08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

32. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Í þriðja sinn leggjum við sjálfstæðismenn á Alþingi fram till. til þál. um stefnumótun í landbúnaði og er till. nánast óbreytt frá fyrra flutningi. Áður höfðu sjálfstæðismenn á Alþingi tvívegis flutt till. um hliðstætt efni.

Þótt landbúnaðurinn hafi frá upphafi sögu Íslands búið með þjóðinni og þannig lengst af verið á marga vegu ákvarðandi um kjör hennar og áform hafa á tímum breyttra þjóðlífshátta síðustu áratuga leiðir landbúnaðar og þjóðarheildar ekki ætíð rekist saman svo sem áður var. Á síðustu árum hefur jafnvel svo hart að kveðið að margháttuð gagnrýni og efasemdir hafa grafið um sig í þjóðfélaginu að því er varðar gildi landbúnaðar og þörf þjóðarinnar fyrir þann atvinnuveg. Þess vegna m. a. þarf og er raunar nauðsynlegt fyrir stjórnmálafokk að skýra fyrir þingi og þjóð viðhorf sín til málefna landbúnaðarins. Þess vegna flytjum við 19 þm. Sjálfstfl. á þskj. 32 till. til þál. um stefnu í landbúnaðarmálum. Þessi stefnumótun kemur fram í sjö greinum í sjálfri till. Helstu þættir hennar eru:

Lögð er áhersla á að treysta sjálfseignarábúð bænda og landbúnaðurinn sé metinn sem sjálfstæður atvinnurekstur.

Að grundvöllur landbúnaðar, sem felst í ræktun landsins, verði treystur.

Að fullnægt sé þörfum þjóðarinnar fyrir landbúnaðarvörur, bæði til neyslu og iðnaðar.

Að miða við að hefðbundnar búgreinar ásamt aukinni nýtingu hlunninda leggi grundvöll að núverandi byggð í sveitum landsins og að ný viðfangsefni treysti enn frekar en nú er sveitabyggðirnar.

Að lífskjör sveitafólks og félagsleg réttindi þess verði tryggð.

Að lokum er lögð á það áhersla, að gætt sé hófsemi í umgengni við landið og náttúru þess og að öllum Íslendingum verði gefinn kostur á að njóta samskipta við náttúru Íslands.

Tilefni þeirrar umr., sem átt hefur sér stað um landbúnaðarmál og að hefur verið vikið, ber einkum að rekja til hinnar svokölluðu umframframleiðslu í landbúnaði. Segja má að stefna í landbúnaðarmálum hafi verið óbreytt í tvo áratugi. Með breytingum á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins árið 1960 var landbúnaðinum tryggður réttur til bóta á útfluttar búvörur er að upphæð máttu nema allt að 10% af heildarverðmæti landbúnaðarvara. Þessi lögboðna verðtrygging nægði til að verðbæta útfluttar búvörur allt til ársins 1976. En þá hófst sá vandi, sem síðan hefur vaxið, að óverðtryggðar birgðir búvara hafa aukist ár frá ári. Vöntun útflutningsbóta á þessu tímabili á verðlagi hvers árs um sig hefur numið verðlagsárið 1976–1977 500 millj. kr., verðlagsárið 1977–1978 1.8 milljarði kr., verðlagsárið 1978–1979 3.5 milljarði kr., verðlagsárið 1979–1980 4.5 milljarði kr., og fyrir síðasta verðlagsár mun vöntunin nema 4.4 milljörðum kr. — Hér er að sjálfsögðu átt við gamlar krónur.

Til að unnt sé meta þá þróun í framleiðslumálum, sem hér hefur átt sér stað, er nauðsynlegt að skýra hverjar séu þær ástæður sem til grundvallar liggja. Samkvæmt yfirliti frá Þjóðhagsstofnun, sem birtist sem fskj. með þáltill., kemur í ljós að meðalútflutningsverð á síðustu tveimur áratugum hefur numið ca. 52% af innanlandsverðinu. Fróðlegt er að bera saman hlutfallið í upphafi þessa tímabils, þ. e. upp úr árinu 1960, við verðlagið nú. Við þann samanburð kemur í ljós, að í fyrra tilvikinu gaf erlendi markaðurinn ca. 75% af verðinu hér innanlands. Á árinu 1978, sem er síðasta samanburðarárið, er hliðstæð tala innan við 40%. Breytingin, sem varð á þessu tímabili, er m. ö. o. sú, að erlendi markaðurinn gaf á árinu 1978 helmingi minni verðmæti miðað við innanlandsverð búvaranna en hann gerði fyrir tveimur áratugum.

Til að skýra ástæðurnar ætla ég enn að vitna til Þjóðhagsstofnunar og Hagstofu Íslands, en álit þeirra stofnana kemur m. a. fram í tveimur fskj. sem fylgja tillögunni.

Á áratugnum 1960–1970, þegar verðlag í landinu var stöðugt, reyndust útflutningsbótaheimildir í flestum tilvikum fullnægjandi. Á síðasta áratug varð tvívegis mikilvæg breyting í verðlagsþróuninni. Allt til ársins 1972 fylgjast þrír mikilvægir verðlagsferlar að, þ. e. vöru og þjónustu, búvöruverðs og útflutningsbótaréttar, en þá fara þeir líka að greinast að. Árið 1976 skiptist svo verðlagsferill útflutningsbótaréttar og þarfa, jafnframt því sem á þeim verður mikil hækkun. Frá þeim tíma til dagsins í dag nær það tímabil í búvöruframleiðslu sem kennt hefur verið við offramleiðslu búvara.

Frá framleiðsluárinu 1969 til ársins 1979 var framleiðsluaukning í landbúnaði tæp 30%. Þessi framleiðsluaukning er jafnan talin orsök þeirrar birgðasöfnunar í landbúnaði sem átt hefur sér stað síðan. Að hinu ber þó að gá, eins og áður er frá sagt, að sá vandi varð ekki til fyrr en í árslok 1976, en frá þeim tíma er aukning í framleiðslu búvaranna á milli 3 og 4% og raunar minni sé miðað við síðasta ár.

Þá er ekki síður fróðlegt að virða fyrir sér magnferil útfluttra landbúnaðarvara. Þannig hefur á síðasta áratug hlutfall útfluttra búvara af heildarframleiðslu landbúnaðarins verið lægra en það var fyrir 10 árum. Árið 1980, sem er síðasta viðmiðunarárið, nemur þessi mismunur ca. 10%.

Mikilvægt er að athuga tölu búfjár í landinu og þær breytingar sem orðið hafa á bústofninum á síðari árum. Sauðfjártalan í landinu hefur jafnan verið háð árferði eins og það hefur verið á hverjum tíma. Þannig fækkaði sauðfé á áratugnum milli 1960 og 1970. Þá var árferði fremur óhagstætt fyrir landbúnað, m. a. vegna kals í túnum. Aftur á móti hefur sauðfé fjölgað á síðasta áratug, þar til á allra síðustu árum, þegar harðna tók í ári á nýjan leik, að sauðfé hefur fækkað og er nú að fjölda til svipað og áður var. Öðru máli gegnir um mjólkurkúastofninn, en þar hefur átt sér stað stöðug fækkun og er nú svo komið að mjólkurkýr á fóðrum eru færri en verið hefur nokkurt ár frá árinu 1960.

Í grg. með till. er gerð nákvæm grein fyrir áhrifum kjarnfóðurs í búvöruframleiðslunni. Það kemur m. a. fram að kjarnfóðurverð á síðustu árum hefur verið sérlega hagstætt. Á árunum upp úr 1960 var verð á 1 kg af mjólk og 1 kg af kjarnfóðri svipað, en á síðustu árum hafa þessi verðhlutföll breyst þannig að verð á hverju kg af mjólk er svipað og verð 2 kg af kjarnfóðri.

Augljóst er að kjarnfóðurverðið á hverjum tíma hefur mikil áhrif á notkun kjarnfóðurs, sérstaklega við mjólkurframleiðslu. Samkv. þeim forsendum, sem miðað er við í grg., þ. e. niðurstöðu búreikninga, nemur kjarnfóður að meðaltali á síðasta áratugnum um 26% af fóðurnotkun mjólkurkúa ég hefur aukist úr ca. 20% í upphafi hans í ca. 30% í lok áratugarins. Samkv. sömu heimildum hefur kjarnfóðurnotkun í sauðfjárrækt hins vegar ekki aukist, en hún nemur ca. 15% af fóðurþörf sauðfjárins.

Hér að framan hef ég gert nokkra grein fyrir framleiðsluþróun í landbúnaði á s. l. tveimur áratugum og þeim orsakaþáttum sem snerta landbúnaðarframleiðsluna. En til að auðvelda mat á því vandamáli, sem gjarnan er nefnt offramleiðsla á búvöru, er vert að athuga sérstaklega þróun þessara mála á fimm síðustu árum, þ. e. frá þeim tíma sem útflutningsbótarétturinn nægði ekki lengur, en miðað við verðlag, eins og það hefur verið á hverjum tíma, hefur umframþörfin aukist úr hálfum milljarði króna í tæplega 4.5 milljarða króna, þ. e. nífaldast. Umreiknuð til sama verðlags ársins 1977 hefur aukningin hins vegar tæplega tvöfaldast sé miðað við síðasta verðlagsár.

Engan veginn verður vöntunin á útflutningsbótafé skýrð með þeirri framleiðsluaukningu búvara sem átt hefur sér stað á þessu tímabili, en hún nemur, eins og áður hefur verið sagt, á milli 3 og 4%. Á árinu 1977 var verðbólgan hér á landi á ársgrundvelli ca. 30% og hefur því á þessu tímabili, sem hér hefur sérstaklega verið fjallað um, nálega tvöfaldast.

Þegar þessar staðreyndir eru metnar er augljóst að það er verðbólgan í landinu sem er sú orsök sem mest áhrif hefur haft. Þess vegna ber að leggja áherslu á að dreifing byggðar og búseta kunna frekar að ráðast af verðbólguþróuninni í landinu en nokkru öðru. Þrátt fyrir þessa staðreynd verður ekki hjá því komist að viðhafa nokkra stjórn á búvöruframleiðslunni.

Augljóst er að framleiðsluskömmtun í þeirri mynd, sem hún birtist í innan hins svokallaða kvótakerfis, samræmist ekki stefnu Sjálfstfl. Enn fremur verður að hafa hugfast að með tilliti til þess, að búfé er að tölu til í lágmarki, eru ekki rök fyrir frekari búfjárfækkun. Sem viðmiðun er í till. lagt til að kjarnfóður, sem þarf til búvöruframleiðslunnar innanlands, verði ekki skattlagt, en að heimilt verði að taka gjald af toppnum af kjarnfóðurnotkuninni. Lögð er á það áhersla, að því fjármagni, sem þannig fæst, verði varið til niðurgreiðslu á áburði eða annarra hliðstæðra nota. Í till. er lögð áhersla á að ná fram þeim markmiðum í búvöruframleiðslunni er leiði til jafnvægis án þess að byggð skerðist.

Landbúnaðurinn býr við sterk félagsleg samtök, og á það ekki síst við um búnaðarfélagsskapinn heima í héraði. Mikilvægt er að færa í ríkara mæli skipulagningu framleiðslumála heim í hérað. Þar með væri vandinn færður nær bændunum sjálfum. Áhrifamesta aflið til að ná framangreindum markmiðum er að koma á umbótum í framleiðslumálum landbúnaðarins þegar leiðbeiningaþjónustan, sem fram til þessa hefur verið lítils megnug hvað snertir að móta stefnuna í framleiðslumálum, hefur verið löguð að breyttum aðstæðum. Um leið og ákveðin stefna er mótuð, sem m. a: felst í ákveðnari stjórn á framleiðslunni, umbótum í sölu og vinnslu búvara, stórbættri fóðurframleiðslu og víðtækari heimildum um ráðstöfun þess fjármagns, sem nær einvörðungu hefur verið bundið við að verðbæta búvöru til útflutnings, er leiðbeiningaþjónustunni gert kleift að beita áhrifum sínum til samræmis við þau viðhorf er breytt stefna í málefnum landbúnaðarins felur í sér.

Umræða um niðurgreiðslu búvöruverðs á frumstig hefur jafnan átt sér stað og þá m. a. með það í huga að dragi úr kostnaði við framleiðslu búvaranna. Í till. er lagt til að slíkar heimildir verði fyrir hendi og þá sérstaklega varðandi kaup bænda á tilbúnum áburði. Sérstök áhersla er lögð á að kjarnfóðurgjald, sem innheimt kann að verða, fari beint til niðurgreiðslu á áburðarverði og verði þannig til að færa á milli rekstrarliða í landbúnaði í stað launagreiðslu eins og nú er. Þá er enn fremur bent á það, að dragi úr búvöruframleiðslunni þannig að ekki þurfi að nýta 10% verðtryggingarheimildina verði heimilt að nota hluta hennar til niðurgreiðslu á áburðarverði og fleiri þeirra nota sem draga úr verði á búvörum hér innanlands, en auðveldi um leið sölu þeirra til annarra nota heima fyrir.

Þessar breytingar hefðu mikil áhrif ef þær kæmust til framkvæmda, bæði á nýtingu útflutningsbótafjármagns og einnig varðandi hina raunverulegu stefnu í framleiðslumálum, sem fremur mundu með þessu móti leita inn á umbætur og hagræðingu í landbúnaði en hina óþvinguðu framleiðslustefnu svo sem verið hefur.

Herra forseti. Hér að framan hef ég skýrt afstöðu okkar flm. til þeirra viðfangsefna og vandamála sem landbúnaðurinn stendur sérstaklega frammi fyrir nú. Ástæðan fyrir því er sú, að til þess að unnt sé að tryggja óskerta byggð er nauðsynlegt að skilgreina vandamálin, eins og þau eru, og meta viðbrögðin út frá því. Í máli mínu hef ég einkum lagt áherslu á að skýra viðhorf, sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir nú, og þær leiðir, sem fram koma í till. til að mæta þeim vanda.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að rétt notkun hvers konar lyfja byggist á vitneskju um eðli þeirra meinsemda sem við er að fást hverju sinni. Í till. koma fram margar ábendingar um möguleika á nýjum viðfangsefnum í landbúnaði, hagræðingu í rekstri og viðskiptum.

Einn mesti ágallinn við útflutningsvandamál landbúnaðarins hefur verið að núverandi fyrirkomulag hefur ekki haft hvetjandi áhrif varðandi öflun hagstæðra markaða, þar sem verðtryggingin tryggði að vissu marki fullt útborgunarverð og umboðslaun eru greidd án tillits til söluverðs erlendis. Þegar svo er komið að framleiðendur búvara fá hluta þeirra greiddan á útflutningsverði verður að skapast mikill þrýstingur frá þeirra hendi um að þessum málum sé vel fyrir komið. Eðlilegt er því að ákvarðanir varðandi útflutninginn verði í ríkara mæli bundnar bændasamtökunum en nú er.

Sama máli gegnir um vinnslu landbúnaðarafurða til útflutnings. Þannig hafa íslenskar gærur verið unnar erlendis og seldar á mörkuðum þar. Hér er um nýlenduviðskipti að ræða sem engan veginn eru forsvaranleg. Öflugt átak í sölu og vinnslu landbúnaðarvara getur haft mikil áhrif til að auka gildi landbúnaðarins.

Ákvörðun Búnaðarfélags Íslands um ræktun feldfjár er lofsvert framtak, sem áhugavert verður að fylgjast með.

Þar sem stofnlán til landbúnaðar eru nú að fullu verðtryggð hlýtur að koma til álita hvort ekki sé brostinn grundvöllur fyrir því gjaldi sem greitt hefur verið til Stofnlánadeildar landbúnaðarins af búvörum til lánajöfnunar.

Eitt mikilvægasta verkefnið í landbúnaði er stórbætt heyverkun. Fóðuriðnaður hefur þegar náð fótfestu. Mikil þörf er á að efla þá starfsemi og tengja hana störfum bændanna eða félagssamtökum þeirra.

Nýjar búgreinar hafa mikið verið til umræðu. Varast ber að tengja þá umræðu úrræðum um skjóta lausn á framleiðsluvandamálum landbúnaðarins. Þrír áratugir eru liðnir frá því að umræður hófust um innflutning á holdanautum. Nú hins vegar er fyrst farið að gæta áhrifa þeirrar baráttu.

Nýjum búgreinum þarf að finna ákveðið form í landbúnaðinum, bæði að því er varðar uppbyggingu, rekstur og sölu framleiðslunnar. Hér þurfa m. a. til að koma nýir þættir rannsóknar- og leiðbeiningastarfsemi.

Ræktun landsins og gróðurvernd eru nú sem fyrr veigamestu þættirnir í íslenskum landbúnaði. Landgræðsla ríkisins hefur fyrir löngu sannað fyrir alþjóð hversu mikilvægu hlutverki hún hefur að gegna. Ný landgræðsluáætlun er verðug viðurkenning til þeirra starfa. Þau viðfangsefni, sem hér eru nefnd, eru dæmi um þá möguleika sem felast í störfum bændanna í þessu landi og mörg hver verða að mótast og vinnast af djörfum áformum. Það verður að varðveita það umhverfi í sveitum landsins sem á eftir að verða vettvangur ókominna kynslóða. Þegar tímar líða mun það reynast traustur grundvöllur þeirra áforma að byggja Ísland allt.

Ég vil svo, herra forseti, gera það að tillögu minni að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til atvmn.