09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég tel að heppilegt væri að taka upp sem meginreglu að senda Alþingi álit stjórnskipaðra nefnda, sem fjalla um hin þýðingarmestu mál, þegar þau liggja fyrir. Engin venja hefur þó skapast um þessi efni. Öðru máli kann að gegna þegar um er að ræða bráðabirgðaálit eða áfangaskýrslu frá nefndum sem oft taka breytingum í endanlegri gerð þegar nefndir hafa lokið störfum. Dreifing slíkra gagna, sem stundum eru vinnuplögg, getur jafnvel í einstökum tilvikum torveldað lokavinnu þeirrar nefndar sem hlut á að máli.

Starfsskilyrðanefnd atvinnuveganna, sem skipuð var af forsrh., sendi áfangaskýrslu ásamt bréfi til forsrh. 22. sept. s. l. Bréf þetta er svohljóðandi:

„Herra Gunnar Thoroddsen forsrh., Reykjavík. Skýrsla sú, sem yður er send með þessu bréfi, er áfangaskýrsla starfsskilyrðanefndar. Horfur eru á því, að endanlegt álit nefndarinnar liggi fyrir innan skamms. Vegna umræðna um þörf á aðgerðum til jöfnunar á starfsskilyrðum hefur nefndin þó talið rétt að senda yður þá kafla skýrslunnar sem lengst eru komnir í vinnslu. Fjalla þeir um tekjuöflun hins opinbera, opinbera fyrirgreiðslu og lánamál.

Virðingarfyllst, f. h. starfsskilyrðanefndar Jóhannes Nordal.“

Í bréfi þessu kemur fram að um áfangaskýrslu er að ræða og horfur eru á að endanlegt álit liggi fyrir innan skamms, jafnframt að þeir kaflar, sem fram koma í skýrslunni, séu lengst komnir í vinnslu. Þetta gefur til kynna að efni skýrslunnar kunni að taka breytingum við endanlega gerð, enda hafa fulltrúar atvinnuveganna í starfsskilyrðanefnd heimild til þess að bera þau efnisatriði, sem fram koma innan nefndarinnar, undir forustumenn sinna atvinnugreina sem trúnaðarmál og taka við athugasemdum af þeirra hálfu. Á þessu stigi hefur því verið litið svo á innan ríkisstj. að um trúnaðarmál sé að ræða. Ég tel mér ekki fært í fjarveru forsrh. að slá því föstu að þessari bráðabirgðaskýrslu verið útbýtt.

Ég tek á hinn bóginn undir það, sem fram kemur í máli hv. fyrirspyrjanda, að það er mjög óviðfelldið, ef rétt er, að margir aðilar hafi þessa skýrslu undir höndum. Það mun vera rétt, að kafli úr skýrslunni hafi birst í einu dagblaðanna fyrir nokkru. Þetta atriði og eins ef ýmsir aðilar hafa skýrsluna undir höndum virðist mér benda til þess, að ekki hafi allir haldið trúnað svo sem þeim var falið.

Ég mun greina hæstv. forsrh., sem kemur heim á morgun, frá ósk hv. 1. þm. Vestf., og ég mun minnast þessarar umræðu og styðja það að skýrslunni verði dreift þegar nál. liggur fyrir.