08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

32. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í upphafi ræðu 1. flm. þessarar till. er hér um gamlan kunningja að ræða á Alþingi. Við höfum rætt þessa till. ítrekað á undanförnum þingum eða sambærilega till., sem var fyrirrennari þessarar till. til þál. Ég mun því ekki fara á þessum fundi, við fámenni í þingsal, að ræða till. með mörgum orðum. Ég skal og reyna að haga máli mínu þannig að ekki þurfi að vekja upp deilur, enda er það mála sannast að grundvallaratriði þessarar till. eru þess eðlis að þar er ekki ágreining um að ræða af minni hálfu.

Ég vil gjarnan geta þess, vegna þeirra orða sem hv. frsm. hafði er hann rakti það sem vantað hefði á útflutningsbótafé til þess að fullt verð næðist vegna útflutnings á landbúnaðarvörum varðandi síðasta verðlagsár, að gert er ráð fyrir, eins og fram kom, að skorti um 44 millj. nýkr. til að ná endum saman. Þessu hefur verið mætt á þann hátt, að af kjarnfóðurgjaldi hefur verið greitt um 12 millj. kr. og samkvæmt lánsfjáráætlun, sem lögð hefur verið fyrir Alþingi, er gert ráð fyrir að útvegað verði lán til þess sem nemur að upphæð 20 millj. kr. Eftir stendur því nálægt 12 millj. kr. og ekki horfur á öðru en að bændur verði að taka það á sig. Þétta tel ég eðlilegt að komi fram í þessu sambandi.

Það er hárrétt, sem fram kemur hjá hv. frsm. till., að meginorsök þess vanda, sem við hefur verið að etja í framleiðslumálum og verðlagsmálum landbúnaðarins er verðbólguþróun hér innanlands sem hefur á síðustu árum og raunar áratugum verið miklu hraðfleygari en í öllum okkar helstu viðskiptalöndum. Þetta er ekki sérmál fyrir landbúnaðinn, að verðbólgan hér innanlands hafi valdið erfiðleikum því að hún hefur auðvitað valdið ómældum erfiðleikum í þjóðfélaginu öllu og er atvinnuvegum landsins háskaleg. Þess vegna er það auðvitað meginkeppikefli í íslenskum stjórnmálum að fást við þennan verðbólguvanda og reyna að haga svo málum að úr verðbólguþróuninni dragi.

Ég tel að þær aðgerðir, sem beitt hefur verið til að hafa hemil á framleiðslunni á síðustu árum, hafi verið nauðsynlegar. Ég tel að það hafi verið nauðsynlegt í góðæri, eins og var á vordögum 1980, að grípa til þess að setja á kjarnfóðurgjald til þess að við lentum ekki í enn þá meiri vanda við að koma framleiðslunni í eitthvert verð, framleiðslu sem sprottið hefði af mikilli kjarnfóðurgjöf í því ákjósanlega árferði sem þá gekk yfir land okkar. Ég er sannfærður um að það hefðu orðið meiri erfiðleikar fyrir landbúnaðinn við að fá ekkert verð fyrir þá framleiðslu sem kjarnfóður hefði verið notað til að framleiða. Það er alveg rétt, sem fram kemur hjá flm., að kjarnfóðurverð hefur mikil áhrif á kjarnfóðurnotkun og þar með framleiðslu, einkum í mjólkurframleiðslunni. Þess vegna var þetta nauðsynlegt úrræði og það hefur sýnt sig að það verkaði og hefur náð tilætluðum árangri.

Ég tel að þrátt fyrir að nú sé ekki við offramleiðslu að etja í landbúnaðinum hvað snertir mjólkurafurðir sé vafasamt að hverfa frá kjarnfóðurgjaldi, a. m. k. í blóra við samtök bænda. Bændasamtökin hafa ekki lagt fram tillögur um að fella þetta gjald niður eða hverfa frá þeim ráðstöfunum sem beitt hefur verið á allra síðustu árum. Ég vil aðeins geta þess í sambandi við kvótakerfið, að eftir því sem dregið hefur úr framleiðslu verður minni þörf fyrir kvótakerfið. Það verkar þannig, að það þarf minna að skerða verð til bænda til samræmis við það kerfi eins og það liggur fyrir. Þetta atriði er auðvitað þess eðlis, að bændur þurfa að átta sig á því nægilega vel, því að sumir hverjir standa í þeirri meiningu að skerðingarákvæðum kvótakerfisins verði beitt að fullu hvað sem framleiðslu líður. Það er auðvitað hinn mesti misskilningur.

Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að haga þessum málum öllum í sem nánustu samráði við félagskerfi landbúnaðarins, og það hefur verið reynt að gera þann tíma sem ég hef farið með þessi mál í núv. ríkisstj.

Um notkun á því fé, sem innheimtist vegna kjarnfóðurgjalds, er ég á þeirri skoðun, að nauðsynlegt sé að nota það öðru fremur til að jafna þann halla sem verður á útflutningi búvara, vegna þess að það er landbúnaðinum afar nauðsynlegt að geta fengið sem næst fullt verð fyrir framleiðslu sína. Ef það mark næðist eftir öðrum leiðum tel ég mjög koma til greina að verja kjarnfóðurgjaldi til niðurgreiðslu á einstökum rekstrarliðum, t. a. m. áburði, en þó e. t. v. umfram allt fjármagnskostnaði því að varla er á öðrum sviðum meiri mismunur á kjörum bænda en á því sviði sem stafar af mismunandi fjármagnskostnaði. Þeir, sem hafa staðið í fjárfestingu eða vélakaupum á síðustu árum, eftir að fjármagn varð svo dýrt í þjóðfélaginu sem raun ber vitni, bera feikilega þungar byrðar vegna fjármagnskostnaðar, en aftur eldri bændur margir hverjir, sem höfðu áður komið sér fyrir og ekki hafa lagt í verulegar framkvæmdir á allra síðustu árum, eru þannig settir, að þeir bera mjög óverulegar byrðar vegna fjármagnskostnaðar. Í þessu er fólginn mjög mikill mismunur og væri mjög þarft verkefni að finna leiðir til að jafna nokkuð úr þessum mismun. En meðan enn skortir á að við náum fullu verði fyrir útfluttar landbúnaðarvörur er a. m. k. hæpið að draga fé úr kjarnfóðurgjaldinu til annars en til að tryggja bændum fullt verð eftir því sem við verður komið.

Tæplega er hægt að búast við að framhald verði á því til langframa, að Alþingi verji fjármagni til að bæta upp útflutning á búvörum umfram það sem ákvæði í framleiðsluráðslögum gera ráð fyrir. Ég skal ekkert um það fullyrða, en það hefur þurft á miklum velvilja að halda af hálfu Alþingis og ríkisstj. til að ná þeim fjármunum til bænda sem náðst hafa á allra síðustu árum, og það er mjög vafasamt að þeir fjármunir næðust ef við völd væri ríkisstj. sem væri landbúnaðinum óvilhallari en sú ríkisstj. sem nú situr.

Ég vil aðeins segja það í sambandi við þau orð hv. flm., að útflutningur á gærum væri í slæmu horfi, að þær gærur væru eins konar nýlenduvara erlendis, að auðvitað er mikið keppikefli fyrir okkur Íslendinga að vinna sem allra best iðnaðarvörur úr innlendum hráefnum og mikið keppikefli fyrir okkur að byggja upp íslenskan iðnað þannig að hann vinni sem ítarlegast framleiðsluvörur, iðnaðarvarning, úr þeim hráefnum sem framleiðslugreinar okkar leggja til. Því miður er það svo með skinnaiðnaðinn, að erfiðleikar hans hafa verið því meiri sem vinnslan gengur lengra og þau fyrirtæki í skinnaiðnaði standa langsamlega best sem hafa flutt út sínar vörur hálfunnar. Við getum ekki horft fram hjá þessari staðreynd, en það væri sannarlega æskilegt og ákjósanlegt ef fullvinnslukostnaður í þessari grein sem og öðrum væri ekki meiri en svo í okkar þjóðfélagi að við gætum verið þeim mun betur samkeppnisfærir á erlendum markaði því meira sem varan er unnin. Þarna kemur enn að því vandamáli, sem hrjáir okkar þjóðfélag og hefur gert undanfarin ár og áratugi, en það er verðbólgan sem hefur áhrif á þennan þátt mála.

Á síðustu árum hefur, jafnhliða þeim framleiðslutakmörkunum sem settar hafa verið á, verið unnið að uppbyggingu nýrra búgreina. Það má sjálfsagt um það deila, hvernig á þeim málum hefur verið tekið, en víst er að við það eru vonir bundnar og verulegum fjármunum hefur verið varið til að styðja að uppbyggingu nýrra búgreina, bæði í fiskrækt, í loðdýrarækt, í nýtingu hlunninda, jafnvel nokkuð í garðrækt, og í athugun eru meiri háttar viðfangsefni í ylrækt. Enn fremur hefur verið verulega unnið að hagræðingarverkefnum, svo sem til að stuðla að bættri fóðurverkun. Ég tel að áfram þurfi að halda á þessari braut. Ræktun svo og fóðuröflun eru grundvallarforsendur fyrir íslenskum landbúnaði. Þess vegna þarf að gefa þeim þáttum landbúnaðarins góðar gætur og skal ekki fullyrt annað en að það er reynt að styðja að þessum viðfangsefnum þó auðvitað megi enn um bæta.

Hv. flm. minntist á nýja landgræðsluáætlun. Væntanlega verður ný landgræðsluáætlun lögð fyrir Alþingi nú allra næstu daga. Tel ég það mjög mikils virði og mun fjalla um hana þegar þar að kemur.

Stefnan, sem fylgt hefur verið nú allra síðustu árin í íslenskum landbúnaði, hefur miðast við það í höfuðdráttum að miða framleiðsluna við að Íslendingar væru sjálfum sér nógir um mjólk og mjólkurafurðir og við þyrftum ekki að flytja út mjólkurafurðir, vegna þess að erlendu markaðirnir fyrir þessa vöru hafa í rauninni brugðist vegna þeirra orsaka sem að framan er getið. Jafnframt hefur verið stefnt að því að reyna að halda einni aðalbúgrein landsmanna, sauðfjárframleiðslunni, í svipuðu horfi og verið hefur, vegna þess að ef samdráttur yrði í báðum þessum greinum væri erfitt að halda uppi kjörum fólksins í sveitum landsins og þá væri byggðin í hættu. Jafnhliða þessu hefur verið unnið að eflingu nýrra búgreina og unnið að hagræðingarverkum í landbúnaðinum. Þetta er nauðsynlegt að gera til að varðveita og styrkja landbúnaðinn sem einn meginstofn íslenskra atvinnuvega og íslensks þjóðlífs. Ef byggðin dregst að einhverju marki saman í sveitum landsins og landbúnaðarframleiðslan hrynur væri mikil vá fyrir höndum í þjóðfélagi okkar.

Miklar sveiflur í árferði, sem gengið hafa yfir nú síðustu árin, valda miklum erfiðleikum í öllum áætlunum um framleiðslu og markaðsmál. Þessar miklu sveiflur gera allar þessar áætlanir og þessar aðgerðir erfiðar. En við þurfum samt að miða framleiðslu okkar við þær markaðsforsendur sem við teljum mögulegt að fara eftir. Að því marki verður að keppa hvað sem öllum áferðissveiflum líður.

Ég vil svo aðeins segja það, að á vegum landbrn. hefur verið unnið að gerð till. um stefnu í íslenskum landbúnaði. Nefnd, sem skipuð var af ráðuneytinu, skilaði áliti á þessu ári, og hefur þótt nauðsynlegt með tilliti til breytinga, sem raunar hafa síðar orðið, að bæta við meiri upplýsingum en þar liggja fyrir. Er nú unnið að því, og vænti ég þess, að till. um þetta efni verði lögð fram á því þingi sem nú stendur yfir.

Ég skal ekki fjalla um þetta mál í lengra máli. Ég vænti þess, að orð mín hafi ekki orðið til að kveikja neinn neista til deilna um þessi mál að þessu sinni. Ég þykist þess fullviss, að 1. flm. till. ber hag landbúnaðarins mjög fyrir brjósti og um það séum við sammála. Ég fann það ekki heldur á máli hans áðan að okkur greindi svo mjög á um þær leiðir sem fara þarf til að styðja íslenskan landbúnað.