08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

63. mál, styrktaraðgerðir við iðnað í viðskiptalöndum okkar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hef í höndum greinargerð um jöfnunartolla. Hún er allt of löng til þess að gera grein fyrir henni hér og skal ég ekki gera það. En það er aðalregla samkv. okkar tollskrárlögum og GATT-samningunum, sem við erum aðilar að eins og kunnugt er, að það verða að vera a. m. k. þrjú skilyrði til þess að hægt sé að setja á jöfnunartoll. Í fyrsta lagi verður varan, sem er innflutt, að njóta ríkisstyrkja erlendis, í öðru lagi verður innlendum atvinnurekstri að hafa verið stefnt í verulega hættu eða hann torveldaður að mun vegna þess og í þriðja lagi verður að vera orsakasamband milli þess, að innflutt vara fær slíkan styrk erlendis, og þess, að innlendum atvinnurekstri sé stefnt í hættu eða hann torveldaður.

Áður en til álagningar kemur verður innflutningsland að láta fara fram rannsókn er sannar að öll framantalin skilyrði séu til staðar. Í tollskrárlögum er fátt sagt um hvernig stjórnvöld, þ. e. fjmrn. sem þetta heyrir undir, skuli standa að álagningu jöfnunartolls. Samkv. lögunum getur fjmrh. sett nánari reglur um jöfnunartolla og um skil á þeim, en þessar reglur hafa enn ekki verið settar. Af lögum og ákvæðum GATT-samningsins er ljóst að jöfnunartoll má aðeins leggja á innflutta vöru, ef skilyrði álagningar eru sannanlega fyrir hendi, sbr. það sem ég sagði áður. Þessir tollar eru yfirleitt lagðir á yfir tiltekið tímabil og hámarkið er samkv. okkar lögum sex mánuðir, ef ég man rétt. Þetta er auðvitað aðgerð sem kemur til greina, og hér hefur verið minnst á eitt mál sem er sláandi í þessum efnum og sýnir í raun og veru hvað okkar — ég vil segja: tollalög og kannske lagaástand er úrelt, og það er það, að þegar flutt eru heil hús inn í landið eru fjöldamargir hlutir í þeim húsum tollfrjálsir, sem sæta allháum tollum ef þeir eru fluttir inn sérstaklega. Ég hefði haldið að það væri mögulegt í þessu sambandi að framkvæma lögin þannig að tolla sérstaklega slíka hluti án þess að breyta lögum, en skal ekkert um það fullyrða. En í öllu falli er það alveg ljóst, að við getum sjálfir lagfært hjá okkur ýmislegt sem ekki er sanngjarnt í garð iðnaðarins þegar um er að ræða innflutning á vöru sem er framleidd hér í landinu, eins og hús, og sjálfsagt að leita allra leiða í þeim efnum.

Ég vil svo að lokum segja það, að þetta er auðvitað mjög þýðingarmikið mál fyrir okkur. Við eigum í vök að verjast með veikan iðnað, lítinn heimamarkað og harða samkeppni, við eigum mjög í vök að verjast. Og það háttar þannig til hjá okkur, eins og ég gat um áður, að svæði, sem eru talin jarðarsvæði í ýmsum EFTA-löndum og eiga við byggðavandamál að stríða, njóta ýmislegra styrkja og stuðnings, sem heimilt er samkv. EFTA-lögum eða EFTA-sáttmálanum. Þessi svæði eru kannske fjölmennari en Ísland og við auðvitað eigum í vök að verjast við samkeppni iðnaðarframleiðslu frá þessum svæðum. Það er því eðlilegt að við gerum kröfur um það, að menn reyni að finna mörk í þessum efnum, sem eru þess eðlis, að við sem aðildarríki að Fríverslunarbandalagi Evrópu getum sæmilega við unað og höfum skilyrði til þess að þróa okkar iðnað með eðlilegum hætti.