09.12.1981
Efri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

132. mál, framkvæmd eignarnáms

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Frv. það, sem ég hef ásamt tveim hv. þm. í þessari deild leyft mér að flytja á þskj. 141, fjallar um breytingu á lögum um framkvæmd eignarnáms. Frv. um svipað efni hafa raunar áður verið flutt hér á Alþingi, en eigi náð fram að ganga. Síðast var frv. sama efnis flutt á síðasta þingi og var þá vísað til nefndar, en hlaut eigi afgreiðslu.

Nú er þetta frv. flutt enn að nýju og að þessu sinni í svolítið breyttri mynd frá því sem var, þó að efnislega sé þar ekki um miklar breytingar að ræða, heldur hafa verið sniðnir af nokkrir, einkum tæknilegir annmarkar sem að mati lögfróðra manna voru á hinu fyrra frv. Svo er nú og gert ráð fyrir að fyrirsögn eða heiti laganna breytist þannig að þau heiti: „Lög um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun eignarnámsbóta.“

Þær breytingar, sem á frv. hafa verið gerðar frá því í fyrra, eru í skemmstu máli þær, að nánar er nú en áður stuðst við lög um þetta efni, sem um nokkurt skeið hafa verið í gildi í Noregi og hafa þar þótt gefa góða raun.

Þegar frv. um þetta efni var hér til umr. á Alþingi í fyrra sendu flm. frumvarpið til allra oddvita á landinu. Frá þó nokkrum þeirra bárust umsagnir um frv. og voru þær almennt jákvæðar. Mig langar að vitna hér í eina af þessum umsögnum, sem er frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Í bréfi frá Fjórðungssambandinu, sem dags. er 19. maí 1981, segir svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Með þessu bréfi er sent ljósrit af umsögn stjórnar Fjórðungssambandsins um framangreint frv., en nái mál þetta ekki fram að ganga á þessu þingi er þess vænst, að þér takið það upp á næsta þingi.“

Umsögnin er svohljóðandi:

„Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga fjallaði um framangreint frv. á fundi sínum hinn 16. þ. m. og samþykkti einróma að mæla með því að frv. þetta verði að lögum.

Umsagnir annarra, sem fengu frv., voru mjög á sömu lund.

Oft áður hefur hér verið gerð grein fyrir meginefni þess sem þetta frv. hefur í för með sér. Meginatriði málsins er auðvitað það, að frv. er fyrst og fremst ætlað að breyta aðferðum við ákvörðun eignarnámsbóta í þá veru að afnema það óréttlæti sem flm. telja að nú viðgangist. Því er sömuleiðis ætlað að stuðla að eðlilegri þróun byggðar og gera það að meginreglu íslenskra laga og meginreglu við ákvörðun eignarnámsbóta, að ekki skuli taka tillit til þeirra verðbreytinga er rekja megi til tilgangs eignarnámstökunnar. Að þessu leyti er því í frv. þessu mörkuð ný stefna frá því sem verið hefur, — stefna sem hefur það fyrst og fremst að markmiði að tryggja einstaklingum sanngjarnt verð fyrir eigur sínar; sem kunna að verða teknar eignarnámi, og tryggja jafnframt ríka hagsmuni samfélagsins.

Það er og megintilgangur frv. að eignarnámsbætur skuli miða við þá notkun sem eign er í þegar eignarnemi tekur málið til umfjöllunar og tilkynning þar að lútandi er send eignarnámsþola, og enn fremur að ekki séu metnar þær verðbreytingar sem rekja megi beint til tilgangs eignarnámstökunnar. Það er vissulega alkunna hverja erfiðleika sveitarfélög í þéttbýli hafa oftlega átt við að etja þegar þar hefur þurft að taka land eignarnámi vegna eðlilegs vaxtar og þróunar viðkomandi sveitarfélags.

Í frv. er einnig gerður nokkur greinarmunur á því, hvort um er að ræða land eða fasteignaréttindi, sem tengd eru landi, eða byggingar og önnur mannvirki. Er þetta sömuleiðis til samræmis við þær reglur sem eru í norskri löggjöf um þetta efni.

Í grg. með frv. um þetta efni, sem sömu flm. fluttu á Alþingi í fyrra, var birt í heild erindi eftir Jón G. Tómasson hrl., borgarlögmann í Reykjavík, þar sem hann fjallaði um ákvörðun eignarnámsbóta. Ég vil leyfa mér að vitna hér til nokkurra setninga úr þessu erindi hans. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þeim reglum, sem taldar hafa verið í gildi, hefur eignarnámsþoli vissulega átt möguleika á mikilli hagnaðarvon vegna verðhækkana sem stafa af fjárfestingu eða framkvæmdum hins opinbera. Þetta hefur skapað ójöfnuð og vandamál í þjóðfélagi nútímans sem nauðsynlegt er að leysa. Samhliða því, að ríki og sveitarfélög leggja mikið fjármagn í opinberar framkvæmdir, hafa einstakir landeigendur gert háar kröfur um bætur fyrir verðmætisaukningu sem rekja má til þessara sömu framkvæmda.

Skattgreiðandinn þarf því ekki aðeins að borga fyrir framkvæmdirnar, heldur er einnig gerð krafa um að hann greiði fyrir þá verðhækkun á eigninni sem framkvæmdirnar sjálfar leiða af sér. Þessi sjónarmið hafa vissulega reynst sveitarfélögunum erfið. Þau hafa haft takmarkaða tekjumöguleika og vaxandi skyldum að gegna, m. a. við undirbúning á nýjum byggingarsvæðum og uppbyggingu alhliða þjónustukerfis fyrir íbúana þar. Vandamál, sem leitt hefur af háu landverði, hvort heldur það byggðist á eignarnámsmati eða samningsverði, sem oftast hlýtur að taka mið af áætluðum eignarnámsbótum, hefur leitt til seinkunar á framkvæmdum eða til þess, að hagstæðari kosturinn er ekki alltaf valinn. Spurningin, sem leita þarf svars við, er sú, hvort hið opinbera skuli við eignarnám greiða bætur fyrir þau verðmæti, sem það sjálft hefur skapað eða leiðir af athöfnum þess, m. ö. o. hvort sækja eigi í vasa skattborgaranna greiðslur fyrir verðmæti sem þeir hafa þegar greitt fyrir.“ — Þetta er auðvitað mergur þessa máls.

En þá er þess að geta, að flm. töldu nauðsynlegt að frv. fylgdi ákvæði til bráðabirgða að því er varðar greiðslu fasteignagjalda fyrir land sem svo háttar um. Það var skoðun okkar, sem erum flm. þessa frv., að nauðsynlegt væri að í lögum væri ákvæði til bráðabirgða, sem tæki til þess, þegar eignarnámsbætur samkv. lögum reyndust lægri en fasteignamat á landinu hefði verið árin þar næst á undan, næstu 10 ár er hér miðað við, en fasteignagjöld hafa þá auðvitað verið greidd samkv. því fasteignamati. Í þeim tilvikum, þar sem slíkt kæmi til, sem er afar auðvelt að hugsa sér ef þetta frv. verður að lögum, væri auðvitað ranglátt gagnvart eigendum lands, þegar eignarnámsbætur eru lækkaðar samkv. þeim reglum sem hafðar eru til viðmiðunar hér, en þeir hafa greitt fasteignagjöld árin á undan samkv. allt öðrum reglum, — þá er auðvitað eðlilegt og sanngjarnt að menn fái það að nokkru bætt. Því er hér gert ráð fyrir að bæta sérstaklega þann mismun, sem eignarnámsþoli hefur greitt í fasteignagjöldum á þessu tímabili, þ. e. umfram það sem verið hefði ef fasteignamatið hefði verið jafnhátt bótaupphæðinni. Er gert ráð fyrir að þetta bráðabirgðaákvæði til öryggis gildi í 15 ár frá gildistöku laganna.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Hv. þingmönnum í þessari deild er þetta mál mætavel kunnugt. Það hefur verið flutt hér oft áður. Þótt nú sé það í svolítið breyttri mynd að forminu til er það einungis vegna þess, eins og ég áður sagði, að að mati lögfróðustu manna hafa verið sniðnir af því annmarkar, sem e. t. v. mátti áður finna á því, og nú er í langtum ríkari mæli en áður stuðst við ákvæði norskra laga um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun eignarnámsbóta og teknar upp þær meginreglur sem þar hefur verið fylgt í þessum efnum og í norsku réttarfari hafa þótt gefa góða raun.

Ég legg svo til að lokum, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.