09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans við þessari fsp. Ég hef í raun og veru ekkert við það að athuga sem hann sagði. Það er eðlilegt að hann vilji láta það biða heimkomu forsrh. hvort eigi að afhenda þm. þessa skýrslu þar sem hann er væntanlegur heim á morgun. En ég vil vekja athygli á því, að það er óeðlilegt að nefnd, sem ríkisstj. skipar, sem er trúnaðarnefnd og vinnur trúnaðarstörf, sendi áfangaskýrslu sína um stöðu allra atvinnuvega til framámanna atvinnuveganna. Það er í mesta lagi að hún geti sent tiltekna kafla, sem snerta viðkomandi atvinnugrein, til þess að fá. umsagnir eða svör við einhverjum fyrirspurnum. Hitt er óþolandi, að ef eitthvert mál er stimplað trúnaðarmál er alveg gefið að það er komið í dagblöð innan ekki langs tíma. Og þegar svo er komið finnst mér réttur þingmanns vera orðinn afar lítill og auvirðilegur, er hann þarf að ganga til ritstjórnarskrifstofu blaða og biðja um að fá að lesa trúnaðarmál sem varðar atvinnulífið í landinu og það sem helst þarf þar að gera. Ég lít svo á að í þingræðislandi, sé réttur þingmanns það mikill, að hann eigi rétt á að fá slík gögn fyrst á eftir ríkisstj. á hverjum tíma. Þetta er ekki bundið við þetta eina mál. Ríkisstjórnin, hver sem hún er, hvort sem það er þessi ríkisstj. eða önnur, verður að huga betur að hvernig samskiptum ríkisstj. er varið við Alþingi. Alþingismenn geta ekki gert sig ánægða með slík vinnubrögð.

Þessi áfangaskýrsla er afhent ríkisstj., að mér skilst samkv. upplýsingum hæstv. landbrh., 22. sept. Það eru því liðnir tveir og hálfur mánuður síðan. Allan þennan tíma er hún til umfjöllunar hjá hinum og þessum forustumönnum í atvinnulífinu og farið að birta úr henni kafla í dagblöðunum. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir það að hann sýndi þann skilning, að þessi vinnubrögð eigi ekki að eiga sér stað. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. sjái svo um, þó að hér sé um áfangaskýrslu að ræða, að hún verði send alþm. öllum, ekki mér einum heldur öllum þm., því að við eigum fullan rétt á því að fá hana í hendur.