20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

13. mál, orlofsbúðir fyrir almenning

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það kom fram í máli 1. flm. þessarar þáltill. rétt áðan, að það þyrfti einhver að hafa um það frumkvæði að hverfa að því ráði að koma upp útivistarsvæðum og sumarbústaðahverfum á jörðum sem eru í opinberri eign. Þar er nú því miður, að þó að þessi þáltill. yrði samþykkt er ekki fyrstu ákvarðanir til slíks að rekja til hennar því að það hefur þegar gerst. Hér hefur verið bent á það, að í jarðalögunum, sem nú eru í gildi, eru ákvæði um að það megi taka slíkar jarðir til útilífsnota. Segir í 11. gr. að þar sem jarðanefndir geri tillögu um land til útilífs fyrir almenning skuli, eftir því sem aðstæður leyfa, nota land í opinberri eigu. Enn fremur er gert ráð fyrir því í 31. gr., að Jarðasjóði ríkisins sé heimilt að kaupa jarðir sem heppilegar teljast til almennra útilífsnota.

Ég sagði að þessum ákvæðum hefði þegar verið beitt og það starf hefði verið hafið. Mér er kunnugt um að það voru höfð makaskipti á einni gamalli prestssetursjörð við sveitarfélag þar sem presturinn kærði sig ekki um að hafa jafnmikið land til ráðstöfunar og nota og hann hefði haft með þeirri jörð sem hann hafði rétt til að búa á. Þegar þau makaskipti fóru fram tók ríkissjóður frá land á bújörðinni, sem talið var að bújörðin mætti vera án, og áform voru um að setja þar upp skipulagt sumarbústaðahverfi. Þó að þeir bústaðir séu ekki risnir enn er þegar, veit ég, áformað að með næsta vori verði þetta land girt af í þessu skyni.

En það skiptir að sjálfsögðu ekki höfuðmáli hver á frumkvæðið. Það hefði verið allt að meinalausu þó að sú till., sem hér er rædd, hefði orðið til að hrinda slíku máli sem þessu af stað. Ég tel eðlilegt og ég tel sjálfsagt að reyna að samræma sem mest not landsins fyrir þarfir þjóðfélagsins og þegna þess. Ég tel að það sé rétt að nefnd skoði þessa till., því að hún yrði þá áreiðanlega einn liður í þeirri viðleitni, þó að hún sé ekki fyrsta sporið sem yrði stigið í þessa átt.

Ég verð nú að segja það, að vegna kunnugleika míns af Þingvallanefndarstörfum og Þingvallanefnd átta ég mig ekki greinilega á því sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði um þau mál áðan. Því miður eru lögin um þjóðgarðinn á Þingvöllum ákaflega ónákvæm, enda gömul, líklega sett 1928 eða svo. Ég held að það hafi ekki komið til alvarlegra árekstra um ráðstöfun bújarða vegna þeirrar ónákvæmni sem er í lögunum, enda hafa þeir bændur, sem búa á þeim jörðum sem falla undir umfjöllun Þingvallanefndar að einhverju leyti, haft í langan tíma byggingarbréf með fyrirvara um hvað þeir mættu gera og hvernig mætti ráðstafa landi jarðanna. Ég held að það sé eldgömul saga, það sé löngu liðinn tími, að það hafi verið byggðir sumarbústaðir á Þingvallasvæðinu sem Þingvallanefnd hafði ekki haft afskipti af. Það er ekki ný saga. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða það. En það er ekkert aðalatriði í þessu efni.

Ég held að því miður séu menn ekki búnir að setja sig algerlega í stellingar með það, hvernig eigi að ráðstafa þessu opinbera landi til útilífsnota. Það getur verið heilmikið efni fyrir þn. að finna leiðir til þess að það geti farið vel úr hendi.