08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er árvisst að eiga í orðaskiptum við einhverja úr hæstv. ríkisstj. út af einföldum málefnum, sem þó liggja alveg ljóst fyrir. Nú er aftur byrjað á þeim söng í sambandi við jólaleyfi þm., að hvorki þessi ríkisstj. né nokkur önnur muni afsala sé rétti til að setja brbl. Það er enginn að tala um að ríkisstj. afsali sér neinum rétti. Spurningin er hvort Alþingi afsali löggjafarvaldi sínu til ríkisstj. Um það er spurt og um það verður barist á næstu dögum. Það þarf enginn maður að láta sér detta það í hug eftir reynsluna frá s. l. vetri, að þm. taki því orðalaust, að ríkisstj. hlaupi með löggjafarvaldið hér út úr þingsölunum á jólaföstu og fagni svo nýju ári með annarri eins sendingu og við fengum í byrjun þessa árs. Það er varla að hann hafi rétt almennilega úr sér einn helsti verkalýðsleiðtoginn hér inni síðan. Honum varð svo bumbult við þær ráðstafanir og varð svo kjarklaus.

En það er annað sem mér þykir líka ástæða til að leiðrétta hjá hæstv. landbrh. Hann sagði að fyrir ári hefði því verið spáð, að verðbólgan yrði 70–80%. Nú býð ég honum að fara með honum í gegnum fréttatilkynningar forsrh. frá s. l. hausti. Ætli hæstv. forsrh. hafi ekki boðið upp á jólaköku og kaffi og hveitisnúð uppi í stjórnarráði u. þ. b. hálfum mánuði áður en við tölum saman nú, kannske þrem vikum, einhvern tíma um miðjan nóvember. Þá var því sérstaklega fagnað, hversu mikill og góður árangur hefði náðst í baráttunni við verðbólguna. Ég man ekki eftir annarri eins viðhöfn og átti sér stað af því tilefni. Ég man eftir því raunar líka, að ég átti um það mörg orðaskipti við hæstv. viðskrh., hvort forsrh. segði satt, og hann sagðist trúa hæstv. forsrh. Hann var ekki jafntrúgjarn, nafni hans í guðspjöllunum forðum.

Auðvitað er það rétt, að þessi ríkisstj. hefur ekki hugmynd um hvort hún kemur sér saman um efnahagsráðstafanir né hvernig þær verða. Það eina, sem liggur ljóst fyrir, er að hæstv. varaforsrh., sá sem er utan þings, hefur skýrt frá því í ríkisfjölmiðlum að ríkisstj. nái ekki markmiði sínu í efnahagsmálum. Það liggur alveg ljóst fyrir. Jafnvel þótt hæstv. landbrh. sé yfir sig hrifinn af því, hversu vel hafi til tekist í verðbólgumálunum, jafnvel þótt hann láti í ljós ánægju sína yfir því, að nú sé aðeins spáð 50–55% verðbólgu á næsta ári, liggur fyrir að varaforsrh. er ekki jafnánægður og hefur sagt í Ríkisútvarpinu, að ríkisstj. hafi staðið sig illa að þessu leyti, og viðurkennt það. Og þá er spurningin: Hver eru þau markmið sem ríkisstj. setur sér nú? Ég geri ráð fyrir að við verðum að bíða næsta árs til að vita það. Ætli það liggi ekki fyrir um jólaleytið næsta ár hvaða markmið ríkisstj. setti sér á þeim dögum sem eru að liða? Ætli það verði ekki eins um verðbólguna: þeir uppgötvi ári seinna hver hún var á þessum tíma.

Annars er næsta broslegt þegar verið er að tala um að verðbólgan sé 40% frá árinu 1980 til 1981. Ég skora á ráðh. að benda á eitt einasta ríkisfyrirtæki — hæg eru heimatökin og þar eiga þeir að geta fylgst með og beitt sínum áhrifum — þar sem tilkostnaður á þessu ári er ekki nema 40% hærri en í fyrra miðað við sama rekstur. Skyldi það vera tilfellið um landbrn., að kostnaður við það hafi aðeins hækkað um 40% í ár miðað við í fyrra? Skyldi það vera tilfellið um viðskrn.? Það má vera að olíustyrkurinn hafi ekki hækkað nema um 40%. (Gripið fram í: Verðstöðvun á olíustyrk.) Verðstöðvun er á olíustyrk. Það er rétt. En að öðru leyti liggur alveg ljóst fyrir að verðhækkanirnar eru miklu meiri og einkanlega þó á því sem snýr að atvinnurekstrinum. Þar er verðbólgan miklu, miklu hærri, 55 eða 60%. Auðvitað er það skýringin á því, hvers vegna verkalýðshreyfingin treystir sér ekki núna til að setja fram kröfur um kjarabætur.

Ég spurði oft að því hér í þinginu í fyrra, m. a. talsmenn Alþb. í verkalýðsforustunni, bæði stjórnarmenn í BSRB og Verkamannasambandinu, hvaða kröfur þeir mundu gera um grunnkaupshækkanir á því hausti sem nú er liðið. Ég hélt því fram, þegar við stóðum frammi fyrir því að samþykkja kjaraskerðinguna 1. mars, að verkalýðshreyfingin mundi ekki treysta sér til þess við samningsgerðina á þessu hausti að taka aftur upp þráðinn að nýju og krefjast þeirrar grunnkaupshækkunar, sem ranglega var af henni tekin um síðustu áramót, vegna þess að verkalýðsforingjarnir væru búnir að gera sér grein fyrir að ríkisstj. mundi ekki láta þá komast upp með það, hún mundi hrifsa kauphækkunina óðar til baka, af því að hún þykist hafa tögl og hagldir í verkalýðshreyfingunni og vegna þess að þeir menn, sem þar ráða mestu, eru ekki menn til þess að verja hendur sínar.

Nú vil ég taka það alveg skýrt fram til þess að það valdi ekki misskilningi, að ég er ekki þeirrar trúar að grunnkaupshækkanir nú mundu skila árangri, jafnvel þótt heilbrigð ríkisstj. væri við völd. En hitt er náttúrlega staðreynd, að til þess hlýtur hinn almenni launþegi og almenni borgari að ætlast, að dregið sé úr skattheimtunni. Það er kjarni málsins.

Það liggur ekki fyrir hvort þinginu ljúki degi fyrr eða síðar og skiptir kannske ekki öllu máli. Það getur dregist til 22. desember. Það getur vel verið að við verðum hér saman á Þorláksmessu eða verðum hér milli jóla og nýárs til að afgreiða fjárlög. Það veit enginn á þessari stundu. En það munum við í sambandi við fóðurbætisskattinn, að hæstv. landbrh. er þeirrar skoðunar, a. m. k. í sumum málum, að þeim verði ekki almennilega komið fram nema Alþingi sé víðs fjarri, og sum mál séu þess eðlis að þau þoli ekki skoðun Alþingis, þess vegna sé best að koma sér saman um það í einhverju makki uppi í ráðuneyti og láta svo borgarana og síðan dómstólana og svo loks Alþingi standa frammi fyrir gerðum hlut. Því stefnir ríkisstj. að núna í efnahagsmálum, í dýrtíðarmálum, að koma Alþingi heim, fá af sér litasjónvarpsmynd á nýju ári á undan og eftir hæstv. forseta, til þess að menn sjái hvað þeir eru myndarlegir og virðulegir, ráðherrarnir, í staðinn fyrir að hafa djörfung til að leggja málin fyrir Alþingi með þinglegum hætti.