09.12.1981
Efri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

134. mál, Flutningsráð ríkisstofnana

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það er áreiðanlega rétt, sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, að það eru ýmiss konar erfiðleikar samfara flutningum ríkisstofnana. Hann benti réttilega á að þegar menn koma utan af landi, þá geta þeir komist í samband við æðimargar af æðstu stofnunum einmitt hér í Reykjavík. En einmitt með hliðsjón af þessu er alveg ljóst að t. d. að því er varðar Síldarverksmiðjur ríkisins, þá er það allt öðruvísi vaxið. Á Siglufirði er langstærsta síldarverksmiðjan, þar er mesta framleiðslan og Siglufjörður er ekkert fjær öðrum síldarverksmiðjum ríkisins heldur en Reykjavík. Það er engin ástæða til þess, að aðalskrifstofa Síldarverksmiðja ríkisins sé í Reykjavík — nákvæmlega engin. Með þeim fjarskiptum, sem nú eru, mætti gjarnan hafa hér einn eða tvo menn á skrifstofu. Það getur vel verið að það væri þægilegt til ýmiss konar útréttinga. En auðvitað á aðalskrifstofan og öll aðalstarfrækslan að vera á Siglufirði eins og líka lög mæla fyrir um.

Ég gat um það áðan, að það hefði kannske verið réttlætanlegra að flytja síldarútvegsnefnd eða hennar aðalaðsetur hingað suður þegar síldin var horfin frá Norðurlandi og allar síldveiðar. En það átti auðvitað ekki að gera með þeim hætti sem gert var. Það átti þá að gera það með því að breyta lögunum, en ekki brjóta þau. Það er þar sem hnífurinn stóð í kúnni að því leyti.

En að sjálfsögðu er sú ábending, sem hæstv. utanrrh. kom hér fram með, að þm. kjördæmisins skrifuðu hæstv. sjútvrh., alveg rétt. Við höfum talað við hann, en ég veit ekki til að þetta hafi verið stöðvað. Ég geri ráð fyrir því, að ef hann fái slíkt bréf þá leggi hann það fyrir ríkisstj. og þá muni þetta verða stöðvað. Ég get varla ímyndað mér annað þegar búið er að vekja svo rækilega athygli á að allt annað væri lögbrot. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þá ábendingu. En hún leiðir einmitt til þess, að það er ekki ástæða til að hafa enn eina slíka stofnun eins og hér um ræðir, flutningsráð ríkisins eða hvað það nú heitir. Það er auðvitað í verkahring stjórnarinnar, viðkomandi ráðh. eða ríkisstj. í heild, að sjá til þess, að þeim lögum sé framfylgt sem undir viðkomandi rn. heyra. Þess vegna er það auðvitað Alþingi sem á að gæta þess, að ekki sé gengið á hag og hlut borgaranna og þeim lögum sé hlýtt sem Alþingi hefur sett. Þess vegna er það nákvæmlega rétt sem hæstv. utanrrh. segir, eins og hans er von og vísa þegar um stjórnskipun og lögfræði er að ræða, að það á að beita sér við viðkomandi ráðh., hæstv. sjútvrh. í þessu tilfelli, og það munu þm. kjördæmisins vafalaust gera.

Það er líka rétt sem hæstv. ráðh. segir,. að það má hugsa sér að fella slíkt vald alfarið undir forsrn., að það hafi yfirstjórn þessara málefna, sem við erum sammála um, að það beri að reyna að flytja ríkisstofnanir út á land eins og hægt er. Það má hugsa sér að það verði sérstaklega ákveðið að forsrn. sinni þessari eftirlitsskyldu og leitist við að beita sér fyrir því, að þessi þróun nái fram að ganga.

En þá er komið að hv. 3. þm. Norðurl. v. Ég segi það alveg hreinskilnislega, að mér þótti mjög leitt að orð mín skyldu særa þann ágætismann jafnmikið og raun ber vitni — þau orð sem ég hér lét falla. Ég sagði ekkert annað en það sem ég alla tíð hef sagt. Ég hef alltaf verið á móti Framkvæmdastofnun ríkisins og er enn í dag. Þegar ég studdi ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, þá varð ég að sjálfsögðu að láta í minni pokann að vissu leyti. Það var auðvitað samsteypustjórn og skiptar skoðanir um það í mínum flokki líka. Ég hef aldrei skilið tilgang þessarar stofnunar og það segi ég nákvæmlega eins í mínu kjördæmi og hér, enda geri ég ekki ráð fyrir að hægt verði að vitna öðruvísi í Alþingistíðindi í mínu kjördæmi.

Ég sagði í ræðu minni áðan að það bæri að koma málefnum Byggðasjóðs fyrir með öðrum hætti, eitthvað svipað því sem gert var þegar atvinnumálanefndirnar störfuðu hér á sínum tíma, þ. e. að Byggðasjóður starfaði sjálfstætt eins og hann þá gerði. Það var vísir að byggðasjóði og svo var Atvinnujöfnunarsjóður. Hann mundi geta starfað undir þingkjörinni stjórn. En Framkvæmdastofnun er allt annað. Nú er búið að innbyrða Byggðasjóð í Framkvæmdastofnun og fjármunirnir notaðir til að byggja eitt mesta hneykslishús sem byggt hefur verið á landinu. Það mátti bæta því við líka, hv. þm., að það er hneykslishús. Það er hreint hneyksli að nota fé Byggðasjóðs til þess að byggja þetta skrauthús hér í Reykjavík í staðinn fyrir að nota það til þess t. d. að styrkja Útgerðarfélag Skagfirðinga og frystihúsin í Skagafirði. Það eru þessi hneyksli sem ég er að benda á. Byggðasjóður á að starfa sjálfstætt, og fé Byggðasjóðs á að vera til að styrkja byggðir landsins, en ekki að byggja skrauthýsi í Reykjavík og valsa með peninga. (StefG: Þú vilt láta braskara í Reykjavík hirða húsaleigugróðann.) Braskara í Reykjavík hirða húsaleigugróðann? Ég ætlast ekki til að það sé neitt húsnæði nema 3–4 herbergi, það nægir. Og þá er heldur ekki pláss fyrir allt fólkið sem hleðst í kringum þetta. En það bætist nú við þegar búið er að útvega allt þetta húsnæði. Það er það sem ég er að segja. Það átti að segja upp a. m. k. helmingnum af hinu húsnæðinu á Rauðarárstíg, a. m. k. hefði ein hæð nægt, vegna þess að að það er ekki nokkur vafi á því, að það er nægilegt að 3–4 menn sjái um að innheimta þar og úthluta lánum Byggðasjóðs og annað slíkt.

Ef það er stjórnskipuð nefnd sem á að veita lánin, þá þarf áreiðanlega ekki meira en 3–4 menn til þess að kanna að allt sé með felldu varðandi lánsumsóknir, fara í gegnum mat á eignunum og tryggingar og annað slíkt. Síðan þarf auðvitað ekki nema einn mann og varla það til þess að sjá um að innheimta af þessum tiltölulega fáu lánum. Ég veit að vísu að hv. þm. Stefán Guðmundsson skilur þetta. En það fer bara einhvern veginn þannig, að þegar menn eru kosnir í einhverjar nefndir og ráð, þá halda þeir að þeirra meginhlutverk sé að þenja stofnunina út, en ekki það að hún sinni þeim hlutverkum sem hún er stofnuð til að gegna. Það er þar sem skilur á milli feigs og ófeigs. En ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma. Ég bið hv. þm. Stefán Guðmundsson fyrir að tilgreina í mínu og okkar kjördæmi hvert einasta orð sem ég hef um þetta sagt. Ég tek ekkert af þeim aftur. Þetta er mín sannfæring og við hana hlýt ég að standa.