08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram í þessari umr., að til er fjármagn til að leysa úr þessum vanda. Spurningin er því aðeins hvort sami vilji er hjá hæstv. ríkisstj. til að leysa þetta mál — með fjármunum sem hún hefur — eins og kom í ljós hjá hæstv. ríkisstj. til að leysa ýmsan vanda, sem skapaðist á s. l. ári, án samráðs við Alþingi — með fjármunum sem hún hafði ekki og gat ekki ráðstafað.

Hæstv. ríkisstj. hóf feril sinn á þessu ári undir kjörorðinu: Vilji er allt sem þarf. — Hún ætlar nú að enda uppgjörið eftir árið undir kjörorði sem er nokkuð áþekkt, en raunar þveröfugt og væri einhvern veginn á þá leið: Vilji er allt sem hvarf.