08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

45. mál, skattafrádráttur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 3. þm. Austurl., að því miður er ekki hægt að jafna allt gegnum skattalög. Lög um tekju- og eignarskatt eru alls ekki einhlít til að jafna kjör manna í þjóðfélaginu. Ég veit að hann er jafnkunnugur því og ég, enda hefur það oft borið á góma hér á Alþingi, m. a. s. löngu áður en við settumst á þing, að það fer alls ekki saman skattskráin t. d. og skrá yfir þá menn sem veita sér mest í utanferðum eða hafa haft tök á því að búa best um sig í þjóðfélaginu. Það kemur nefnilega í ljós, að þeir menn, sem greiða hæsta skatta, þurfa ekki endilega að hafa mestar ráðstöfunartekjur. Það er einfaldlega vegna þess að ýmsir, þar á meðal þeir menn sem best eru settir í þjóðfélaginu, þeir sem mest völd hafa, hafa haft tök á því að búa betur í haginn fyrir sig en aðrir menn.

Ég get tekið afskaplega einföld dæmi um þetta. Varla er það nein tilviljun að maður, sem hefur verið allt þrennt á lífsleiðinni: ráðherra, háttsettur embættismaður og alþm., býr við betri eftirlaun en aðrir þegnar í þjóðfélaginu. Hvernig skyldi standa á þessu? Svarið er auðvitað það, að hann hefur sjálfur búið til þessi lög, sjálfur skammtað sé þennan aukna rétt fram yfir aðra þegna í þjóðfélaginu.

Vitaskuld beita valdastéttirnar áhrifum sínum til til að veita sér margvísleg fríðindi fram yfir aðra. Það á ekki síst við um ýmsa menn í ríkiskerfinu. Við skulum ekki heldur loka augunum fyrir því, að sumar stéttir manna hafa löghelgaðan rétt á skattfríðindum sem aðrir menn fá ekki notið. Gott dæmi um þetta er t. d. staða landmanns við dagróðrabát í Eyjafirði og staða landmanns við dagróðrabát á Suðurnesjum eða Vestmannaeyjum. Á síðasta Alþingi vorum við nafnarnir sammála um að hæstv. fjmrh. hefði brotið lög þegar hann gaf út reglugerð þess efnis að sjómenn nyrðra skyldu ekki halda þeim rétti sem þeir áður höfðu haft varðandi fiskimannafrádrátt og sjómannafrádrátt. Engu tauti varð við hæstv. fjmrh. komið. Þetta mál gekk svo langt, að þm. kjördæmisins voru handjárnaðir til þess að sjómenn við Eyjafjörð fengju ekki leiðréttingu sinna mála. Sjálfur gaf hæstv. fjmrh. þá skýringu, þegar hann var aðþrengdur mjög, að ekki væri hægt að veita sjómönnum við Eyjafjörð þessi réttindi af því að þeir hefðu ekki samið um þau í kjarasamningum Sjómannafélags Akureyrar og útvegsmanna fyrir norðan, en á hinn bóginn væri samið um það í kjarasamningum hér syðra að beitingarmenn á dagróðrabátum, ef þeir byggju við hlutaskipti, skyldu fá sérstakan sjómanna- og fiskimannafrádrátt.

Ég get nefnt annað dæmi. Í 30. gr. laganna er sérstaklega talað um að menn í vissum stéttum skuli njóta sérstaks frádráttar, alveg án tillits til þess í framkvæmdinni, hvort þeir hafi stofnað til þeirra útgjalda sem þar er fjallað um. Ef menn eru ekki í þessum löggiltu félögum hafa þeir engin tök á því að njóta sams konar frádráttar, jafnvel þó hægt sé að sýna fram á að þeir þurfi við störf sín ekki síður að stofna til sambærilegra útgjalda, ég tala ekki um ef í hlut á réttur og sléttur verkamaður, þá hefur hann engin tök á því að ná þessum rétti, sem ýmsar löggiltar iðngreinar hafa náð.

Það er því síður en svo, að það hafi tekist að jafna allt gegnum skattalögin. Ég er hv. 3. þm. Austurl. algerlega sammála um það. Ég efast ekki um að hann muni vilja standa að því með okkur hv. 1. landsk. þm., að ekki skuli ráða því tilviljanakenndir samningar hvort borgarar landsins njóti skattfrádráttar, heldur skuli hið sama gilda fyrir alla borgara landsins í þeim efnum. Skattalög eiga að vera almenn. Menn eiga ekki að geta komið því svo fyrir, að þeir njóti skattfríðinda sem nágranninn, náunginn, getur ekki notið ef hann býr við sams konar kjör.

Við tölum hér um að nota skattfrádrátt til frekari jöfnunar á skattbyrði þjóðfélagsþegnanna. Við vitum að hér á Alþingi er oft mikið rætt um með hvaða hætti mætti takast að jafna byrði þjóðfélagsþegnanna. Ástæðan er náttúrlega sú, að menn eiga við mjög ólík skilyrði að búa víðs vegar um landið. Það var t. d. gert að umtalsefni hér í dag hvort rétt væri að taka verkalýðssamtökin á Vestfjörðum svo alvarlega að krafa frá þeim gæfi tilefni'til þess að sérstakt átak yrði gert til að jafna húshitunarkostnað. Þrýstingurinn kemur frá landsfjórðungi sem er fjarlægur Reykjavík, fámennum landsfjórðungi, og þrýstingurinn, sem hægt er að hafa á æðstu stjórn landsins, er þeim mun minni, eins og við vitum, sem færri þrýsta á og þeir eru lengra í burtu. Hins vegar eru ekki mörg misseri síðan menn settust hér á Arnarhólstúnið, jafnvel inni í ráðuneyti, og fóru fram á að fá sérstakan skattfrádrátt í sambandi við húsaleigu. Sá skattfrádráttur var góðfúslega veittur. Hefði ég þó gaman af að sjá tölur um hvort meiri ástæða hafi verið til að veita þann frádrátt en t. d. að taka húsaleigukostnaðinn inn í tekjuskattslögin og athuga með þeim hætti hvort ekki væri hægt að jafna byrðum þegnanna meir en gert. er. Þarna er um sama „prinsipmálið“ að ræða, kostnaðinn við að búa sjálfum sér og fjölskyldu sinni sómasamlega þak yfir höfuðið. Ég vil enn fremur benda á að nokkur vaxtafrádráttur er, þó hann sé hvergi nærri nógur, fyrir þá menn sem sjálfir búa í sínum íbúðum.

Í þessu sambandi vil ég enn fremur minna á hversu mikill viðhaldskostnaður ríkisins hefur verið á ýmsum íbúðum sem reknar eru fyrir opinbert fé. Við þurfum ekki lengi að fletta þeim fjárveitingarbeiðnum, sem liggja fyrir fjvn., til að sannfærast um að fátt er jafndýrt fyrir opinbera aðila og eftirlitslausir embættismannabústaðir. Það er afskaplega mikil tregða hjá kerfinu til þess að halda húsum sæmilega við og engin skipan eða skikkan er komin á þau mál. Hins vegar vitum við að einhver verðmætasta vinnan sem til er í þjóðfélaginu er viðhald á eignum. Við þurfum ekki annað en að ganga um göturnar þegar komið er fram í maí og júní. Þá sjáum við menn hvarvetna dytta að húsum sínum, halda þeim við og reyna að hafa þetta í sem bestu lagi. Nú hefur niðurstaðan orðið sú, að þetta viðhald skuli ekki vera frádráttarbært við tekjuskatt, á sama tíma og veitt er stórkostlega af opinberu fé til þess að koma á fót leiguíbúðum. Ekki þarf að fara mörgum orðum um ósamræmið í þessu, einkanlega á þeim tíma þegar vaxtafrádrátturinn er afnuminn, eins og gert hefur verið, og er íhugunarefni hvort ekki sé einmitt leiðréttingar þörf þarna vegna aðstöðumunar þegnanna í þjóðfélaginu. En eins og ég sagði: Þrýstingurinn í sambandi við leiguhúsnæði var meiri á ráðamenn en þrýstingurinn frá sjómönnunum fyrir vestan í sambandi við húshitunina. Þess vegna hefur húsaleigan orðið að frádráttarlið. Þess vegna er mismunandi hár húshitunarkostnaður ekki frádráttarliður.

Ég vil minna á eitt mál enn. Á sínum tíma var samþykkt hér á Alþingi ályktun um hvaða leiðir skyldi fara til að jafna flutningskostnað. Lítið hefur orðið úr efndunum. Ég sé þó að tveir hv. þm. Framsfl. hafa lagt fram fsp. á Alþingi um hvort ekki sé rétt að setja þá reglu að flutningskostnaður skuli ekki vera söluskattsstofn. Vel kemur til álita hvort réttara væri að veita mönnum sérstakan skattfrádrátt eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu miðað við flutningskostnað, enda man ég ekki betur — ég hygg að hæstv. forseti sé því kunnugri en ég — en menn, sem eru staðsettir langt frá höfnum, hafi árlega fengið nokkurt fé af fjárlögum til að jafna þann mun borið saman við aðra sem búa við betri hafnaraðstöðu. Það er ekki allur munur á hvort reynt er að jafna milli þegnanna með beinum fjárútlátum úr ríkissjóði eða tilhliðrun í skattalögum.

Við tökum hér tvö dæmi sérstaklega til, sem við teljum nauðsynlegt að athuga sérstaklega í sambandi við skattafrádráttinn. Í fyrsta lagi nefnum við að athuga skuli hvort aukning frádráttar hjá þeim, sem vinna langan vinnutíma fyrir sömu laun og þeir fá sem vinna miklu skemur, geti dregið úr samanburðarstríði milli stétta og um leið úr verðbólguhvata. Varla dylst nokkrum manni að þessi þekking okkar víkur beint að þeim láglaunastéttum sem erfiðast eiga með að koma undir sig fótunum, skapa sér efnahagslegan, fjárhagslegan grundvöll. Við vitum ofurvel að hinn ómenntaði almúgamaður hefur ekki nein önnur tök á því að verða fjárhagslega sjálfstæður en leggja á sig mikla vinnu. Nú vitum við að hæstv. ríkisstj. hefur markað þá stefnu að auka tekjur ríkissjóðs af beinum sköttum. Skattþrepin eru allt of kröpp. Hæstu skattar koma allt of snemma. Ég hygg að þeir, sem eru hér í þessari hv. deild, kunni allir að nefna dæmi um hversu illa þessi miskunnarlausa skattheimta á þá, sem lengsta hafa vinnudagana, hafi leikið þá í baráttu þeirra við að koma þaki yfir höfuð sér.

Ég get ekki skilið hvers vegna það skuli ekki tekið til sérstakrar athugunar, hvort við höfum gengið of langt í skattheimtunni á þá þegna sem mest leggja á sig. Þeir eiga líka nokkurn rétt. Við erum allir sammála um það hér inni, að nauðsynlegt sé að veita sérstök skattfríðindi þeim mönnum sem hafa tök á því að fara úr landi til mennta, fá sérstök námslán til að koma þessu fram, fá jafnvel sérstaka námsstyrki. Að námi loknu sitja þeir síðan fyrir hæstu stöðum oft og tíðum og það er leikið við þá eins og hægt er til að skapa þeim aðstöðu í lífinu. Hvers vegna skyldum við þá ekki líka athuga hvort þeir menn, sem að framleiðslugreinunum vinna, þurfi á sérstökum skattfríðindum að halda — mennirnir sem skapa verðmætin, frumeininguna, sem allt annað er byggt á?

Við tölum hér sérstaklega um hvort ekki sé nauðsynlegt að athuga hvort sérstakur frádráttur hjá þeim, sem búa öldruðu fólki heimili, geti dregið úr vistrými ýmissa stofnana sem mikill skortur er á, enda mjög dýrar í byggingu og í rekstri. Fyrr á þessu ári vorum við allir sammála um það, — ekki allir, ég var nú ekki í hópi þeirra sem héldu að það mundi bera árangur,— en meiri hluti deildarinnar og meiri hluti Alþingis var sammála um að leggja á sérstakan nefskatt til að flýta fyrir því að dvalarheimili aldraðra geti risið. Því miður hefur ríkisstj. ekki sýnt þessu máli neinn áhuga. Mér er sagt að það fé, sem inn hafi komið af þessum nefskatti, liggi allt ónotað í ríkissjóði og eigi m. a. að verða til þess að brúa bilið um áramótin til þess að hægt sé að guma af því að staðan sé ögn betri en hjá Seðlabankanum. Meiri hluti Alþingis kom sér m. ö. o. saman um að rétt væri að auka skattheimtuna til að búa í haginn fyrir þá sem aldraðir eru. Hví skyldum við þá ekki líka vera sammála um að ástæða sé til að glöggva sig betur á því, hvernig hægt sé að stuðla að því að létta þeim byrðar sem taka það á sig að hafa aldrað fólk og sjúkt heima hjá sér? Höfum við komist að hinum endanlega sannleika í þeim efnum? Er ekki ástæða til að fara ofan í það mál sérstaklega. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að menn geri sér grein fyrir að hér er mikið í húfi. Það er ekki aðeins mannúðarmál gagnvart því fólki, sem verst er statt í þessum efnum, heldur en þetta réttlætismál til að minnka misræmið hjá þegnunum og síðast en ekki síst vegna þess að ég veit að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar horfa mjög til skattpeningsins. Þá er hér um það að ræða að koma á sparnaði, draga úr eftirspurn eftir dýru húsnæði.

Ég ítreka enn að auðvitað er ekki hægt að ná fram fullum rétti í gegnum skattalög, en ég legg áherslu á það, að eftir því sem skattheimtan er meiri í beinum sköttum og ósveigjanlegri er meiri ástæða fyrir okkur alþingismenn að vera vakandi og hyggja ávallt að þeim þáttum sem viðkvæmastir eru í þjóðfélaginu. Að því beinist þessi tillaga.