08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

45. mál, skattafrádráttur

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Hér virðist, á þessum síðustu og verstu tímum, að menn séu búnir að gleyma því, hvað er til umræðu. Allt og sumt, sem er til umr., er till. til þál. um að Alþingi ályktar að kjósa sjö manna nefnd, síðan eru tekin tvö aðalatriði sem flm. vilja m. a. að nefndin athugi, þá kemur hvaðan hún eigi að taka greiðslur og svo búið. Mér virðist sem hv. þm. séu komnir í nefndina og farnir að deila um hin ýmsu atriði sem til greina kemur að nefndin fjalli um sem slík. Það er verið að leggja fyrir okkur hvort við eigum að kjósa nefnd eða ekki. Mér finnst það í sjálfu sér ágætt, ef mönnum þykir það farsæl lausn á mjög mörgum vandamálum sem eru að þvælast fyrir okkur í skattkerfinu enn þá þó þar sé maður eftir mann búinn að leggja höfuðið í bleyti og tala um skatt. Menn eru hér alla daga að tala um jöfnun í þessu þjóðfélagi og að allir séu þeir jafnaðarmenn. Allir sverja af sér að vera kommúnistar eða íhaldskurfar. — En það vakti athygli mína þegar ég hlustaði á þessar umr., að menn eru alls ekki að tala um það sem till. fjallar um. Menn eru komnir í hasar sem nefndarmenn, en ekki að fjalla um till. um að kjósa nokkra menn í nefnd til að kanna ákveðið mál. Ég vil benda á þetta, en ekki taka þátt í að kalla menn tollheimtumenn, farísea eða annað slíkt.