08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég hefði haldið að fleiri ráðh. og fleiri stjórnarsinnar mundu kveðja sér hljóðs við þessar umr., en það sést á málleysi þeirra hve mjög þeir eiga að verjast. Ég vil þó ekki láta hjá líða að þakka hæstv. landbrh., þrautavaraforsrh., svör hans áðan. Það var ekki von á skýrari svörum e. t. v, af hálfu þrautavaraforsrh., jafnvel þótt taka megi undir það, sem einu sinni var sagt hér í þingsölunum af manni náskyldum hæstv. landbrh., að á varamönnum væri vaxandi trú. Víst er að ég efast um að hæstv. forsrh. hefði svarað nokkru skýrar eða betur en hæstv. landbrh.

Það liggur alveg ljóst fyrir, að engin fyrirhyggja hefur verið af hálfu ríkisstj. varðandi þau mál er ég spurðist fyrir um. Hæstv. landbrh. sagði að það væri eðlilegt að fsp. mínar yrðu ræddar að forsrh. viðstöddum. En ég vek athygli á að forsrh. er ekki von hingað til lands fyrr en seinni hluta á fimmtudegi. Nú er alveg óvíst hvort nokkur fundur verður á föstudegi eða laugardegi, sem venjulega eru ekki fundardagar Alþingis. Talað hefur verið um að 2. umr. fjárl. fari fram á fimmtudegi, en síðan er talað um föstudag, þá laugardag, og nú er jafnvel ekki talað um að þessi umr. fari fram fyrr en eftir helgi. Það er alveg gagnslaust að fara að gera slíka fsp. eftir helgi þegar vika er eftir af venjulegum þingtíma fyrir jól. Það er þó nú einhver von e. t. v. fyrir hæstv. ríkisstj. að krafsa í bakkann.

Eins gagnrýnisvert og það er af hálfu ráðh. að dveljast svo lengi erlendis sem raun ber vitni um á annatíma þingsins, þá er það þó einkum gagnrýnisvert að þeir hafa ekki úthlutað þeim verkefnum, sem vinna þarf á þessum tíma, til starfsbræðra sinna eða annarra þm. stjórnarliðsins. Það liggur ljóst fyrir af svörum hæstv. landbrh. að svo hefur ekki verið gert. Hann telur sig ekki hafa umboð til að kalla saman formenn þingflokkanna eða óska eftir viðræðum við forseta þingsins til að skipuleggja vinnubrögðin þá fáu daga sem eftir eru til jóla, heldur á þetta að bíða eftir heimkomu þeirra ráðh. sem erlendis eru og þá á, segir hæstv. landbrh., að ræða við formenn þingflokkanna og þá á að semja lista um þau þingmál sem afgreiðslu verða að hljóta fyrir jól. Það er vandi úr að ráða þegar formenn þingflokkanna eru einnig staddir erlendis. Hugsið ykkur þann lista sem saminn verður um þingmál sem þm. eiga að afgreiða á færibandi á minna en viku. Ég er hræddur um að eins og staðið hefur verið að málum sé það t. d. alveg borin von að fylgt sé í raun og veru lagaákvæðum um að lánsfjár- og fjárfestingaráætlun sé afgreidd með fjárlögum. Ég held einnig að það sé í raun og veru virðingarleysi gagnvart alþm. að ætla þeim að afgreiða ýmis þau skattafrv. sem farið er fram á að verði samþykkt fyrir áramót, jafnvel þótt þau skattafrv. séu endurnýjun á skattaálagningarheimildum sem eru í lögum á yfirstandandi þingi. Þar á meðal eru umdeildar skattaálögur sem m. a. eru mismunandi skoðanir um innan stjórnarliðsins.

Það var að heyra á ræðu hæstv. landbrh. að það væri svo sem ekkert víst að það væru væntanlegar neinar efnahagsaðgerðir, a. m. k. hefði ríkisstj. ekki gefið út nema tilkynningu um það. Ræðumenn á undan mér hafa skýrt frá ummælum ýmissa ráðh., auk þeirra ummæla nm. í efnahagsnefnd sem ég vitnaði til. Gott væri ef ekki þyrfti að gera neinar efnahagsaðgerðir. En hræddur er ég um að ríkisstj. og ráðherrar vakni upp við vondan draum fljótlega ef þeir eru svo sofandi að álita að slíkra aðgerða sé ekki þörf og enn sé allt í lagi.

Ég vil leggja á það megináherslu, að alþm. láti ekki bjóða sé það aftur að vera sendir heim og í fjarveru þeirra séu brbl. sett sem að réttu þingræði eiga að vera rædd og afgreidd meðan þing situr. Aðvörun mín lýtur að því, að þau vítaverðu vinnubrögð, sem viðhöfð voru um s. l. áramót, verði ekki endurtekin. Það er alveg ljóst að þm. Sjálfstfl. munu ekki greiða atkv. með frestun funda Alþingis nema ljóst sé og frá gengið að sagan endurtaki sig ekki.