08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en mér datt í hug, þegar hæstv. viðskrh. var að tala hér áðan, að erfiðar hafi honum þótt spurningarnar um efnahagsmál og væntanlegar aðgerðir í þeim, en þó enn þá erfiðara að svara því, hvenær ferðalangarnir kæmu heim aftur. Á sama hátt kann mér að reynast dálítið erfitt að svara hv. þm. Sighvati Björgvinssyni þegar hann spyr um afstöðu hv. þm Alberts Guðmundssonar og Eggerts Haukdals varðandi frestun þingfunda. Ég get eiginlega ekki svarað því öðruvísi en svo, að a. m. k. í öðru tilvikinu kunni það að fara eftir því, hvernig kaupin gerast á eyrinni.

Hæstv. forsrh. sagði áðan að ég hefði snúið út úr ræðu sinni. Ég kannast ekki við að ég hafi snúið út úr ræðu hæstv. ráðh. Ég dró saman í örstuttu máli það sem mér fannst hann segja, túlkaði það kannske á minn hátt. Það getur vel verið að ég hafi misskilið eitthvað, en að um útúrsnúning hafi verið að ræða er ekki rétt og ég vísa því á bug.

Ég get alveg á sama hátt dregið saman í örstuttu máli það sem hæstv. ráðh. sagði í seinni ræðu sinni. Það var þetta: Hann ítrekaði að hann færi ekki út í almennar umr. um efnahagsmál. Hann taldi eðlilegt að það yrði haft samráð milli ríkisstj. og forseta Alþingis um frestun þingfunda. Hann sagðist ekki ræða það, sem ég hefði verið að tala um í minni ræðu, vegna þess að til þess þyrfti að fara út í almennar umr. um efnahagsmál. Hann talaði um að það hefði orðið verulegur árangur í baráttu hæstv. ríkisstj. við verðbólguna. — Um það gætum við deilt, svo að ekki sé meira sagt. — Hann sagði að þessi ríkisstj. ætlaði sér ekki að afsala sér rétti til útgáfu brbl. — Um það hefur hv. þm. Halldór Blöndal farið nægilega mörgum orðum og ég þarf ekki að bæta þar neinu við. En hæstv. viðskrh. ráðlegg ég að lesa eitt og annað sem hæstv. ráðh. Ólafur Jóhannesson hefur skrifað um útgáfu brbl. meðan á frestun þingfunda stendur. Þar kann að koma ýmislegt annað upp en hæstv. ráðh. hefur haldið fram í umr. í dag. — Að lokum tilkynnti svo hæstv. forsrh., að tilkynningar um úrræði sín í efnahagsmálum gæfi ríkisstj. ekki í utandagskrárumr. á þingi.

Þetta var megininntakið í seinni ræðunni, og nú kann að verða sagt að ég sé að snúa út úr. Ég er ekki að því. Ég er að draga saman í stuttu máli það sem hæstv. ráðh. hafa haft fram að færa í þessum umr. í dag, og það er ekki merkilegra en þetta.