09.12.1981
Efri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

132. mál, framkvæmd eignarnáms

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., en geri það að gefnu því tilefni að ég hvíslaði hér að sessunaut mínum að regla í þessa áttina mundi vera í vegalögum, sem hún víst örugglega er, þ. e. í þá veru að ef landareign hækkar mjög í verði vegna nýs vegar, sem um hana er lagður, skuli hafa hliðsjón af verðhækkun landsins við bætur vegna vegagerðarinnar. Þetta tel ég raunar alveg eðlilegt að sé í lögum, og að vissu marki er sú hugsun ekki alveg fráleit sem fram kemur, að þegar vegagerðir af hálfu opinberra aðila auka mjög verðmæti eigna sé eðlilegt að hafa hliðsjón af því við mat þeirra. En allt er þetta miklu flóknara og erfiðara mál viðureignar en svo, að það verði allt leyst með lögum á borð við þau sem þeir Alþfl.-menn hafa barist fyrir, Álitamálin eru gífurlega mörg, og menn hafa stundum hliðsjón af því líka, þegar þeir kaupa eignir, að kannske sé öruggt að þær muni hækka í verði síðar o. s. frv. Og allir vitum við það, sem höfum byggt í úthverfum og eigum síðan allt í einu orðið heima kannske nærri miðbæ, að okkar hús hafi hækkað í verði o. s. frv. Allt er þetta miklu flóknara mál en svo, að það verði leyst í einu lagi.

En auðvitað er sjálfsagt að hafa hliðsjón af slíkum atriðum í sambandi við eignarnám. Þegar rætt er um, við skulum segja auðlegð eins og jarðhita á háhitasvæðum, þá er ekki óeðlilegt, finnst mér, að hafa hliðsjón af því, að þetta var ekki eign áður en nútímatækni kom til, t. d. hinn gífurlegi náttúruauður langt í jörð niðri, kannske svo kílómetrum skiptir. Ég tel það í rauninni ekki skerðingu eignarréttar þó að ekki sé virtur slíkur réttur. Og þar sem miklir almannahagsmunir eru í veði á auðvitað að vera unnt að beita ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarnám. Og lög eiga ekki að miðast við það, að þessi verðmæti séu gífurleg vegna þess að þau verða skyndilega nýtt, þegar enginn annar en ríkið sjálft getur nýtt þessi verðmæti. Ég held að það séu kannske fáir hlynntari eignareinkarétti en ég og sjálfstæði borgaranna sem allra flestra, einmitt fjárhagslegu sjálfstæði þeirra. Engu að síður tel ég að sú þvermóðska að vera ekki fús til þess að láta lönd af hendi, þar sem það er nauðsynlegt vegna almannaheillar, hljóti að leiða til þess, að sjónarmið eins og þau, sem þm. Alþfl. halda uppi, vinna fylgi, og sjónarmið okkar hinna, sem viljum varðveita eignarrétt einstaklinga, muni víkja ef menn gera sér ekki grein fyrir sanngirni í þessu efni. Það mættu vera viðvörunarorð til ýmissa þeirra sem of langt ætla að ganga í því að varðveita svonefndan eignarrétt. Þarna er best að fara bil beggja.