08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

40. mál, sjúkraflutningar

Helgi Seljan:

Herra forseti. Tillagan snertir tvö brýn svið sem bæði eru þó samtengd. Það er full ástæða til að taka út af fyrir sig undir með flutningsmönnum varðandi bæði þessi atriði, en um leið að minna á hvernig þau eru á vegi stödd nú.

Varðandi fyrra atriðið geri ég mér fastlega vonir um að okkur takist að koma því atriði í löggjöf á þessu þingi. Endurskoðunarnefnd sú, sem vinnur nú að endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu, er komin vel á veg með endurskoðun þeirra laga. Til viðbótar við ákveðnar tillögur frá rn. og starfsmanni þess í nefndinni, sem er formaður nefndarinnar, Ingimar Sigurðssyni, um nánari ákvæði um greiðslur og skipulag sjúkraflutninga mun nefndin einróma taka upp ákvæði, m. a. fyrir sérstaka áherslu 2. flm. þessarar þáltill., hv. þm. Jóhanns Einvarðssonar, í þeirri grein heilbrigðislaganna sem fjallar um bein hlutverk heilbrigðisþjónustunnar, þ. e. að inn í ákvæði um það, hvað skuli teljast heilbrigðisþjónusta, komi orðið „sjúkraflutningar“, sem yrðu teknir þar beint inn. Þeir verði sem sagt ómissandi hlekkur í allri okkar heilbrigðislöggjöf.

Varðandi nánari útfærslu á skipulagi þessarar þjónustu og reglum varðandi hana á nefndin að vísu eftir að fjalla kannske enn nánar um það, en þó er kominn góður vísir að því skipulagi sem ég held að eigi að duga og ætlast er til með tillöguflutningi þeim sem hér hefur verið rakinn. Ég trúi ekki öðru og vænti þess fastlega að ráðh. og ríkisstj. muni fallast á þær tillögur nefndarinnar, sem ég hygg að fari einróma frá henni um frv. til l. um breyt. á heilbrigðislöggjöfinni og beinlínis lúta að þessu atriði um sjúkraflutningana, þær komi hér inn fyrir vorið og hljóti lagagildi.

Með skýrari ákvæðum um greiðslu sjúkratrygginganna á sjúkraflutningum, svo sem við leggjum til, er að sjálfsögðu stigið stórt spor, en það er líka rétt að hitt aðalatriðið snertir annan lagabálk, sem er almannatryggingalöggjöfin. Það vill verða svo í sambandi við þann stóra bálk, að menn taki sér góðan tíma í endurskoðun á honum. Við höfum kannske beðið of lengi eftir því.

Hv. 1. flm. þessa máls kom inn á atriði um ferðakostnað þeirra sjúklinga sem ítrekað þurfa á fund sérfræðinga. Að því tilefni gefnu vil ég rifja það upp hér, að þetta mál var nokkuð lengi á leiðinni í gegnum þingið og gekk býsna erfiðlega. Ég man eftir því, að ég flutti þetta mál t. d. í frumvarpsformi tvívegis í Ed. án sérstakra undirtekta þar, ef frá er talinn góður stuðningur þeirra hv. þáv. þm. Odds Ólafssonar, og Eggerts G. Þorsteinssonar, sem töldu að þetta frv. ætti að fá stuðning. En því var þá borið við, m. a. í nefndarstarfi að því frv., að þarna væri um mikla misnotkunarhættu að ræða og það væri varla vogandi að setja þau ákvæði í lög, en það voru nokkurn veginn þau ákvæði sem einmitt er vikið að beint í þessari till. nú.

Það var svo loksins úr þessu bætt, eins og menn þekkja, að hluta. En þá var þetta ákvæði þrengt mjög frá því frv. sem ég hafði áður flutt. Mér þótti það að mörgu leyti eðlilegt því að ég viðurkenndi að það gat verið viss hætta í þessu sem ekki væri rétt að horfa fram hjá. En í staðinn fyrir að hafa þarna ákveðin ákvæði um það í lögunum, meginákvæði um hvernig með skyldi farið, þá var eins og svo oft áður ákveðið að sett skyldi reglugerð, þarna skyldu settar ákveðnar reglur sem Tryggingastofnunin ákvæði. Það er rétt hjá hv. 1. flm. að þessar reglur eru of þröngar. Ég benti á það strax við setningu laganna að ég væri hræddur um að jafnóskýr og lögin væru, jafnlítt afmörkuð og þau væru að mínu viti, með þetta miklu valdi tryggingaráðs til þrengingar eða til ákveðinna vottorðagjafa og annars slíks, væri um of þrengt að þessu. Ég þekki dæmi um það, eins og hv. 1. flm. rakti, að menn hafa snúið til baka varðandi þetta. Ég þekki líka dæmi af hinu góða í sambandi við þetta, að menn hafa náð fram sínum rétti. Þetta fer nokkuð eftir tryggingaumboðinu t. d. á hinum ýmsu stöðum eða hversu menn sækja þennan rétt sinn fast eða þá hvort menn lenda á réttum manni í kerfinu, — kannske alveg eins, — sem vill verulega greiða úr fyrir fólki. En þegar menn hafa komist inn í þetta kerfi hef ég, með þeim dæmum sem ég þekki til, ekki orðið var við að málið gengi ekki nokkurn veginn snurðulaust fyrir sig.

En um þetta mál í heild fjallar heilbr.- og trn. Ed. nú einmitt því að hún athugar nú frv. frá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni o. fl., sem lýtur nákvæmlega að síðari lið þessarar till. Frv. þetta fékk mjög góðar undirtektir í Ed., þ. e. meginhugsun þess frv. Menn tóku undir það. M. a. lýsti formaður viðkomandi n., heilbr.- og trn. Ed., Davíð Aðalsteinsson, yfir stuðningi við þá meginhugsun, sem þarna væri fram sett, og nauðsyn þess að þarna yrði úr bætt og þetta mál yrði að fá jákvæða afgreiðslu án þess að menn segðu beint að frv. óbreytt næði fram að ganga. Þetta gerði ég einnig þar.

Eins og oft vill verða bíðum við stjórnarliðar gjarnan eftir því á hverjum tíma, að þær nefndir, sem ráðuneytin eru að setja á stofn varðandi endurskoðun, ljúki sínu starfi, komi því í framkvæmd, og við bíðum oft allt of lengi eftir því, að þessar nefndir skili áliti sínu. Ég veit að hér er um viðkvæman lagabálk að ræða. Ég dreg ekkert úr því, að þarna er um lög að ræða sem taka ekkert smáræði af sameiginlegum fjármunum okkar, samfélagslegum fjármunum. Vissulega er það rétt. Það verður því að hafa alla gát á þegar þau lög eru endurskoðuð. En ég held hins vegar að sú nefnd, sem vinnur mjög samviskusamlega að þessu verki, held ég, á sinn hátt, hafi í raun og veru ekki valið réttu leiðina, því að í stað þess að taka nokkur þau atriði út úr, sem knýja mest á til jafnréttis allra sem njóta eiga og eru kannske ekkert sérstaklega fjárfrek, þá hefur nefndin farið út í að endurskoða allan lagabálkinn og ákveða að taka allt fyrir og skila engu áliti fyrr en allt málið lægi fyrir og þeir gætu skilað nokkurn veginn nýjum tillögum að almannatryggingalögum. Ég er ekki alveg sáttur við þetta. Þetta kom m. a. fram á nefndarfundi í heilbr.- og trn., þar sem formaður þessarar endurskoðunarnefndar, Jón Ingimarsson, mætti og greindi okkur frá því, að það væri stefna nefndarinnar að taka þetta allt saman í heild í stað þess að taka þau atriði út úr sem væru brýnust. Ég held að þess sé að vænta, að engu að síður muni menn ekki bíða hér. Við báðum formann nefndarinnar um það á þessum fundi í heilbr.- og trn. að gera tilraun til þess í nefndinni að skila okkur áliti um þennan afmarkaða þátt sem frv. þeirra Alþfl.-manna í Ed. lýtur að. Ég vonast til þess, að þær tillögur komi og þess sé að vænta að þessi liður verði tekinn út úr.

Ég hef séð drög, ekki frá þessari nefnd, en ég hef séð drög sem ég fer ekki nánar út í hér, en eru úrbótatillögur varðandi þennan lið sérstaklega og eru komin frá þeirri stofnun sem um þetta sér, þ. e. Tryggingastofnuninni. Ég tel það mjög mikilvægan áfanga þar sem hlutur sjúklings yrði lækkaður um helming, þ. e. úr 1/4, sem hann er í dag, niður 1/8. Þetta væri vissulega mikill áfangi ef það næðist fram. Þarna er komið að vali á því, að sjúklingur greiði 1/8, hafi þá einhverja ábyrgð, eins og menn tala um í þessu sambandi, þó ég sé kannske ekki alveg sáttur við það, eða þá að sjúklingurinn sé leystur að fullu undan greiðsluskyldu, eins og frv. í Ed. ber með sér. Sannleikurinn er auðvitað sá, að enn er þessi hluti, 1/8, ef þetta næði nú fram, alltilfinnanlegur fyrir þá sem lengstar vegalengdir og dýrastar ferðirnar fara. Ef horfið yrði t. d. að þessu ráði, mönnum sýndist það einna tiltækast í þessu, kæmi líka til greina, að mér fyndist, að miða við eitthvert ákveðið hámark þannig að sjúklingar greiddu aldrei nema mjög óverulega fjárhæð þó um langan veg þyrfti að fara með dýrasta ferðamáta.

Ég vil skoða þessi drög, sem ég minnti á áðan, samhliða frv. þeirra Alþfl.-manna í Ed. Ég vænti lykta á þessu þingi í því máli, alla vega til mikilla hagsbóta fyrir þá sem hér verða harðast úti, og að því ber okkur að stefna eindregið. Þessi till. fjallar um þessa tvo þætti og ég vænti þess, að þeir geti báðir á vissan hátt öðlast lagagildi þegar á þessu þingi og við getum allir orðið þar sammála um.