08.12.1981
Sameinað þing: 32. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

120. mál, starfslaun íþróttamanna

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Einvarðssyni fyrir frumkvæði að flutningi þessarar þáltill. um starfslaun íþróttamanna. Hér er máli hreyft sem vissulega er ástæða að skoða af verulegri kostgæfni. Margur unglingurinn, sem velur sér skóla, tekur gjarnan ákvörðun um skólastað með tilliti til þeirrar aðstöðu sem til íþróttaiðkana er. Aðstöðu til íþróttaiðkana úti á landsbyggðinni er víða ábótavant, þótt verulega hafi þar áunnist á síðustu árum. Þótt það sé þessu máli að nokkru óviðkomandi er hér þó um þann grunn að ræða sem á skal byggja.

Það má heyra æðioft að mikið fjármagn fari frá ríkissjóði til íþróttahreyfingarinnar í landinu, og mönnum sýnist sitt hvað um ágæti þess. Á árinu 1979 nam framlag ríkisins til hvers iðkanda íþrótta 2200 gömlum krónum. Þetta er langlægsta framlag sem Norðurlandaþjóð greiðir til þessarar starfsemi. T. d. er framlag Færeyinga, nágranna okkar, um 100% hærra og framlag Svía hvorki meira né minna en um 230% hærra.

Það mun láta nærri, að um 80–85 þús. manns iðki íþróttir hér á landi, og kostnaður til rekstrar íþróttahreyfingarinnar mun trúlega verða um 4–5 milljarðar gamalla króna á þessu ári. Ef við ætlum íþróttafólki okkar að standa jafnfætis milljónaþjóðum er ljóst að verulegra aðgerða er þörf. Ég er sannfærður um að það fjármagn, sem varið er til íþróttastarfsemi í landinu, er skynsamleg fjárfesting sem skilar ríkulegum vöxtum.

Með flutningi þessarar till. er reynt að gera afreksmönnum íþrótta kleift að stunda æfingar af kostgæfni. Hér er ekki verið að leggja það til sem kallast atvinnumennska í íþróttum, heldur er um að ræða stuðning og skilning á mikilvægi þess að afreksmenn okkar á sviði íþrótta geti helgað sig íþróttum frekar en verið hefur. Það má öllum ljóst vera að tómstundirnar einar sér duga skammt afreksmönnum okkar til þjálfunar eigi árangur að verða sá sem efniviður þeirra býður upp á og við væntum af þessu stórefnilega fólki.

Herra forseti. Ég skal nú ljúka máli mínu. En ég harma það vissulega að ekki skuli verða fleiri þm. til þess að leggja orð í belg við þessar umr., því sannarlega er hér athyglisvert mál á ferðinni. Ég vona að það fái jákvæða meðferð á hinu háa Alþingi og ég endurtek enn og aftur þakkir mínar til l. flm. fyrir að hreyfa þessu svo sannarlega ágæta máli.