08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það hefur komið hér fram, að hæstv. ráðherrar þurfa mjög að sinna alþjóðamálum um þessar mundir, og væri að bera í bakkafullan lækinn að fara að ræða um það hér. En ég sé, að hæstv. viðskrh. hefur setið hér og hlýtt á þessar umr., og ég ætla að nota tækifærið til að ræða aðeins við hann því að það getur varðað þinghaldið nokkru.

Í morgun gengu á fund okkar í fjvn. sérfræðingar frá Þjóðhagsstofnun og komu með tekjuáætlun fjárlaga eins og hún mun líta út frá þeirra sjónarhóli. Þá gerðu þeir okkur grein fyrir því í fjvn., að það væru áætlaðar sömu tekjur af ýmsum sköttum, sem hæstv. ráðherrar Framsfl. höfðu fyrirvara um þegar fjárlagafrv. var lagt fram í ríkisstj., svo sem launaskatti, skatti af verslunar- og skrifstofuhúsnæði og þar fram eftir götunum. Nú mundi það að sjálfsögðu tefja þingstörf ef breyta þyrfti skattalögum að verulegu leyti og t. d. að þessu leyti, því að þá þyrfti að hafa hraðar hendur um að breyta skattalögum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. viðskrh., hvort hæstv. ráðherrar Framsfl. hafi fallið frá fyrirvara sínum um þessar skattaálögur á næsta ári, og ef svo er ekki, hvort ekki sé þá að vænta frv. um breytingar á skattalögum fyrir jólaleyfi.

Enn fremur vil ég enn spyrja um hvort hæstv. ríkisstj. hyggist flytja frv. til l. um þann nýja skatt sem gefið er í skyn að verði lagður á á næsta ári, þ. e. svokallað byggðalínugjald upp á 40 millj. kr., sem áætlað er í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun að sá skattur muni gefa af sér, og hvort meiningin sé þá að afgreiða frv. um þann skatt fyrir jólaleyfi. Þetta finnst mér skipta verulegu máli, bæði vegna vinnu við fjárlagaafgreiðsluna og eins vegna vinnu nefnda, sem þurfa þá að fjalla um frv. af þessu tagi.