09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. lagði til að þessu frv. yrði vísað til fjh.- og viðskn. Skal ég því vera stuttorður um það því að ég hef tækifæri innan nefndarinnar til að ræða málið og þá síðar við 2. umr. þessa máls.

Hér er verið að fara nokkuð inn á nýjar brautir. Þetta frv. er til staðfestingar á þeim brbl. sem gefin voru út í ágústlok. Það er eitt af fylgifrumvörpum eða málum um bráðabirgðaúrræði hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum sem hafa einkennt störf hennar allt frá þeim tíma að hún tók við. Það er dæmigert um skammtímalækningar sem þessi stjórn hefur látið sér nægja og ætlar sennilega að láta sér nægja á meðan hún tórir.

Í Ed. var samþykkt við þetta frv. brtt., sem hæstv. forsrh. flutti og er í sambandi við ráðstöfun gengishagnaðarins. Hún fjallar um ráðstöfun á hluta gengismunar útfluttra sjávarafurða, sem framleiddar voru fyrir ágústlok, og gerir ráð fyrir að ríkisstj. fái um það sjálfdæmi sér til handa, hvort gengismunur á einstökum afurðum sé gerður upptækur eða ekki.

Hér er gert ráð fyrir heimild fyrir ríkisstj. eða fjmrh. til að ábyrgjast lán að upphæð 42 millj. kr. til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Það verður ekki séð, vegna þeirra skilmála sem settir eru, að sjóðurinn geti nokkurn tíma endurgreitt þetta lán. Því lendir það á þeim aðila sem tekur ábyrgð á láninu, sem er ríkissjóður, innan tveggja ára. Hér má því segja að sé um hreint uppbótakerfi að ræða. Þau skilyrði, sem eru fyrir ábyrgðinni vita allir menn um á þessari stundu. Þau eru þess eðlis, að þau gera ekki ráð fyrir að sjóðurinn geti endurgreitt lánið, vegna þess að það er skilyrði að 30% verðhækkun verði á þessum tilteknu afurðum á næstu tveimur árum í erlendum gjaldeyri. Það vita allir menn, og hæstv. viðskrh. líka, að er ekki fyrir hendi. Hér er þess vegna um dulbúið ríkisframlag að ræða, millifærsluleið sem er afleiðing af því, að ríkisstj. hefur viðhaldið fölsku gengi íslensku krónunnar þetta ár.

Svo þegar menn benda á að gengið hafi verið ranglega skráð, þá fara hæstv. ráðherrar eins og köttur í kringum heitan graut. Hæstv. forsrh. segir: Við höfum ekkert með gengisskráninguna að gera, það er Seðlabankinn. — Þetta er alltaf viðkvæðið hjá honum. Eða þá ef menn benda á þessa röngu gengisskráningu, þá stökkva þeir upp — þá sjaldan þeir geta stokkið, núv. hæstv. ráðherrar — og segja: Þessi eða hinn er að heimta gengislækkun. — Hér er enginn að heimta gengislækkun. Gengisbreyting er afleiðing af verðbólgunni innanlands. Og það liggur ljóst fyrir, að verðbólgan er það mikil innanlands, hún bitnar svo mjög á útflutningsatvinnuvegunum að þeir hafa ekki fengið nógar tekjur fyrir sínar afurðir. Afleiðingin er sú, að vandamálið, verðbólgan, er geymt í fyrirtækjunum í landinu og auk þess stórfyrirtækjum ríkisins. Þar er vandinn geymdur. Hann er leystur með því að veita svona smáskammtalækningu eftir því sem við á hverju sinni.

Eigin fjármagn fyrirtækjanna í landinu er að brenna upp alls staðar, bæði í sjávarútvegi og iðnaði. Stórfyrirtæki ríkisins, sem eru í B-hluta fjárlaganna, eru rekin með halla og það eru mýmörg dæmi þess, að erlend lán eru tekin. Þau hafa aldrei verið tekin neitt í námunda við það sem gert hefur verið á þessu ári. Og þau eru ekki tekin til þess að byggja upp ábatasöm fyrirtæki, sem þjóðin sparar gjaldeyri á, heldur eru erlend lán nú tekin til þess að greiða halla tiltekinna fyrirtækja. Það er verið að éta upp það sem þessi fyrirtæki eiga fyrir. Og þetta tala menn um að séu einhver bjargráð sem þessi hæstv. ríkisstj. sé að finna.

Þetta er örugglega einhver versta og lélegasta ríkisstj. sem hefur setið á Íslandi, sennilega sú allélegasta sem hefur setið í nokkru vestrænu ríki. Það má kannske finna einhverja hliðstöðu í Suður-Ameríku. En svo óskammfeilin er þessi ríkisstj. að hún neitar því að það sé vandi í þ jóðfélaginu. Hún heldur því alveg statt og stöðugt fram, að verðbólgan sé 40%, af því að þeir samþykktu það á gamlárskvöld í fyrra að verðbólgan yrði frá byrjun til loka árs 40%. Þeir, sem reikna út verðbólguna, mæla hana með ýmsum hætti. En það má líka fela verðbólguna inni í atvinnurekstrinum í auknum halla og inni í rekstri ríkisstofnana eins og gert hefur verið. Þetta vita allir menn. Og þessir menn eru ekki svo skyni skroppnir að þeir viti það ekki. En með þeirri aðferð tekst aldrei að vinna á vandanum, komast fyrir rætur meinsins. Fyrsta skilyrði þess er að segja þjóðinni satt. Og þá frómu ósk á ég til þessar ríkisstj., þó ég beri ekkert traust til hennar, að hún manni sig nú upp í að fara að segja þjóðinni satt. Þá fyrst er hægt að fara að leita og grafa fyrir meinsemdir efnahagslífsins í landinu. En það er kannske ákaflega gróf ósk að fara fram á það við hæstv. ríkisstj. að hún segi þjóðinni satt. Ég sé ekki að þingræðið hefði beðið skaða af þó það hefði beðið einhvern tíma að mynda alvöruríkisstjórn, ekki þessa sem lifir í þykjustunni eins og börn í sandkassaleik.

Með þessari ráðstöfun á gengishagnaði er verið að fara inn á nýja braut hvað snertir Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Í fyrsta lagi er eytt alveg úr þeirri deild Verðjöfnunarsjóðsins, sem tilheyrir loðnu og loðnuafurðum, með þeim hætti að það er allt greitt úr deildinni, því það hefur legið svo mikið á að greiða úr öllum sjóðum sem hefur verið safnað í og með þeim ágæta árangri að loðnan var yfirkeypt. Verksmiðjurnar höfðu það rúmar hendur að þær yfirkeyptu loðnuna í fyrra. Og nú þarf að taka lán sem ríkissjóður á að borga eftir tvö ár. Þá verður þessi ríkisstj. löngu dauð, þegar á að fara að borga lánið. Þetta er árangurinn af stjórnarstefnunni. Hann er allur með þessum hætti. Það er allt handarbakavinna, sem unnin er, þá sjaldan þeir setjast niður hérlendis og reyna eitthvað að krunka saman.

Svo er þverbrotinn tilgangur Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins með þessu. Það er rétt, sem hæstv. viðskrh. sagði, að ríkissjóður hefur áður tekið ábyrgð. Það hefur áður verið gert. Og þess hefur verið krafist, þegar ríkissjóður veitti þá ábyrgð, að Verðjöfnunarsjóður greiddi aftur þá ábyrgð sem félli á ríkissjóð. Það er alveg rétt. Og það er líka rétt, að það var ekki upprunalegt hlutverk Verðjöfnunarsjóðs að ganga til slíkrar ábyrgðar, þar erum við allir sekir meira og minna. En þetta er í fyrsta skipti sem megintilgangur Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins er sniðgenginn með því að færa á milli deilda. Hér er um eignaupptöku að ræða.

Hver deild í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins á það fjármagn sem hefur verið tekið af afurðum hennar til þeirrar deildar á hverjum tíma. Það er ekki leyfilegt að færa það til á milli deilda. Það er komið í bakið á þeim sem hafa lagt þetta fjármagn til Verðjöfnunarsjóðsins. Það er þetta sem aldrei verður samkomulag um að afgreiða hér á hv. Alþingi. Það hafa oft verið erfiðleikar í þessum efnum, en aldrei verið gripið til þess ráðs að svíkja hlutverk Verðjöfnunarsjóðs með þeim hætti sem nú er gert. Ég fullyrði að Sjálfstfl. muni ekki standa að því, og ég lýsi furðu minni yfir því, að þeir menn, sem teljast til Sjálfstfl. og eru í ríkisstj., skuli leggja slíkt til. Sjálfstfl. stóð heill og óskiptur ásamt fleiri stjórnmálaflokkum að lagasetningunni um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Þessir menn hafa aldrei gert nokkra athugasemd við þennan megintilgang laganna. Hæstv. forsrh. sat í ríkisstj. 1974–1978. Þá var oft þörf á því að geta fært á milli, t. d. frá saltfiskdeild yfir í frystideild. Það hvarflaði aldrei að mér sem sjútvrh. í 4 ár að fara fram á slíkt. Enginn ráðh. í þeirri ríkisstj. benti á það sem lausn á vandanum. Þar sátu fjórir sjálfstæðismenn og fjórir framsóknarmenn. Það er ekki fyrr en nú að þetta er orðin „patent“-lausn, að stela hreinlega því fjármagni sem hefur verið aflað heiðarlega til þessarar deildar með því að færa það í annan sjóð. Þetta er ekki fallegt. Þetta er ljótur verknaður sem menn eiga eftir að sjá eftir síðar að hafa staðið að að framkvæmda.