08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

112. mál, verðlagning á orku

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 115 flutt till. til þál. um verðlagningu á orku og er hún svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta semja lagafrv., sem lagt verði fyrir Alþingi, um almennar reglur, sem fylgja skuli við verðlagningu á orku frá orkufyrirtækjum í landinu. Þar sé m. a. kveðið á um arðgjöf og afskriftir til að tryggja eðlilega eiginfjármyndun og sjóðstreymi. Stjórnir orkufyrirtækja ákveði sjálfar orkuverð innan lagarammans, en að öðru leyti sé hann bindandi fyrir orkufyrirtækin svo og yfirvöld verðlagsmála. Hafa skal samráð við Samband ísl. rafveitna og Samband ísl. hitaveitna um samningu ofangreinds frv.“

Ástæðan fyrir því, að þessi þáltill. er nú flutt hér, er sú, að um alllangt skeið hafa farið fram miklar umræður hér á landi um verðlagningu á orku, bæði raforku og hitaorku. Verðstöðvunarlög hafa verið meira og minna í gildi um 10 ára skeið og þau hafa tekið ákvörðunarvaldið um verðlagningu orku úr höndum eigenda orkufyrirtækjanna, sem í langflestum tilvikum eru sveitarfélögin í landinu, og selt það í hendur verðlagsyfirvalda. Oft hafa ríkisstjórnir átt síðasta orðið í þeim efnum. Sjónarmið ríkisins við þessa verðlagningu hafa yfirleitt á hverjum tíma verið bundin við skammtímasjónarmið og miðast við að halda vísitölu niðri næsta vísitölutímabil. Hagsmunir orkufyrirtækjanna eða orkuiðnaðarins í heild hafa þá oft verið látnir víkja.

Undanfarinn áratug hefur mikil uppbygging átt sér stað í orkumálum. Þrátt fyrir það hefur orkuverð frá stærstu orkufyrirtækjunum lækkað miðað við vísitölu byggingarkostnaðar. Afleiðingar þess eru lítil eiginfjármögnun, en miklar erlendar lántökur sem leitt hafa af sér gífurlega skuldasöfnun og ört vaxandi greiðslubyrði. Oft virðist gleymast að miklar erlendar lántökur kalla á hærra orkuverð síðar vegna aukinnar greiðslubyrðar. Arðgjöf þessara fyrirtækja er langt undir því marki sem eðlilegt má teljast. Sum þessara fyrirtækja horfa fram á alvarlega rekstrarerfiðleika og eru engan veginn í stakk búin til að takast á við mikilvæg verkefni sem bíða á sviði orkumála.

Ég skal nefna hvernig staðan er hjá þremur stórum orkufyrirtækjum landsins, þar sem ég þekki sjálfur svolítið til, og skal fyrst nefna Landsvirkjun. Landsvirkjun er langstærsta fyrirtækið á orkusviðinu og hefur staðið fyrir mikilvægustu áföngum í rafvæðingu landsins undanfarinn áratug með byggingu þriggja stórvirkjana. Samt er það svo, að rafmagnsverð hefur lækkað að tiltölu frá þessu fyrirtæki og var í árslok 1980 um 70% af því sem það var fyrir um 10 árum.

Í lánssamningum Landsvirkjunar og Alþjóðabankans, en Alþjóðabankinn lánaði bæði til Búrfellsvirkjunar og Sigölduvirkjunar, var af bankans hálfu gerð ákveðin krafa um arðgjöf á hverju ári og voru ákvæði um það fest í lánasamninga. Með því vildi bankinn að sjálfsögðu tryggja sig. Hann vildi með því að setja slík ákvæði, sem eru algeng hjá bankanum, tryggja að fyrirtækið hefði þann arð að það gæti greitt lánin þegar að gjalddaga kæmi. Reynslan hefur og sýnt að það er gott fyrir okkur Íslendinga að einhverjir aðrir reyni að hafa vit fyrir okkur í þessum efnum því að sannast sagna reynumst við vera mikil börn í fjármálum og rekstri slíkra fyrirtækja. Þrátt fyrir þetta samningsákvæði hefur það ekki dugað til. Arðgjöf hefur sjaldan náð umsömdu marki og samningarnir því að þessu leyti verið brotnir. Síðustu árin munar verulega í þessum efnum. Ég skal nefna dæmi:

Árin 1978–1980, þ. e. þau þrjú ár, var umsamið mark arðgjafar 8% miðað við ákveðnar reglur sem ég skal ekki skýra nánar hér. Í reynd var það 1978 5%, 1979 5.2% og 1980 5.8%. Í krónum talið er tekjutap Landsvirkjunar vegna þessa, þ. e. samansöfnuð arðgjafarvöntun miðað við síðustu áramót, 6.9 milljarðar eða má segja tæpir 7 milljarðar gamalla króna. Ef arðgjafarvöntun hvers árs er færð til verðlags 1. okt. 1980 nemur tekjutapið 14.4 milljörðum gkr.

Rekstrarafkoma hefur og verið eftir þessu og hún hefur farið versnandi. Rekstrarhalli hefur s. l. þrjú ár verið 1978 597 millj. kr., 1979 966.4 millj. kr og 1980 1470 millj. kr. Þetta er allt í gkr. talið. Samtals nemur rekstrarhalli þessara ára 4278 millj. gkr. á verðlagi 1. okt. 1980. Enn er útlit fyrir rekstrarhalla á þessu ári, og þær áætlanir sem fyrirtækið hefur gert um næsta ár, benda og til að rekstrarhalli verði þá, nema sérstakt átak verði gert, en endanlegar tölur, hvorki um 1981 né áætlun 1982, eru enn fyrir hendi.

Þetta hefur auðvitað haft gífurleg áhrif á lántökuþörf þessa fyrirtækis. Ég hef hér í höndum töflu sem sýnir yfirlit um fjárfestingar Landsvirkjunar árin 1970–1981 og fjármögnun þeirra. Mörg árin hefur lánsfé verið meira en árlegar fjárfestingar, þannig að fé úr rekstri til framkvæmda hefur verið minna en ekki neitt. Tökum dæmi á þessu ári, en þá eru fjárfestingar áætlaðar tæpir 52 milljarðar, en lánsfé er 54 milljarðar, þ. e. 104% miðað við fjárfestingar. Að auki eru framlög eigenda þannig, að 5.4% af heildarfjárfestingum vantar upp á að fé úr rekstri nægi fyrir afborgunum lána. Þetta þýðir auðvitað auknar lántökur sem þessu nemur.

Þegar Landsvirkjun tók á sínum tíma ákvörðun um byggingu Hrauneyjafossvirkjunar var það markmið sett að fyrirtækið gæti fjármagnað með eigin fé úr rekstri um 20% af byggingarkostnaði þeirrar virkjunar. Við það markmið hefur ekki verið unnt að standa. Líkur eru á að fjármögnun þeirrar virkjunar af eigin fé verði minni en ekki neitt, þannig að sú virkjun verði byggð alfarið fyrir lánsfé og meira að segja þurfi jafnframt að taka lánsfé fyrir afborgunum eldri lána.

Ég skal næst nefna Rafmagnsveitu Reykjavíkur, en orkuverð Rafmagnsveitu Reykjavíkur er nú um 75% af því sem það var fyrir 10 árum. Hefur það sem sagt lækkað sem þessu nemur á þessu árabili. Á árinu 1980 voru engar verðhækkanir leyfðar á orkusölu frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur nema til að mæta hækkun á heildsöluverði frá Landsvirkjun og var það þó ekki að fullu. Það sígur því ört á ógæfuhlið hjá þessu fyrirtæki. Erlend lántaka 1981 var 17 millj. kr. Líklegt er að fyrirtækið þurfi að taka a. m. k. um 20 millj. kr. að láni á næsta ári. Fjárvöntun 1982 eftir hækkun, sem varð 1. nóv. 1981, er 73.4 millj. kr. Hækkunarþörf er 42% miðað við 1. febr., en ef tekið er tillit til þeirra 20 millj. kr., sem óskað er eftir að mega taka að láni erlendis, verður hækkunarþörf samt 31% og er þá hækkun í heildsölu ekki með talin. Fjárfestingar Rafmagnsveitu Reykjavíkur eru að miklu leyti bundnar útþenslu byggðarinnar á þessu svæði. Það þarf að leggja rafmagn í ný byggðahverfi jafnóðum og þau eru byggð. Það er mjög óeðlilegt að fjármagna með erlendum lánum slíkar framkvæmdir sem eru árvissar framkvæmdir vegna eðlilegrar stækkunar. Á tveggja ára tímabili, þ. e. frá okt. 1979 til okt. 1981, hefur gjaldskrá Rafmagnsveitu Reykjavíkur hækkað um 94%, en á sama tíma hefur verðbólgan numið 110–120% eftir því hvaða vísitölu er miðað við.

Ef við tökum Hitaveitu Reykjavíkur er orkuverð frá Hitaveitu Reykjavíkur nú 53% af því sem það var fyrir 10 árum en það var um 60% í árslok 1980. Þarna hefur því enn sigið á ógæfuhlið að þessu leyti. Fjárhagsáætlun er nú í undirbúningi hjá Hitaveitunni og talið er að hækkunarþörf sé um 37%. Hlutfall vatnsverðs og olíuverðs til húshitunar er rúmlega 12%, þ. e. verðið á heitu vatni er um 12% af olíuverði, en þetta hlutfall mundi hækka í tæplega 16% ef heimild fengist til hækkunar á hitaveituverði. Framtíð Hitaveitu Reykjavíkur er mjög í hættu. Ástand eldri veitukerfa í borginni er mjög slæmt, bilanir eru tíðar og stöðugt yfirvofandi. Á s. l. fjórum árum hefur ekki verið unnt að vinna að neinum fyrirbyggjandi aðgerðum í formi viðgerða eða endurbóta á eldri kerfum. Margar nauðsynlegar framkvæmdir hafa þurft að sitja á hakanum ár eftir ár. Það hefur verið látið hafa forgang að leggja í ný hverfi, en vatnsöflunin, þ. e. virkjun vatns, hefur setið á hakanum. Hérna stefnir því mjög í ógæfuátt, en fyrirtækinu hefur verið sniðinn svo þröngur fjárhagslegur stakkur að ekki hefur verið unnt að leggja í slíkar grundvallarframkvæmdir.

Í sumum nágrannalöndum okkar hafa verið sett lög eins og er hér getið um. Ég skal nefna sem dæmi, að árið 1977 voru sett lög um rafmagnsframleiðslu í Danmörku og þar er verðlagning á orku sett í hendur sérstakrar nefndar, en í henni eru fulltrúar orkufyrirtækjanna, orkuneytenda svo og fulltrúar ríkisins. Í lögunum eru leiðbeinandi reglur um til hvaða þátta eigi að taka tillit þegar orkuverð sé ákveðið. Í meginatriðum eru þeir eftirfarandi: Venjulegur rekstrarkostnaður, stjórnunar- og sölukostnaður, afskriftir og vextir af lánsfé, enn fremur arður af eigin fé fyrirtækjanna og framlag af eigin fé til nýrra fjárfestinga. Viðskrh. Danmerkur skal innan ramma laganna setja nánari reglur um afskriftir, um eigið fjármagn til nýrra framkvæmda og arð af eigin fjármagni. Þessar reglur viðskrh. tryggja mikið eigið fjármagn í uppbyggingu nýrra orkuvera. Aðalreglan er sú, að allt að 75% stofnkostnaðar hvers orkuvers kemur úr eigin fjármagni á fimm ára tímabili, þ. e. á næsta fimm ára tímabili áður en orkuver er tekið í notkun. Sá hluti stofnkostnaðar, sem ekki kemur í gegnum eigin fjármögnun, er afskrifaður með jöfnum upphæðum á minnst 15 árum. Af þessu má ljóst vera að Danir eru miklu forsjálli í þessum efnum en við Íslendingar og hafa þeir þó átt við verðbólgu að stríða að undanförnu ekki síður en við.

Nú kann einhver að spyrja hvort það sé ekki uppgjöf frá því, sem áður hefur verið haldið fram, að leggja til að slíkar reglur séu settar af hálfu ríkisvaldsins, en eigendur orkuvera hafa mjög haldið þeirri stefnu á loft undanfarin ár, að þeir ættu að hafa sjálfsforræði um verðlagningu orkunnar, en eins og ég sagði áðan eru það fyrst og fremst sveitarfélögin sem hér eiga hlut að máli, en ríkið er að vísu einnig eigandi í stórum orkufyrirtækjum eins og Landsvirkjun og Laxárvirkjun. Ég skal vissulega viðurkenna að hér er um að ræða visst fráhvarf frá þeirri stefnu, en reynslan hefur hins vegar sýnt okkur að á s. l. 10 árum hefur verðlagning orku farið eftir geðþóttaákvörðun verðlagsyfirvalda og ríkisstjórna á hverjum tíma og því stefnir nú í algengt óefni varðandi fjárhag þessara fyrirtækja og þau eru alls ófær um að takast á við þau miklu og stóru verkefni sem okkar bíða á sviði orkumála. Þessari skoðun, sem fylgt er í þessari þáltill., hefur því vaxið mjög fylgi að undanförnu. Ég skal nefna sem dæmi að á vetrarfundi Sambands ísl. rafveitna 3. nóv. s. l. var þetta mjög til umræðu og menn urðu sammála um slíka stefnu. Þetta var einnig mjög til umr. á aðalfundi Sambands ísl. rafveitna á s. l. sumri.

Þáltill. þessi miðar að því að reglur um verðlagningu orku verði festar í lög, en það mundi skapa mikið öryggi fyrir orkufyrirtækin og þau gætu þá gert raunhæfar áætlanir um rekstur og fjárfestingar og haldið lántökum innan eðlilegra marka. Slíkar reglur gætu verið liður í því að koma fjárhag orkufyrirtækja landsins á heilbrigðan grundvöll og búa þau undir ný stórátök á sviði orkumála.

Ég legg til, herra forseti, að þegar þessari umr. hefur verið frestað verði þessari till. til þál. vísað til allshn. Sþ.