09.12.1981
Efri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

134. mál, Flutningsráð ríkisstofnana

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég lofa því ekki að hafa hér eins lífleg orð í frammi og síðustu ræðumenn, en mig langaði til að víkja sérstaklega að einu atriði sem ég man ekki til að hafi komið fram í umr. um frv. til l. um flutningsráð ríkisstofnana. Það er sú staðreynd, að staðsetning flestra, ef ekki allra þjónustustofnana eða yfirstjórnar þeirra er hér í Reykjavík, og leiðin liggur því til Reykjavíkur hvort eð er í ýmsum tilgangi. Þetta hefur þróast svona í gegnum langa tíð. Ég ætla mér ekki að rekja þá sögu, við þekkjum hana allir nokkurn veginn jafnvel. En mig grunar það, að ef til kæmi að menn hygðust ætla að ganga til verulegs flutnings, ganga til þeirra verka að flytja stofnanir í stórum mæli út á land, gera að því gangskör, þá rækju menn sig á ýmsa annmarka.

Ég er hræddur um það, svo að ég taki dæmi, að það væri snúið hjá okkur Borgfirðingum að fara alltaf austur á Hallormsstað, yrði Skógrækt ríkisins t. a. m. flutt þangað, sem ég var á tímabili mjög hrifinn af að framkvæmt yrði. Hins vegar lýsi ég mig samþykkan því, að það sé hreyfing á þessum hlutum, þ. e. að athugað sé gaumgæfilega í hverju tilviki hvað er hægt að færa án þess að af því leiði óhagræði sem í miklu fleiri tilfellum, hygg ég, fylgir slíkum flutningi.

Það hafa verið stofnuð útibú opinberra stofnana og það hefur gefist nokkuð vel. Ég vil líta svo á t. a. m. að fræðsluskrifstofurnar séu tengiliður á milli heimamanna og stjórnunaraðila hér syðra. En ég hef aðeins orðið var við það, t. d. í sambandi við fræðsluskrifstofurnar, að það getur í sumum tilfellum verið fljótlegra að fá úrlausn sinna mála með því að taka sér ferð á hendur til Reykjavíkur og tala beint við þá sem æðstu ráðin hafa. Hinn mátinn getur tekið allverulegan tíma og miklu lengri tíma en að færa fyrirtækin til Reykjavíkur og ganga beint á vil þeirra sem æðstu ráðin hafa í hverri stofnun. Ég vildi aðeins drepa á þetta.

Hitt er það, að hið háa hlutfall opinberra stjórnunarstofnana hér í Reykjavík skekkir að sjálfsögðu atvinnuskiptingu. Það er mál út af fyrir sig og að mínum dómi mjög skaðlegt og gerir það að verkum, að bilið hlýtur óhjákvæmilega að breikka í viðhorfum fólksins hér í Reykjavík annars vegar og hins vegar úti á landi. Ég vil ekki fara lengra út í þetta. Ég hygg að hv. þm. viti hvað ég meina.

Til viðbótar þetta um atvinnuskiptinguna: Mér hefur stundum gramist þegar umr. um atvinnumál hafa snúist um það hér í Reykjavík, — nú er ég farinn að tala eins og Reykvíkingur, — að í Reykjavík mætti helst ekki vera nein undirstöðuatvinnustarfsemi. En það er einmitt þetta, sem þarf að breytast í einhverjum mæli. Það má ekki hallast mjög á um atvinnuskiptingu. Ef svo er og ef svo fer í enn ríkari mæli en er á milli byggðarlaga — og þá tala ég sérstaklega um Reykjavíkursvæðið og landsbyggðina — þá er miklu meiri hætta á togstreitu milli þess stóra og sterka þéttbýlis og dreifbýlisins.

Að lokum um þetta frv.: Ég held að það hljóti að fyrirfinnast í stjórnkerfinu einhvers staðar nú þegar einhverjir þeir aðilar sem geta haft puttann á því sem hér er lagt til. Ég held að við þurfum ekki nýjar stofnanir. Það er ekki lausn í sjálfu sér vegna þess að þá gæti flutningsráð, ef til kæmi, lagt eitthvað til og hnýtt menn í fjötra og komið mönnum í sjálfheldu, þröngvað mönnum smátt og smátt til að gera ákveðna hluti sem væri kannske ekki vit í. Það er þörfin, sem á að vera leiðarljós í þessu efni, en ekki það að sinna einhverjum stofnunum.