisstj. taka erindið upp hjá EFTA ef nauðsyn bæri til.

Aflað hefur verið gagna, bæði með tilstuðlan Félags ísl. iðnrekenda og eins hefur sendiráðum Íslands á Norðurlöndunum verið falið að afla slíkra gagna frá viðkomandi löndum. Nú er verið að vinna úr þessum gögnum.

Hv. þm. gerði nokkra grein fyrir styrktaraðgerðum t. d. í Svíþjóð og ég hygg að þær upplýsingar, sem liggja fyrir og hann drap á í sinni fsp., séu til í rn. í höndum þeirrar nefndar sem er að vinna úr þessum málum. En það verður að segja það eins og er, að það hefur ekki verið sérlega greiður aðgangur að því að fá upplýsingar af þessu tagi. Deilur um þessi mál hafa staðið árum saman og það hefur ekki verið greiður aðgangur að því, það verður að segja það eins og er.

Í umr. um vandamál iðnaðarins er oft á það minnst, að styrkveitingar til iðnaðar samrýmist ekki reglum fríverslunar. Í EFTA-samningnum eru ítarleg ákvæði um ríkisstyrki, þar sem segir m. a. að ekki megi greiða slíka styrki til útflytjenda. Enn fremur segir þar að ekki megi beita nokkurri aðstoð, sem hefur það í för með sér að spilla þeim hagsbótum sem vænta megi af fríverslun milli aðildarríkjanna. Það er með hliðsjón af þessu ákvæði sem opinberar styrktaraðgerðir til iðnaðar eru metnar hjá EFTA. Erfiðleikarnir eru þeir, hve erfitt getur reynst að sýna fram á að einstakir styrkir brjóti beint í bága við EFTA-samninginn. Reyndar hafa aðildarríkin oftast reynt að koma þessum styrkjum þannig fyrir að svo sé ekki.

Á undanförnum árum hafa ríkisstyrkir til iðnaðar og annarra atvinnugreina færst verulega í vöxt með auknu atvinnuleysi og samdrætti á ýmsum sviðum efnahagslífsins. Þeir hafa haft í för með sér hömlur á alþjóðaviðskiptum sem geta engu síður verið skaðlegar en tollar og innflutningshöft. Þess vegna er þetta mál mjög til umræðu á vegum alþjóðasamtaka og þó sérstaklega innan EFTA og Efnahagsbandalagsins. Viðskiptanefnd EFTA, er vann að endurskoðun ríkisstyrkja, fór yfir þær styrktaraðgerðir sem beitt er í aðildarríkjum EFTA. Meginniðurstaða nefndarinnar varð sú, að ekki væri hægt að sýna fram á að styrkir í einstökum EFTA-löndum spilltu þeim hagsbótum sem vænta megi af fríverslun milli aðildarríkja, eins og ég gat um áðan. Hins vegar var bókuð athugasemd um það, að ekki væri fullkomlega ljóst að einstök EFTA-ríki hefðu ekki brotið þessi ákvæði samningsins, og áskildu m. a. Íslendingar sér rétt til að kanna þau mál frekar. Ítarlega hefur verið um það fjallað bæði í ríkisstj. og einstökum rn. til hvaða ráða megi grípa til hjálpar iðnaðinum.

Ekki þarf að fjölyrða um að nokkrar greinar íslensks iðnaðar telja sig ekki sitja við sama borð og sams konar iðnaður í öðrum fríverslunarlöndum vegna mikilla ríkisstyrkja þar. Ég er sammála um, að íslenskir iðnrekendur geti ekki sætt sig við annað en að sitja við sama borð í þessum efnum og keppinautar þeirra annars staðar. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um hvernig bregðast megi við þessum vanda. Komið hefur fram hugmynd um að leita ígildis aðlögunargjalds á innfluttum húsgögnum. Komið hefur fram hugmynd um að lækka aðstöðugjöld og auk þess fleiri gjöld á iðnaðinum og að verðlagsmál iðnaðarins verði endurskoðuð. Væri eðlilegast að auka frjálsræði í verðlagsmálum iðnaðarins, sérstaklega þess iðnaðar sem selur framleiðslu sína á innlendum markaði.

Á ráðherrafundi EFTA, sem haldinn var í Genf dagana 26. og 27. nóv. s. l., fjallaði ég sérstaklega um ríkisstyrki í EFTA-löndunum og benti á að ýmiss konar ráðstafanir, sem orka tvímælis, hafa skotið upp kollinum, þó ekki sé beinlínis hægt að sýna fram á að þær brjóti í bága við ákvæði EFTA-sáttmálans. Ég vakti þar athygli á því, að ýmsar opinberar styrktaraðgerðir við iðnað hafi óheppileg áhrif á samkeppni og veiki varnir gegn þeim öflum sem óska eftir verndaraðgerðum. Ég vakti einnig athygli á því, að í EFTA-sáttmálanum eru ákvæði sem viðurkenna þörf fyrir byggðaaðgerðir. Í flestum EFTA-löndum eru landshlutar sem eiga í miklum efnahagslegum erfiðleikum. Íbúafjöldi þeirra er í sumum tilfellum meiri en allir Íslendingar. Iðnaður á þessum svæðum nýtur oft sérstakra opinberra styrkja og hagstæðra lánskjara. Í framhaldi af þessu varpaði ég fram þeirri spurningu, hvar væru takmörk þessara opinberu styrktaraðgerða sem geta haft bein áhrif á fríverslun okkar. En eins og kunnugt er er heimilt samkv. EFTA-sáttmálanum að beita t. d. aðgerðum til styrktar einstökum svæðum og einstökum byggðum sem eiga í erfiðleikum, án þess að það brjóti í bága við sáttmálann.

Á ráðherrafundinum gerði ég einnig grein fyrir sérstökum vanda íslensks húsgagnaiðnaðar. Af þeim ástæðum teldi ríkisstj. nauðsynlegt að taka upp aftur sama kerfi um innborgunarskyldu og var hér í gildi árin 1979 og 1980. Í framhaldi af því var framkvæmdastjórn EFTA send tilkynning hinn 26. nóv. s. l. þar sem óskað er eftir að EFTA heimili í eitt ár innborgunarskyldu á innflutt húsgögn og innréttingar. Gert er ráð fyrir að EFTA-ráðið fjalli um málið á fundi sínum 10. des. n. k. Samkv. þessari innborgunarskyldu verða innflytjendur að greiða 35% innflutningsverðs á sérstakan reikning í Seðlabankanum þar sem féð verður geymt í 90 daga. Þetta á við um innflutning húsgagna frá öllum löndum. Er þess vænst, að með þessari aðgerð muni draga úr innflutningi og hún verði til þess að hjálpa inniendum húsgagnaiðnaði við uppbyggingu sína.

Til þess að gera grein fyrir þessu máli hjá EFTA þarf að senda þar inn skýrslu og greinargerð um stöðu húsgagnaiðnaðarins hér í landinu. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um stöðu húsgagnaiðnaðarins, verður að segja það eins og er, að hann er ákaflega misjafnlega á vegi staddur. Sum fyrirtæki, sem hafa vélvæðst og hagrætt sinum rekstri á undanförnum árum, standa sæmilega vel. Síðan eru önnur, og þá alveg sérstaklega minni fyrirtæki, sem standa miklu verr og eiga frekar í vök að verjast.

Í þessum málum öllum þarf að gæta tvenns: Í fyrsta lagi að staða viðkomandi atvinnuvegar sé viðunandi þannig að hægt sé að reka hann með eðlilegum hætti. Hins vegar er svo sjónarmið neytandans um að fá góða vöru við sem lægstu verði og með góðri þjónustu. Það eru auðvitað þessi tvö sjónarmið sem þarf að samræma til þess að fá eðlilega niðurstöðu.