08.12.1981
Sameinað þing: 31. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

348. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Aðeins örfá atriði. — Ég vil minna á að lögin, sem nú gilda um þessi mál, voru sett í fyrra og í vor skilaði ég skriflegri skýrslu til alþm. um framkvæmd laganna. Það var gert ráð fyrir að endurskoða þessi lög fljótlega með tilliti til þeirrar reynslu sem af þeim fengist, og í samræmi við það starfar nú nefndin, sem hér hefur verið rætt nokkuð um, að því að gera tillögur í þessum efnum. Það kann að vera ástæða til að breyta ákvæðum í lögunum, t. d. því ákvæði að einhverju leyti, að menn eiga ekki kost á því lögum samkv. að fá olíustyrk ef menn geta fengið rafmagn frá rafveitu. En það er ekki alveg vandkvæðalaust. Það kostar mikið fé að gera slíkar breytingar á húsum og það kann að vera ástæða til þess að létta undir með mönnum í þessu efni. En þannig er þetta lagaákvæði nú.

Hv. þm. Egill Jónsson minntist á umr. í Ed. Ég held að ég hafi verið alveg sjálfum mér samkvæmur í málflutningi þar og hér. Ég er opinn fyrir því að hækka olíustyrkinn og enn fremur að greiða uppbót. En eins og ég hef margsagt hér áður, þá bíð ég eftir að heyra frá nefndinni hvað hún telur vera ráðlegt.

Karvel Pálmason blandaði saman tveimur málum í máli sínu hér áðan. Annars vegar er spurningin um það, hvort ríkisstj. vilji hafast að í þessum málum. Auðvitað hefur hún gert það, en hvort hún vilji hafast frekar að í þessum málum. Hins vegar er spurningin um það hvort hún vilji gera það í sambandi við launasamninga Alþýðusambands Vestfjarða. Það er það sem ríkisstj. hefur ekki viljað. Hún hefur ekki viljað blanda þessum málum saman og telur það ekki skynsamlegt, vegna þess að auðvitað varða þessi mál miklu fleiri en Vestfirðinga, þó að þau brenni mjög á þeim eins og líka fólki í mínu kjördæmi á Austurlandi. Þar eru þessi mál mjög brennandi víða eins og kunnugt er, og svo er víðar.

Varðandi greiðslu út á seinasta ársfjórðung, þá hefur venjan verið sú, að það hefur ekki verið ákveðin greiðsla fyrr en í janúarmánuði fyrir síðasta ársfjórðung árið á undan. Það á því að vera nægur tími til að framkvæma þau mál, greiða það sem menn telja skynsamlegt að greiða. Ég vonast til þess að sjónarmið nefndarinnar og ríkisstj. falli saman þegar þau hafa verið borin nánar saman og menn hafa ráðgast um hvað skynsamlegt væri að ákveða að lokum fyrir árið sem er að líða.