08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

40. mál, sjúkraflutningar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram fjallar þessi þáltill. á þskj. 40 um tvennt skylt og þó óskylt, þar sem um sitt hvora löggjöfina er að ræða.

Hv. síðasti ræðumaður greindi frá því, að væntanlega yrði lagt fram frv. til l. varðandi hinn fyrri þátt þessarar till. á þessu þingi, og ber vissulega að fagna því, enda held ég að ekki sé um það neinn ágreiningur, að brýnt er að í lögum séu skýr og greinargóð og ótvíræð ákvæði um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga.

Ég get raunar verið töluvert stuttorðari en ég hafði hugsað mér hér í fyrstu, þar sem hv. 2. þm. Austurl. ræddi að nokkru það sem ég hafði hugsað mér að vekja hér máls á, en það er sú staðreynd, að síðari liður þessarar þáltill. lýtur að því að endurskoða ákvæði almannatryggingalaga um greiðslu kostnaðar við sjúkraflutninga og ferðakostnað sjúklinga, þessi ákvæði verði einfölduð og gerð aðgengilegri, aðstöðumunur sjúklinga í sambandi við kostnað við sjúkraflutninga verði jafnaður. Töluvert áður en þessi þáltill. þeirra hv. flm. kom hér fram var búið að flytja hér á Alþingi frv. um þetta mál á þskj. 28 og gerðu það þrír þm. Alþfl. í Ed. Það frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar hefur þann tilgang að jafna kostnað af sjúkraflutningum og læknisvitjunum þannig að íbúum vissra landshluta sé ekki íþyngt sérstaklega eins og nú er.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. með því að rekja mörg hláleg dæmi sem hér eru rakin í grg., en það er alveg ljóst að gildandi reglur fela í sér margs konar misræmi og óréttlæti, og það er skoðun flm., að enginn eigi að þurfa að kvíða því vegna efnahags að hann fái ekki notið bestu sjúkrahúsþjónustu sem völ er á. Það eiga allir að hafa sama rétt til læknisþjónustu og hjúkrunar án tillits til efnahags eða búsetu. Þessi markmið verða raunar, svo sjálfsögð sem þau eru, að teljast fjarri því að vera uppfyllt hér á landi, því miður. Því var það frv. flutt, sem ég hef hér gert nokkuð að umtalsefni. Ég fagna þeim orðum hv. 2. þm. Austurl., sem hann mælti áðan úr þessum ræðustól, er hann lýsti því, hverjar undirtektir þetta frv. hefði fengið í nefnd í Ed:, og treysti því, að það nái fram að ganga og framgangur þessa réttlætismáls verði þannig tryggður á þessu þingi.