09.12.1981
Efri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

134. mál, Flutningsráð ríkisstofnana

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst í þennan ræðustól til þess að fjalla efnislega um þetta frv. Það hefur verið gert hér af mörgum og tel ég það allbærilegt innlegg til nefndar sem fær málið til umfjöllunar. Ég get þó sagt það, að það er gott við frv. að það rumskar við mönnum og fær þá kannske til að hugsa um þessi mál meira en menn hafa gert fram að þessu.

Ég tek undir ummæli utanrrh., eins og fleiri hvað varðar Síldarverksmiðjur ríkisins. Vitaskuld höfum við rætt við viðkomandi ráðh. um þetta atriði, en Eyjólfur Konráð lýsti því hér yfir, að nú mundi ráðh. verða skrifað. Ég tel víst að Eyjólfur beiti sér fyrir því í samráði við settan forsrh., að við setjumst niður og stílum bréf til ráðherra vegna þessa máls.

Annars var þetta ekki ástæðan fyrir því að ég kom hingað upp, heldur að segja nokkur orð og þó fyrst og fremst vegna ummæla hv. þm. Eyjólfs Konráðs — og ég verð að taka Stefán Jónsson þar með. Mér fannst þeir ganga nokkurn veginn í takt, en ég skil hvernig stóð á því, að Framkvæmdastofnun ríkisins var allt í einu komin hér í pontuna. (Gripið fram í: Frsm. gat um hana.) Já, ég held að það væri þá ástæða til að ræða sérstaklega um Framkvæmdastofnun ríkisins. Það virðist vera mikið í tísku í dag að ræða um Framkvæmdastofnun ríkisins og finna henni flest til foráttu. M. a. sagði hv. þm. Eyjólfur Konráð: Mesta óþurftarstofnun sem nú starfar er Framkvæmdastofnun ríkisins. (EKJ: Ég stend við það.) Ef arðbæra hluti á að gera er fjármagnið ekki til. sennilega stendur það líka. Það vantar ekki að hv. þm. sé kokhraustur. Ég vildi bjóða honum að við spjölluðum einhvern tíma um Framkvæmdastofnun ríkisins í okkar kjördæmi. Ég hef grun um að stóru orðin yrðu öðruvísi sett fram þar en þau voru sett fram hér í þessum ræðustól. Ég skil ekki þennan málflutning hjá þessum annars prúða og rólega manni Eyjólfi Konráð, hverslags offors þetta er. Ég gæti náð áttum í þessu máli, ef kommissar Hermannsson væri í annarri fylkingu en hv. þm. en nú er það ekki. Eitthvað annað alvarlegra virðist liggja hér að baki.

Ég vil segja að þeir, sem nú hrópa hæst um að leggja eigi niður þessa stofnun, sem vissulega — og ég segi: vissulega — hefur unnið vel að byggðamálum í þessu landi, hafa fengið hér óvænta liðsmenn. Ég hef ekki trú á að sú aflaga, sem nú er gerð að Framkvæmdastofnun ríkisins, sú leiftursókn sem þar virðist í smíðum og sýnilega er stefnt gegn þeirri stofnun, beri árangur. Þar virðast hafa svarist í fóstbræðralag hinir ólíklegustu menn. Ég vona að axarskaftasmiðum þessarar sóknar muni seint vinnast verkið.