09.12.1981
Efri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

134. mál, Flutningsráð ríkisstofnana

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég vil taka undir með 1. flm. og frsm., að hér er mál sem vissulega er þörf á að íhuga og fylgjast vel með og það af tveimur ástæðum eða kannske mörgum. En mér detta í hug sérstaklega tvær. Annars vegar ef hægt er að dreifa opinberum stofnunum um landið, þá er það æskilegt út frá byggðasjónarmiði. Og svo getur líka verið að það sé beinlínis hagkvæmara að hafa stofnanir einhvers staðar annars staðar en hér í Reykjavík, enda þótt samgöngukerfi landsins geri það nauðsynlegt í mörgum tilfellum með stofnanir sem eiga að þjóna landinu öllu, þar sem samgöngukerfið er allt, má segja, skipulagt út frá Reykjavík, allar aðalleiðir liggja hingað en minna á milli annarra landshluta.

Hins vegar er ég ekki hlynntur því að fara að búa til nýjar stofnanir fyrir þetta verkefni, og það var fyrst og fremst þess vegna sem ég vildi taka undir það sem flm. sagði, að það væri athugað að fela þetta einhverri stofnun sem fyrir er. Mér finnst þetta vera alveg kjörið verkefni fyrir Framkvæmdastofnun ríkisins. Hún á að vera ríkisstj. til ráðuneytis um byggðamál og önnur skipulagsmál og þess vegna álit ég að eigi ekki að fara að ráða sérstaka starfskrafta, eins og segir í frv.; í þessu skyni, ekki búa til nýjar stofnanir, heldur nota þær sem fyrir eru. Nú er einmitt verið að endurskoða lög um Framkvæmdastofnun ríkisins og þá held ég að það sé sjálfsagt að taka það til athugunar, ef nauðsyn er á einhverjum lagabreytingum til þess að sú stofnun hafi þetta verkefni með höndum, þó að mér sýnist að þetta sé svo stór hluti í almennum byggða- og skipulagsmálum, að það væri eitt af því fyrsta sem stofnun, sem um það ætti að fjalla, þyrfti að athuga.