08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það er sjálfsagt og þarf ekki að hafa um það mörg orð og það er eðlilegt að ráðherrar í ríkisstj. svari til saka í þinginu um sínar gerðir og sína stefnu og sín mál. Hvort þeim beri beinlínis skylda til að taka til máls utan dagskrár um mál sé orðum ekki sérstaklega til þeirra beint er annað mál og verður ekki talið, held ég, vanræksla af þeirra hálfu sem ráðherra þó að þeir láti hjá líða að taka þátt í umr. um málefni utan dagskrár sé orðum ekki alveg sérstaklega til þeirra beint í upphafi. (GH: Spurningunum var beint til allra ráðh.) Jú, það eru ákveðnar reglur um það í þingsköpum hvernig ráðherrar eru spurðir. Ég segi fyrir mig sem ráðh.: Ég er reiðubúinn að svara fyrir mig samkv. þingsköpum, en menn eru ekki skyldugir til þess að ganga í ræðustól hér á hv. Alþing; og taka þátt t. d. í almennum umr. um efnahagsmál utan dagskrár.

Ég vil upplýsa það, ef það hefur ekki komið fram, — ég held að það hafi ekki komið fram hér áður, — að ég veit ekki betur en hæstv. forsrh. sé erlendis að taka þátt í forsætisráðherrafundi Norðurlanda. Það er ein af skyldum forsrh. að gera það. Hefur ekki verið fundið að því hingað til þó að forsrh. hafi farið til úrlanda til að taka þátt í fundum sem heyra til hans starfi. Hæstv. sjútvrh. og samgrh. er á fundum með samgrh. Norðurlanda, að því er ég ætla, og ég veit ekki betur en hann komi heim um næstu helgi. Ég vil ekki dagsetja það hér, vegna þess að ég er ekki alveg viss um það, en ég held að hann komi heim um næstu helgi. Hæstv. dómsmrh. gegnir því starfi að vera samvinnuráðherra í samstarfi Norðurlanda og er að sinna þeim skyldum sínum. Ég tel að það sé ekki réttmæt gagnrýni að gagnrýna ráðh. fyrir að gegna skyldum sínum erlendis. Það er alveg ljóst, að störf ráðh. eru með þeim hætti nú orðið í miklu alþjóðlegu samstarfi og Norðurlandasamstarfi að þeir þurfa að sinna sínum skyldum. Sjálfsagt er að upplýsa um það.

Í umræður varðandi fyrirætlanir ríkisstj. í efnahagsmálum ætla ég ekki að blanda mér hér og nú. Ríkisstj. hefur að sjálfsögðu vald til að setja brbl. í jólaleyfi þingsins eins og jafnan hefur verið. Ég man ekki eftir því að ríkisstjórnir hafi afsalað sér slíku valdi. Löggjafarvaldið er, eins og kunnugt er, samkv. stjórnarskránni hjá Alþingi og ríkisstj., ef ég man það rétt. Hjá ríkisstj. er brbl.-vald sem síðan er lagt fyrir Alþingi til endanlegrar ákvörðunar.

Um þetta þarf ekki að fjölyrða hér á hv. Alþingi, en ég taldi rétt að upplýsa það hér í þinginu, hvað hæstv. ráðherrar væru að gera erlendis, og get ekki stillt mig um að minnast þess, að á undanförnum árum, og án tillits til ráðh. og án tillits til ríkisstjórna, hefur verið allur gangur á utanferðum ráðh. Ég skal ekkert um það dæma, hvort þær eru meiri í þessari ríkisstj. en verið hefur áður. Ég veit það ekki, en hygg að það sé eitthvað svipað, a. m. k. er það svo í mínu rn. Það eru nokkrar ráðstefnur á hverju ári sem viðskrh. þarf að sækja samkv. sinni stöðu, og það hefur verið gert um árabil. Ég held að það sé enginn munur á því um þessa ríkisstj. og þá ráðherra sem í henni sitja hvað snertir að sækja alþjóðlegar ráðstefnur. Ég tel að utanferðum ráðh. í opinberum erindagjörðum hafa ekki fjölgað frá því sem verið hefur á undanförnum árum.