09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. landbrh. skuli ætla að gefa hæstv. forsrh. skýrslu um málið þegar hæstv. forsrh. kemur heim. Vænti ég þess þá, að hæstv. landbrh. geri það skriflega svo það verði alveg ljóst að hæstv. forsrh. fái það í hendur ásamt öðrum skýrslum sem hann hefur til umráða. Annars minnir þessi saga mig á það, að fyrir nokkuð mörgum árum var Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins að gera ýmsar nýstárlegar tilraunir. M. a. komst stofnunin að þeirri niðurstöðu, að öndvegisefni til þess að framleiða einingar í milliveggi væru gamlar skýrslur sem hefðu safnast saman hjá ýmsum stjórnsýslustofnunum og lægju þar litt eða ekki lesnar. E. t. v. er það merkasta framlag núv. hæstv. ríkisstj. til iðnaðarmála í landinu að skilja eftir sig slíki skýrslufargan að það gæti enst byggingariðnaðinum, a. m. k. hér í Reykjavík, um allnokkurt áraskeið til þess að framleiða úr því milliveggjaeiningar í innveggi.

En það er nú ekki málið heldur hitt, að ég vil mjög taka undir það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, að það gengur að sjálfsögðu ekki að alþm. verði að afla sér upplýsinga um stöðu efnahagsmála í þjóðfélaginu með því að reyna að hafa samband við og leita upplýsinga hjá aðilum utan þingsins og utan ríkisstj. Það hefur oft gerst áður að ríkisstj. hafi látið gera athuganir og rannsóknir á stöðu atvinnuveganna og ýmsum viðkvæmum málum í þjóðarbúskapnum, svo sem vísitölumálum o. fl. Ríkisstj. hefur venjulega talið sér ávinning að því að hafa eitthvert samstarf við Alþingi um slík mál. Hafa ríkisstjórnir þess vegna oft haft þann hátt á að senda þingflokkum slík gögn sem trúnaðarmál, jafnvel á meðan gögnin voru í vinnslu. Ég þekki ekkert dæmi þess, að flokkar Alþingis hafi nokkurn tíma rofið slíkan trúnað gagnvart ríkisstj., jafnvel þótt mál hafi verið miklu viðkvæmari en þau sem hér er verið að fjalla um. Man ég í þessu sambandi t. d. eftir því, að á meðan starf svokallaðrar vísitölunefndar fór fram fengu þingflokkar ýmis gögn um mjög viðkvæm málefni sem trúnaðarmál fyrir atbeina ríkisstjórnar. Enn fremur í þau mörgu skipti sem gerð hefur verið könnun á stöðu einstakra atvinnuvega, t. d. sjávarútvegs, hafa þingflokkum verið gefnar trúnaðarupplýsingar um atriði sem vörðuðu fólk miklu meira en jafnvel sú skýrsla sem hér er um að ræða. Ég man aldrei eftir að þingflokkar hafi rofið trúnað við ríkisstj. í því sambandi.

Núv. hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp alveg nýja siði. Hún er gjörsamlega hætt að hafa samráð við Alþingi, jafnvel um starfsemi þingsins sjálfs, eins og kom fram í umr. hér í gær. Og það er ekki aðeins að þingmenn þurfi að verða sér úti um þær upplýsingar, sem hv. þm. Friðrik Sophusson flaggaði með hér áðan, hjá einhverjum aðilum úti í bæ, eins og sá þm. hefur væntanlega gert, heldur kom einnig fram í umr. á Alþingi í gær að ráðherrar í ríkisstj. og formenn flokka, sem standa að hæstv. ríkisstj., eru að mæta á fundum ýmissa aðila sem ekkert eiga skylt við stjórn efnahagsmála í landinu, — fundum sem haldnir eru úti í bæ — og eru þar að gefa upplýsingar og láta hafa eftir sér í fréttabréfum fregnir um aðgerðir í efnahagsmálum og stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum sem þessir sömu hæstv. ráðherrar fást alls ekki til að ræða við Alþingi og varla við eigin flokka. Kemur mönnum það væntanlega nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar t. d. formaður Framsfl., eins og kom fram hér í umr. í gær, mætir á fundi kaupfélagsstjóra, sem koma víðs vegar að af landinu, til þess að greina kaupfélagsstjórum frá því, hvað væntanlegt sé að fiskverð verði hækkað mikið um n. k. áramót, og síðan eru þær upplýsingar prentaðar í fréttabréfi frá Sambandi ísl. samvinnufélaga og m. a. sendar þingmönnum. Þar fá þingflokkarnir og þm. á Alþingi Íslendinga upplýsingar sínar um málefni eins og það hvað fiskverð eigi að hækka mikið núna um áramótin að mati hæstv. sjútvrh., form. Framsfl. Það er ekki verið að ræða þessi mál við aðila að fiskverðsákvörðun, hvorki sjómenn, útvegsmenn né fiskkaupendur. Það er ekki verið að greina frá þessu hér í þinginu. Nei, þessar upplýsingar eru gefnar á fundum með kaupfélagsstjórum á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga, síðan gefnar út í Sambandsfréttum og berast Alþingi og hugsanlega öðrum ráðherrum með þeim hætti.

Þetta eru auðvitað vinnubrögð sem eru algjörlega forkastanleg og fordæmanleg og fyrir neðan allar hellur að einstakir ráðherrar skuli komast upp með að temja sér. Auðvitað á hæstv. forsrh. að grípa inn í, ef hann ætlar að hafa einhverja stjórn á sínu liði, og beina þeim vinsamlegu tilmælum til samstarfsmanna sinna í ríkisstjórn að þeir sýni aðilum eins og Alþingi Íslendinga og stuðningsmönnum þessarar ríkisstjórnar í þinginu ekki þá óvirðingu að haga sér eins og þessi hæstv. ráðh. hefur gert í þessu tiltekna máli, sem er hneyksli.