09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er full ástæða til að þetta mál sé rætt hér utan dagskrár. Ég vil taka hér til máls um það atriði, einkum og sér í lagi af því að ég ætla að sýna þessa skýrslu. Hún er svona, litur svona út. Ég hef fengið skýrsluna í hendur frá aðilum sem eru óviðkomandi þeim sem framleiddu þetta plagg, enda gengur þessi skýrsla manna á meðal hér í bænum og virðast flestir hafa séð hana aðrir en alþm. Ástæðan er auðvitað sú, að skýrslan var send fjölmörgum aðilum til umsagnar, fulltrúum atvinnuveganna, stjórnar samstarfsnefndar um iðnþróun og nokkrum öðrum. Síðan er liðinn talsverður tími og skýrslan hefur verið til umsagnar hjá þessum aðilum. Slíka umsögn er ekki hægt að gefa nema fleiri aðilar en einn hafi skýrstuna undir höndum.

En það, sem er dálítið skemmtilegt við þetta mál, er að þetta er eitthvert mesta handarbakamál sem ríkisstj. hefur komið nærri. Ég ætla að lýsa sögunni. Hún er þessi:

Hæstv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson kemur á stjórnarfund hjá ríkisstjórn lýðveldisins Íslands hinn 30. mars 1980 og flytur langa og ítarlega tillögu um þetta mál. Í tillögunni er skýrt tekið fram að það eigi að skila skýrslunni fyrir 1. júlí sama ár, — ég endurtek: 1. júlí 1980. Þessi tillaga er samþykkt. Svo líður apríl og maí, júní, júlí, ágúst og kemur september. Hinn 9. sept. þóknast ríkisstj. að skipa nefndina sem átti að skila 1. júlí. Það er hæstv. forsrh. sem skipar nefndina. Síðan líður þetta ár. Um áramótin gefur hæstv. ríkisstj. út boðskap. Í 13. gr. svokallaðra efnahagsaðgerða um s. l. áramót — ég er hérna með Hagtölur mánaðarins — segir svo:

„Hraðað verði samanburði á starfsskilyrðum höfuðatvinnuveganna og þau samræmd. Tryggt verði að starfsskilyrði iðnaðar verði ekki lakari en annarra atvinnugreina.“

Hér er beinlínis verið að óska eftir því, að þessu starfi sé hraðað. Svo líður febrúar eftir janúar, mars, apríl og maí. Það er spurst fyrir um þessa skýrslu og þm. er sagt að hún komi í síðasta lagi í júní. Júní kemur, júlí, ágúst og september. Þá skilar nefndin áfangaskýrslu til hæstv. ríkisstj. Og nú er árinu að ljúka og von á nýjum áramóta aðgerðum. Ætli komi ekki önnur klausa þá um að þessu verði hraðað? Það er náttúrlega alger skrípaleikur sem hér á sér stað, einfaldlega vegna þess að hæstv. ríkisstj. er bara ekki fær um að starfa að málum eins og þessum.

En eitt hefur gerst sem er ástæða til að taka inn í þetta mál líka. Það er að hæstv. ríkisstj., a. m. k. hæstv. forsrh., skipaði nefnd í framhaldi af þessari nefnd — það er nefnd embættismanna undir stjórn Þórðar Friðjónssonar — til að vinna úr þessari skýrslu frekari tillögur áður en alþm. fá að sjá skýrsluna. Fyrst hæstv. landbrh. ætlar að vera svo góður að tala við hæstv. forsrh. þegar hann kemur heim, þá vill hann kannske bæta við spurningunni, hvort ekki væri ástæða til að gefa hv. Alþingi einhver svör um það, hvað sé að gerast í þessum málum, fyrst búið er að skipa embættismenn í nefnd um þetta efni. Læt ég svo umfjöllun lokið um þessa skýrslu, sem er hér til afnota fyrir þá sem vilja skoða hana, því það er auðvitað ekkert leyndarmál sem í henni er.

Kem ég þá að annarri skýrslu sem ég hef hér. Hún heitir Tillögur til fjmrh. um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum. Hún er líka gefin út í sept. 1981. Eins og hv. alþm. muna hefur tvívegis á tveimur árum verið flutt af nokkrum þm. frv. um svokallaða tollkrít. Hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., sem ég sá hér í sal rétt áðan, lýstu því yfir við umr. um tollkrítarmálið, að von væri á frv. um tollkrít, og s. l. vor var sagt að sú nefnd, sem sett var á laggirnar til að vinna að þessu máli, mundi skila s. l. vor. Nefndin hefur unnið mikið og gott starf og skilaði af sér í sept. s. l. Þessu plaggi var dreift til stjórnarþm., en ekki til þeirra sem fluttu málið inn á Alþingi. Síðan hefur ekkert heyrst um þetta mál. Það liggur bara í skýrslu.

Það getur vel verið að þetta sé einhver ný aðferð í stjórnsýslunni. Kannske er hún gömul. En óskaplega hlýtur það að vera stórt herbergi sem geymir allar þessar skýrslur ólesnar hjá hæstv. ríkisstj. Ég veit hins vegar að skýrsluhólfið í iðnrn. er stórt og mikið. Þar virðist allt fullt af skýrslum. Þar er heill herskari af fólki til að lesa þessar skýrslur. Og þeir komast ekki yfir annað en að lesa. Engar ákvarðanir eru teknar. En nú virðast fleiri hafa tekið upp þennan hátt. Það eru gefnar út skýrslur, þær sendar örfáum úrvalsgæðingum og látnar liggja. Þingmenn fá ekki að sjá skýrslurnar. Mál, sem liggur á að koma í gegnum þingið, eru geymd í skýrslum.

Ég skora á hæstv. ríkisstj. og hæstv. landbrh. að koma þeim skilaboðum til hæstv. ríkisstj., að það fari fram vinna á borð við þá, sem liggur í tillögum til fjmrh., og þá, sem liggur í skýrslum til hæstv. forsrh., til þess að hægt sé að koma góðum og gildum málum í gegnum þingið. Þessi vinnubrögð þurfa að breytast.

Ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að taka til máls utan dagskrár um þetta mál. Ég vil jafnframt þakka hæstv. landbrh. fyrir að ætla að koma þessum skilaboðum til hæstv. forsrh. og ríkisstj.