08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

63. mál, styrktaraðgerðir við iðnað í viðskiptalöndum okkar

Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. svörin og vil jafnframt nota þetta tækifæri til að þakka honum fyrir þá hörðu ræðu, sem hann flutti á ráðherrafundi EFTA, og ummæli hans um styrktaraðgerðir nágrannaþjóðanna þar, sem Norðmenn töldu samkv. blaðaviðtölum reyndar högg fyrir neðan belti, að mínu viti mjög ranglega. Ég held að íslenskir fulltrúar þurfi á erlendum vettvangi að gera þessi mál að umræðuefni og það í fullri alvöru.

Ég verð að segja það eins og er, að mér þykir nefndarstörf eins og þau, sem hér um ræðir, ganga hægt. Ég skal fyrstur manna viðurkenna það, að menn þurfa að undirbyggja sínar ákvarðanir vel, en endalaus nefndarvinna nær auðvitað alls ekki nokkurri átt. Það má vel vera og er sjálfsagt rétt, að innborgunargjald, innborgunarskylda um 35% í eitt ár mun hjálpa eitthvað til að byrja með. Það dregur úr innflutningi fyrst eftir að slíkt gjald kemur á. En það þarf meira til, það þarf miklu meira til. Ég hef verið eindregið þeirrar skoðunar, að það þurfi að leggja jöfnunartolla á í slíkum tilvikum sem hér er um að ræða. Ég á erfitt með að skilja að það geti verið svo mikið mál og ekki sé greiður aðgangur að því að fá upplýsingar um þessi mál í nágrannalöndum okkar, þegar ég hef sjálfur undir höndum heilar leiðbeiningabækur um styrktaraðgerðir við þessar iðngreinar. Það eru opinberar bækur og mér þykir undarlegt ef ekki er hægt að festa hendur á þeim.

Ég er þeirrar skoðunar, að Íslendingar eigi að leggja jöfnunartolla á, t. a. m. 10% jöfnunartolla á innflutt húsgögn á grundvelli þessara leiðbeiningabóka, og tilkynna okkar viðskiptalöndum, þessum fríverslunarbandalagslöndum, að þeir verði ekki teknir af fyrr en þau hafi með öruggum hætti sýnt fram á að þessar styrktaraðgerðir séu ekki lengur til

Iðnrh. kom hér að því, að ríkisstj. hefði samþykkt að koma á sérstöku gæðamati á innflutt húsgögn. Það er ábyggilega mjög gott mál, og mér er ekki grunlaust um að það, sem hv. 6. þm. Reykjv. kom hér inn á og kallaði óbeinar hömlur á innflutningi, sé slíkt gæðamat sem nágrannaþjóðir okkar og viðskiptaþjóðir hafa komið á og kalla bara, hygg ég, beint út hjá sér „momentary barriers“. Hins vegar er ýmsum spurningum varðandi slíkt gæðamat ósvarað. Á það að vera skylda að öll innflutt húsgögn undirgangist slíkt gæðamat, að innflutt húsgögn t. a. m. uppfylli ákveðin skilyrði? Eða á þetta að vera þannig, eins og mér skilst að það sé meira í mörgum öðrum löndum, að gæðamerki vinni sér sess þannig að neytendur viti að það sé óráðlegt að kaupa vöruna nema hún sé gæðamerkt. Þarna er mikill munur á.

Varðandi innfluttu húsin vil ég aðeins segja það, að það virðist stóraukast nú að flytja inn tilbúin timburhús til Íslands. Það er enginn vafi á því, að þarna þarf gæðamat að koma til og að ýmis ákvæði í íslenskum byggingarsamþykktum þurfa að koma alveg sérstaklega til athugunar í þessu sambandi. Það er ekki tími til að rekja það hér, en við þurfum að reikna með meiri vindstyrk en gert er í þessum löndum. Þess vegna þarf að akkera þak hér á Íslandi betur niður en gert er í þessum löndum. Og við þurfum að reikna með slagregni hér sem gerir vatnsþéttingar miklu erfiðari og nákvæmari en gert er í þessum löndum. Þar eru því ýmis ákvæði sem nauðsynlegt er að taka á. Slíkar aðgerðir eru hrein neytendavernd, að það séu ekki flutt inn hús sem uppfylla ekki þær kröfur, sem íslenskt veðurfar útheimtir að gerðar séu.

Ég vil alveg sérstaklega hvetja íslensku ríkisstj. til að taka fast á þessu máli. Ég tel alveg nauðsynlegt að leggja jöfnunartolla á í slíkum tilvikum sem þessum. Það er ábyggilegt, að íslenskur iðnaður verður að njóta sömu grundvallaraðstæðna og sá iðnaður sem hann keppir við erlendis. Til þess þarf að mæta þessum jöfnunar- og styrktaraðgerðum auk þess sem auðvitað er alveg nauðsynlegt að bæta þau starfsskilyrði sem innlendur iðnaður býr við hér. Þá á ég sérstaklega við þá mismunun á milli grunnatvinnuvega þjóðarinnar sem fram kemur í launaskatti og aðstöðugjaldi.