08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

63. mál, styrktaraðgerðir við iðnað í viðskiptalöndum okkar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að ég komi aðeins inn í þessar umr. þó að tíminn sé naumur.

Vandamál íslensks húsgagnaiðnaðar hafa verið til meðferðar á vegum stjórnvalda og ekki síst iðnrn. í samvinnu við hagsmunaaðila um langan tíma. Um það leyti sem innborgunargjald var sett á innflutt húsgögn 1979 var ákveðið að ráðast í sérstakt þróunarátak til eflingar greininni. Í þessu þróunarátaki hafa tekið þátt um tveir tugir húsgagnaframleiðenda og innréttingaframleiðenda, flestir ef ekki allir hinir stærstu á þessu sviði. Það stendur enn þá yfir og hefur gefið mjög góða raun hjá þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga. Til stuðnings þessu átaki hefur verið veitt fjármagn af iðnþróunarfé, sem kom inn vegna aðlögunargjalds sem í gildi var um tíma, og einnig hafa sjóðir, svo sem Iðnrekstrarsjóður, stutt mjög við þetta átak. Í fyrirtækjum, sem tekið hafa þátt í því, hefur orðið stórfelld framleiðniaukning og sum þessara fyrirtækja eru að búa sig í útflutning húsgagna og hugsa til þess og telja raunsætt að nýta sína framleiðslugetu til þess að flytja út húsgögn, en styrkja sig auðvitað um leið á innanlandsmarkaði.

Ekki alls fyrir löngu flutti ég till. um það í ríkisstj., að til sérstakra aðgerða yrði gripið vegna húsgagnaiðnaðar. Hæstv. viðskrh. hefur getið hér um einn þáttinn sem fellur undir hans svið, þar sem það varðar samskipti við fríverslunarsamtökin, þ. e. að innleiða á nýjan leik innborgunarskyldu á innflutt húsgögn. Þar er um væga verndaraðgerð að ræða sem getur komið að gagni á meðan hún er í gildi, og ég tel hana alveg réttlætanlega og eðlilega á meðan þetta markaðsátak er að skila árangri. Hitt er svo annað mál, að EFTA-samþykktin gerir ráð fyrir möguleikum á að leggja á jöfnunartolla, ef um sérstakar styrktaraðgerðir er að ræða sannanlega frá einstökum löndum. Það er sú athugun sem hv. fyrirspyrjandi vék hér að að kanna þyrfti og er í könnun í nefnd á vegum viðskrn. En það þarf að vera hægt að sanna það með sæmilega gildum hætti, að um slíkar aðgerðir sé að ræða. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að við beitum slíkum ákvæðum fríverslunarsamningsins þegar ljóslega er á okkur brotið í þessum efnum.

Þá hefur verið samþykkt af ríkisstj. að stuðla að því, að hér verði tekin upp gæðaprófun á húsgögnum bæði innlendum húsgögnum og einnig innfluttum, og það verði notað sem neytendavernd í þessu samhengi og einnig til verndar okkar iðnaði sem fullyrt er og ég hygg með réttu að hvað snertir gæði sé á marga lund betri og taki fram mjög mörgu af því sem flutt er inn í landið, sem alls ekki er sniðið við innlendar aðstæður, þ. á. m. það rakastig sem ríkir í þessu landi og er verulega annað en víða framleiðslulöndum. Þá var einnig samþykkt af ríkisstj. um miðjan nóv. að beina því til fjvn. að bæta stöðu Iðntæknistofnunar til gæðaprófunar og til að efla trétæknideild Iðntæknistofnunar, sem mikil nauðsyn er á til þess að styðja við innlenda framleiðendur svo að þeir búi við svipaðar aðstæður og keppinautar þeirra erlendis. Sama gildir um fleiri þætti, sem voru í þessari samþykkt, svo sem athugun á lánakjörum, að lánasjóðir leituðust við að styðja innlenda framleiðendur og veita þeim greiðslufrest á afborgunum og vöxtum, fyrirtækjum sem eru í sérstöku átaki í sinni grein, og raunar hafa sjóðirnir boðið slík kjör, eins og t. d. Iðnlánasjóður. Einnig á að fara ofan í saumana enn frekar á aðflutningsgjöldum til framleiðenda, þar sem enn þá er eitthvað að finna í tollskrá sem eðlilegt er að verði fellt niður af aðflutningsgjöldum, auk almennrar athugunar á starfsskilyrðum þessarar greinar, sem fellur saman við þá athugun á starfsskilyrðum iðnaðarins sem stendur nú yfir.

Aðlögunargjald á innfluttar vörur féll niður um síðustu áramót. Ég taldi mjög miður að það gerðist. Við það rýrnaði samkeppnisstaða innlends iðnaðar. En það náðist ekki samstaða um að halda þessu gjaldi áfram og þrepa það niður í áföngum, eins og ég hefði talið eðlilegt.

Hér var minnt á innflutt hús og mismunun í sambandi við það. Ég tek mjög eindregið undir það, að þar er mál á ferðinni sem þarf að bregðast við mjög fljótt, því að það eru flutt hér inn í landið heil hús með búnaði, sem er tollaður ef hann er fluttur inn einstakur, en kemur inn ótollaður ef hann er inn í slíkri fasteign. Slík mismunun gengur að sjálfsögðu ekki og er unnið að því að bregðast við því af hálfu stjórnvalda.